Atvinnumál farmanna

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 14:51:56 (5721)

     Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég held að hv. þm. Guðrún Helgadóttir hafi farið svolítið út úr kortinu í sínum málflutningi. Ég held að það verði ekki um það deilt að Eimskipafélag Íslands er íslenskt félag. Þegar verið var að tala um félag sem var búið að stofna atvinnurekstur á Kýpur var ekki átt við Eimskipafélag Íslands.
    Hún telur að við hv. flm. Guðmundur Hallvarðsson vitum lítið um þetta mál. Það kann vel að vera að við vitum ekki um allar hliðar málsins en ég hugsa að við séum sæmilega heima á þessum sviðum þó við höfum aldrei haldið því fram hvorki hér í sölum Alþingis né annars staðar að við vissum alla skapaða hluti um öll möguleg og ómöguleg mál eins og mér finnst iðulega koma fram hjá öðrum sem koma hér og segja að þetta sé svona og hitt sé hinsegin.
    Ég veit ekki til að við höfum gerst aðilar að Evrópubandalaginu. Málið snýst um EES-samninginn, sagði Guðrún Helgadóttir. Ég hélt að ég hefði svarað því hér áðan þegar Ólafur Þ. Þórðarson fór með þetta mál í sama farveg að EES-samningurinn hefur ekki áhrif á það hvort hægt er að flagga skipum út eða ekki. Hann hefur ekki áhrif á það hvort hér er hægt að flagga út skipum og vera með erlendar áhafnir. Það er vonandi að fæðast skýrsla á vegum samgrn. um samkeppnisstöðu íslenskra útgerða og um störf og starfsemi skipaútgerðanna. Það sem við erum að leggja til í þessari þáltill., svo það sé alveg skýrt í stuttu máli, er einfaldlega að tryggja atvinnu farmanna og koma því verki áfram, að málið fari hér beint til samgn. þingsins og reynt verði að vinna hratt úr því og koma því í þann farveg að íslenskir farmenn geti verið samkeppnisfærir og haldið samt sínum launum með því að gera sömu skattaráðstafanir og t.d. Danir hafa gert.