Atvinnumál farmanna

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 14:56:32 (5723)

     Guðmundur Hallvarðsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir kom að því í upphafi máls síns að ég og Guðjón A. Kristjánsson vissum ekki hvað við ætluðum og talaði um að hugur okkar væri góður en það væru kannski áhöld um hvort við vissum yfir höfuð hvað við værum að fara. Það kann vel að vera að það hljómi einkennilega í hennar eyrum að heyra málflutning okkar en það hefur oftar en ekki brunnið við að sá ágæti þingmaður hafi ekki alveg verið með á því sem er að gerast í heimi atvinnulífsins. Vegna þess að í fyrsta lagi er það svo að í ágætu fréttabréfi frá Eimskipafélaginu segir m.a. að í fyrsta lagi sé lögð áhersla á frekari vöxt félagsins hér á landi en þó einkum erlendis. Það er það, hv. þm., sem við erum að reyna að sporna við fyrst og fremst, að í frekari óáran fari en orðið er. Vissulega viljum við sækja fram og stöðva þá óheillaþróun sem orðið hefur hvað snertir atvinnutækifæri íslenskra farmanna. Svo einfalt er þetta.
    Ég verð að segja að það er auðvitað líka svo með Eimskip að hvar svo sem má finna því stað í skráningu, hvort sem það er innlent eða erlent, þá vefst það ekki fyrir mér að Eimskipafélag Íslands er íslenskt fyrirtæki. Það er að vísu talsvert um það að Eimskip sé með nokkur skip á svokallaðri þurrleigu undir erlendum fána en með íslenska áhöfn. Mér þykir miður að svo skuli vera. En kaupin á eyrinni gerast nú þannig í æ ríkara mæli varðandi skip, enda er þar um allverulegar fjárupphæðir að ræða ef ekki tekst vel til um val á réttu skipi. Og kannski það líka, sem rétt er að upplýsa, að það er ekkert einfalt mál að skrá skip á Íslandi, alla vega ekki jafnauðvelt og flugvélar sem eru þó margfalt dýrari. Flugvél er hægt að skrá á Íslandi nánast með einu pennastriki á meðan það tekur viku eða vikur að skrá íslenskt kaupskip. Þess vegna m.a. hefur þetta farið í þennan farveg. En bara til að það fari ekki á milli mála: Hugur okkar er góður og við erum að reyna að byrgja brunninn áður en allur skaðinn er skeður og ég vona að okkur takist að snúa þessari óheillaþróun við.