Stuðningur við réttindabaráttu Eystrasaltsríkjanna á alþjóðavettvangi

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 15:16:36 (5730)


     Flm. (Björn Bjarnason) (frh.) :
    Frú forseti. Ég þakka fyrir það tækifæri sem ég fæ til að ljúka máli mínu. Eins og forseta er kunnugt þá kom mér mjög á óvart í gær að ég skyldi hafa talað í 15 mín. þegar ég var staddur í rauninni í miðri ræðu minni og hafði ekki tök á því einu sinni að koma því frá mér að ég legði til að þessu máli yrði vísað til utanrmn. og síðari umræðu.
    Umræðurnar hér í gær urðu líflegar og það eru ýmsir enn á mælendaskránni um málið. En mér finnst rétt að koma því hér á framfæri, vegna þeirra umræðna sem um þetta mál hafa orðið, að það hefur verið bent á það m.a. að þessi tillaga fæli í sér skerðingu á mannréttindum. Það hefur verið talið að með þessari tillögu væru tillögumenn að leggjast á sveif með öflum sem vildu í raun og veru að meiri hluti íbúa í landi gæti rekið minni hlutann á brott. Misskilningur af þessu tagi er með þeim hætti að ótrúlegt er. Því

eins og fram kom í gær þá gengur tillagan út á það að Eystrasaltsríkjunum séu ekki settir óeðlilegir kostir vegna stefnu þeirra gagnvart ríkisborgararétti þess fólks sem fluttist til landanna í skjóli sovésks hernáms. Tillagan er um það að á alþjóðavettvangi verði þessum ríkjum ekki settir óeðlilegir kostir vegna þeirrar afstöðu sem fram kemur í löggjöf þeirra og lýtur að ríkisborgararétti og spurningunni um kosningarrétt þar með og almenn borgararéttindi.
    Tillagan, eins og fram hefur komið, hefur kannski ekki sama gildi og hún hafði þegar hún var lögð fram vegna þess að það liggur nú fyrir að í Evrópuráðinu hefur verið tekin ákvörðun um að bera upp tillögu um aðild Eistlands og Litáens. Í raun og veru hafa þess vegna þær nefndir Evrópuráðsins sem fjalla um skilyrði þess hvort ríki geti gerst aðili að ráðinu komist að þeirri niðurstöðu að t.d. í Eistlandi sé löggjöf um borgararéttindi háttað með þeim hætti að samræmist ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu og öðrum þeim sáttmálum sem ríki þurfa að gangast undir til að geta orðið aðilar að Evrópuráðinu.
    Þetta liggur nú fyrir sem lá ekki fyrir þegar tillagan var lögð fram. Engu að síður tel ég mikilvægt að þessi tillaga sé rædd í þinginu og mér finnst að umræðurnar sem urðu í þinginu í gær rökstyðji þá skoðun mína að um þetta mál þurfi að fara fram umræður á þingi. Bæði vænti ég þess að fleiri eigi eftir að taka til máls um málið í þingsalnum og einnig vona ég að einhverjar umræður verði um málið þegar það fer til utanrmn.
    Það sem hér er um að ræða er að ríki sem voru sjálfstæð lentu síðan í þeim ógöngum að stórveldi, Sovétríkin og Þýskaland, ákváðu í leynilegum samningi einræðisherra, sem þá fóru með völd í Þýskalandi og Sovétríkjunum, að þessi ríki skyldu verða eins konar gjald til Sovétríkjanna fyrir að gera griðasáttmála við Þýskaland og löndin voru svipt sjálfstæði sínu. Þegar Sovétríkin höfðu tekið löndin var tekin upp sú stefna að reyna að þurrka út menningu Eystrasaltsþjóðanna. Þá voru fluttir á brott frá löndunum tugir þúsunda manna og til landanna voru síðan fluttir Rússar og ætlunin var að rússnesk menning upprætti menningu þessara þjóða. Nú þegar þessar þjóðir hafa fengið sjálfstæði að nýju og stjórnkerfi herraþjóðarinnar er hrunið eru eftir í löndunum mörg hundruð þúsund Rússar. Og spurningin er sú: Hvaða réttar eiga þessir Rússar að njóta?
    Það hafa verið settar reglur um það í Eistlandi og verið er að smíða reglur um það í Lettlandi hvernig að ríkisborgararétti þessa fólks skuli staðið. Það er rakið í grg. með tillögunni. hvernig að þessu er staðið í Eistlandi. Og eins og nú liggur fyrir þá hafa reglurnar sem gilda í Eistlandi verið taldar þess eðlis að þær samrýmist þeim reglum sem gilda um lýðræðislega stjórnarhætti og Eistland verður vonandi tekið í hóp Evrópuráðsríkja nú í vor.
    Þetta er kjarni málsins. Það er spurningin um það hvaða rétt hinir fornu íbúar Eystrasaltsríkjanna hafa til að ákveða með reglum stöðu hins rússneska fólks sem var flutt til landanna í skjóli Sovétstjórnarinnar. Vonandi tekst að leysa úr þessu með friðsamlegum hætti og að ekki verði þær deilur út af þessu máli að beinlínis komi til átaka. En það er augljóst að fyrir þá Rússa sem eru í Eystrasaltsríkjunum, eins og Rússa í öðrum fyrrverandi hlutum Sovétríkjanna sem eru taldir um 25 milljónir alls, er ákaflega erfitt að laga sig að þessum breyttu aðstæðum og sársaukafullt í mörgu tilliti.
    Tillagan gengur út á það að ekki hafi verið staðið að því með þeim hætti í Eystrasaltsríkjunum að koma réttindum þessa fólks fyrir að það eigi að skerða þátttökurétt ríkjanna í alþjóðlegu samstarfi. Hvatt er til þess að ríkisstjórn Íslands sjái til þess að þjóðunum séu ekki settir óeðlilegir kostir í því sambandi. Nú má auðvitað deila um hvað eru óeðlilegir kostir. Þótt Evrópuráðið komist að þeirri niðurstöðu að það sé í lagi með löggjöfina í Eistlandi t.d. þá er vitað að Rússar sætta sig ekki við þetta og telja gengið fram með of mikilli hörku gagnvart Rússunum í aðallega tveimur löndum, Lettlandi og Eistlandi. Þetta er ágreiningsefni sem m.a. setur svip sinn á hörð stjórnmálaátök í Moskvu um þessar mundir.
    En ég lít á það sem stuðning við sjálfstæðisbaráttu þessara þjóða að auðvelda þeim þátttöku í alþjóðlegu samstarfi. Við Íslendingar vorum í forustu þegar sjálfstæði þeirra var viðurkennt eins og kunnugt er og Alþingi Íslendinga hafði sérstaka forgöngu í því máli með ályktunum sem hér voru gerðar og vöktu mikla athygli. Ég tel að nú þegar þessar þjóðir eru að leita eftir viðurkenningu með þátttöku í alþjóðlegum samtökum sé mikilvægt að við fylgjum ákveðinni og skýrri stefnu varðandi þetta mál og leggjum okkar lóð á vogarskálina til að auðvelda ríkjunum þátttöku í þessum alþjóðasamtökum.
    Frú forseti. Menn ræða um að í þessu sambandi sé verið að tala um ótilhlýðilega meðferð á minnihlutahópum en ég held að þetta eigi ekki beinlínis skylt við það. Þetta er spurning um uppgjör við hið sovéska hernám og eðlilegt uppgjör á þeim vanda sem skapaðist við það að þessar þjóðir urðu eins konar skiptimynt í viðskiptum Stalíns og Hitlers. Það er sá vandi sem við er að etja en ekki spurningin um sanngjarna löggjöf varðandi minnihlutahópa. Enda held ég að í þessum löndum sé meiri viðurkenning á rétti minnihlutahópa en menn átta sig á.
    Og mig langar, með leyfi virðulegs forseta, að lesa úr grein í Morgunblaðinu frá 15. des. sl., eftir Ivedu Gedani sem er Letti og stundar nám við Háskóla Íslands. Þar segir:
    ,,Þeim sem þykjast bera hag minnihlutahópa fyrir brjósti láist að nefna það að eftir að Lettland endurheimti sjálfstæði sitt hafa þjóðleg menningarfélög, t.d. Rússa, Þjóðverja, gyðinga og Pólverja verið endurlífguð og skólar þar sem kennt er á tungu minnihlutahópa hafa verið opnaðir á ný. Þeir horfa fram hjá fleiri staðreyndum sem ekki henta þeirra málstað. Þeir fullyrða að ungum Rússum sé bannað að stunda nám við háskólann í Lettlandi. Það er helber lygi því engar þjóðernishömlur eru á inngöngu í skólana. Þar eru

reyndar ýmsar greinar aðeins kenndar á lettnesku en Rússum er frjálst að svara prófum á sínu máli. Það eina sem hindrar Rússa í að læra í Lettlandi er að þeir skilja ekki málið. En það má ekki horfa fram hjá því að Rússum standa opnir ótal skólar um allt Rússland þar sem þeir geta numið á eigin tungu, Lettum bjóðast aðeins sínir eigin skólar.``
    Þarna er því lýst að minnihlutahópar og réttindi þeirra eru viðurkennd í þessu ríki, Lettlandi, sem enn á eftir að ganga frá sinni löggjöf og fullnægja þeim skilyrðum sem Evrópuráðið gerir bæði að því er þetta varðar og einnig varðandi það að fram fari í landinu lýðræðislegar kosningar. En ég vænti þess að að loknum þeim kosningum verði flutt tillaga um það á vettvangi Evrópuráðsins að Lettland verði þar aðili.
    Alls staðar í þessum löndum er því leitast við að taka tillit til minnihlutahópa. Hins vegar geta þjóðirnar í löndunum ekki sætt sig við að án þess að þær hafi eitthvað um það að segja og setji reglur um það verði allur sá stóri hópur Rússa sem til landanna flutti í skjóli sovéska valdsins ríkisborgarar þar. Eins og ég sagði hér í ræðu minni í gær þá verða menn, þegar þeir ræða um þetta mál og mannréttindi, einnig að gera sér grein fyrir því að reglur um ríkisborgararétt eru í sjálfu sér ekki taldar skerðing á mannréttindum. Hér á Alþingi vitum við að hér á landi gilda ákaflega strangar reglur um ríkisborgararétt en enginn sakar Íslendinga um að brjóta mannréttindi í því tilliti þó talið hafi verið jaðra við það á tímabili þegar strangar kröfur voru gerðar um að menn skiptu um nafn þegar þeir urðu íslenskir ríkisborgarar.
    Þetta er, frú forseti, kjarni þessa máls sem ég hef hér reynt að lýsa. Það er spurningin um að við viðurkennum að þessar þjóðir hafi tekið skynsamlega á þessum mikla vanda varðandi hinn mikla fjölda Rússa sem býr í löndunum og að það verði viðurkennt að þær glími við sérstakan vanda og þeim verði ekki settir óeðlilegir kostir á alþjóðavettvangi vegna þess vanda heldur verði þeim auðveldað að laga sig að alþjóðlegu samstarfi, taka þátt í því og leysa þennan vanda með þeim hætti sem samræmist þeim kröfum sem við gerum almennt í mannréttindamálum.
    Ég vil að lokum, hæstv. forseti, þakka þá niðurstöðu sem varð á ágreiningi um lengd fyrri ræðu minnar og ítreka þá tillögu mína að málinu verði vísað til utanrmn. og síðari umr.