Stuðningur við réttindabaráttu Eystrasaltsríkjanna á alþjóðavettvangi

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 15:59:44 (5737)


     Flm. (Björn Bjarnason) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég minnist þess þegar hv. 1. þm. Norðurl. v. fór til Eystrasaltsríkjanna eins og hann rifjaði upp að þá vöktu ýmsar yfirlýsingar hans mikla athygli þegar hann kom þaðan. Hann taldi að það ætti ekki endilega að taka mikið mark á þeim sem vildu sjálfstæði þessara ríkja. Ég man ekki hvort hann talaði um það sem einhver öfgasjónarmið. Þannig að ég minnist þess vel. En ég vil aðeins taka það fram hér að það eru þrír flm. þessarar tillögu úr Alþfl., flokki utanrrh. og það er algjörlega fráleitt að telja að þessi tillaga sé einhvers konar vantraust á ráðherrann. Ráðherrann vissi um það fyrir fram að hún yrði flutt. Hins vegar eru flm. allir þátttakendur í alþjóðlegu samstarfi þingmanna og það verður líka að hafa það í huga í þessu að það er ekki einungis ríkisstjórnin sem tekur afstöðu til þess hvort samtök eða ríki fái aðild að alþjóðasamtökum heldur er það oft borið undir þing viðkomandi samtaka eins og t.d. í tilviki Evrópuráðsins. Það er ekki aðeins gagnlegt fyrir ríkisstjórnina að vita hug Alþingis í málum sem þessum heldur er einnig nauðsynlegt fyrir þingmenn sjálfa að gera upp hug sinn og ég tel að við flm. höfum gert það með skýrum hætti með því að flytja þessa tillögu og það auðveldi okkur þátttöku í starfi fyrir hönd Alþingis á alþjóðavettvangi. Þannig ber að líta á þetta en ekki sem neitt vantraust á utanrrh. þó þessi tillaga sé flutt enda er fráleitt að draga þá ályktun þegar menn lesa hverjir eru flm. eða efni tillögunnar að í henni felist nokkurt vantraust á hæstv. utanrrh.