Stuðningur við réttindabaráttu Eystrasaltsríkjanna á alþjóðavettvangi

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 16:03:21 (5739)

     Flm. (Björn Bjarnason) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég þakka hv. ræðumanni fyrir ummæli hans, hann tók alveg af skarið varðandi stuðning við sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna. En eins og ég sagði, eftir för hans til þeirra ríkja sem hann sjálfur rifjaði upp þá gátu ýmsir efast um það hvort hann styddi það því hann talaði um að það væru öfgasjónarmið þegar menn væru að tala um sjálfstæði þeirra og sú för var eftirminnileg fyrir það, þótt hann minnist helst farar utanrrh. vegna einhverrar tösku sem ráðherrann hafði með sér í leiðangri sínum til ríkjanna, þannig að þessar ferðir eru minnisstæðar þó að ólíkum toga sé.
    En hitt er rétt að það eru mörg vandkvæðin sem koma upp en við skulum minnast þess að þrátt fyrir að Eystrasaltsþjóðirnar eigi í þessum vandræðum út af Rússum innan sinna landamæra, þá efast enginn um þeirra sjálfstæði og þeirra rétt til að taka ákvarðanir sjálfar, t.d. um ríkisborgararétt innan sinna landamæra og mér heyrist allir vera sammála um það þótt það hafi að vísu komið fram hjá sumum að kannski séu þær kröfur sem gerðar eru of strangar en það getum við rætt. En við hv. síðasti ræðumaður vorum ekki í sjálfu sér ósammála um það atriði.