Endurskoðun slysabóta sjómanna

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 16:09:06 (5742)

     Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef lagt fram tillögu til þál. um endurskoðun slysabóta sjómanna samkvæmt siglingalögum. Flm. ásamt mér er Guðjón A. Kristjánsson. Tillagan hljóðar þannig:
    ,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að skipa nefnd til þess að endurskoða reglur um bótarétt íslenskra sjómanna vegna líkamstjóns. Í nefndinni skulu m.a. eiga sæti fulltrúar sjómanna og útgerðarmanna, Siglingamálastofnunar, rannsóknarnefndar sjóslysa, Sambands íslenskra tryggingafélaga og fleiri.``
    Flm. þessarar þáltill. eru þess fullvissir að mikil nauðsyn sé á að endurskoða þau ákvæði siglingalaga sem lúta að bótum til sjómanna vegna slysa. Mér þykir rétt, með leyfi virðulegs forseta, að vitna til niðurstöðu nokkurra dóma sem til eru vegna slysa á sjómönnum og segja allt það sem segja þarf um nauðsyn þessarar endurskoðunar.
    Það var háseti á togara sem þurfti vinnu sinnar vegna að hraða för sinni eftir þilfari skips en það var ógreið leið vegna fiskikassa. Steig hann þá upp á snúningsás en gætti þess ekki að yfirborð hans var sleipt af slori. Er hann var staddur uppi á ásnum reið alda undir skipið en við það missti hásetinn jafnvægið, féll á þilfar og handleggsbrotnaði. Hásetinn höfðaði skaðabótamál á hendur útgerð skips en hún var sýknuð og í dómi segir að eins og slysinu var háttað þyki það ekki vera rakið til vanbúnaðar skips, handvammar starfsmanna, útgerðar né annarrar áhættu sem hún eigi að bera ábyrgð á.
    Í öðru tilfelli var háseti á togara sem var að veiðum. Hann var við vinnu sína á þilfari, slæmt var í sjó en eigi sannað að togveður hafi verið ófært. Reis sjóhnútur á bakborða á móts við stjórnpallinn um 10--20 m frá skipinu, vannst enginn tími til að snúa skipinu í því skyni að forðast sjóhnútinn. Háseti reyndi að forða sér undan sjóhnút sem skall á hann. Hann féll á þilfar og slasaðist. Skipstjóri sýnda enga vangæslu með því að láta veiða í því veðri sem var. Enginn tími vannst til að vara háseta við áður en sjóhnúturinn reið yfir en skipseigandi var sýknaður af skaðabótakröfu.
    Í nýlegum dómi sem er nokkuð merkilegur segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Skipstjóri á skipi skýrir svo frá fyrir dómi að mikil þrengsli hafi verið í höfninni á þeim stað sem togarinn var að leggjast að. Þar hafi tvö önnur skip legið utan á hvort öðru og hafi því skipi sem að bryggju var að koma verið ætlað 60 m bryggjupláss en skipið sé 57 m langt. Þeir hafi verið komnir í algjöra klemmu og ekki hafi verið unnt að snúa til baka, þeir hafi verið komnir það nærri bryggjunni að ekki yrði aftur snúið, skipið sé án hliðarskrúfu. Skipstjórinn áleit að skipið hefði lent í miklum vandræðum, ef stefnandi, þ.e. sá háseti sem hér á hlut að máli, hefði ekki farið í land til að taka á móti landfestuvírum. Þá hefði skipið hugsanlega rekist utan í þau skip sem tiltekin voru að framan enda hafi vindur verið hvass og erfitt að eiga við stjórn skipsins. Þá hefði getað farið svo að skemmdir hefðu getað hlotist af.
    Stýrimaður á umræddu skipi skýrir svo frá fyrir dómi að hann hafi verið fram á bakka ásamt háseta er skipinu var siglt upp að bryggju og hafi þá komið fyrirskipun úr brú um að maður ætti að fara í land til að taka á móti landfestum. Þessari skipun hafi verið beint til háseta sem vaktformanns. Háseti hafi síðan látið sig síga niður strax og hafi stýrimaðurinn séð háseta hverfa fram af bakkanum en ekki séð er hann lenti á bryggjunni. Þá hafi háseti horfið úr sjónmáli. Hann kvað yfirborð bryggjunnar hafa verið með klakahrönglum og erfitt að fóta sig á því.``
    Í kröfugerð háseta vegna þess líkamstjóns sem af hlaust, fótbrot og annað, gerir hann kröfu á hendur útgerð sem byggir sýknukröfu sína á því að ekki séu lagaskilyrði til að fella á hann skaðabótaábyrgð á slysi þess háseta sem hér um ræðir. Því sé sérstaklega mótmælt að skipstjórnarmönnum hafi orðið á einhver mistök, yfirsjón eða vanræksla sem valdið hafi slysinu. Skipstjórnarmenn hafi á leiðinni til lands kallað hafnarvörð uppi, fengið hafnarsvæði og boðað komu togarans og því ekki þeim að kenna að ekki voru menn á bryggjunni til að taka við landfestum. Eftir sem áður hafi hins vegar orðið að binda togarann við bryggju. Hafi því einhver skipverja orðið að fara í land eins og á stóð til að taka á móti landfestum. Tilmæli skipstjóra þess efnis hafi þannig verið fyllilega eðlileg og ósaknæm.
    Síðar segir að slysið verði því ekki rakið til annars en óhappatilviljunar og ógætni stefnanda, þ.e. hásetans, við stökk niður á bryggjuna. Verði hann því að bera tjón sitt sjálfur enda telji háseti líklega skýringu á því að hann kom illa niður vera þá að hann var í flotgalla. Þá sé ekki ólíklegt að hreyfing togarans á öldu hafi einnig átt sinn þátt í því að háseti kom harkalega niður. Þannig sé um dæmigert óhappatilvik að ræða en útgerð ber ekki bótaábyrgð að lögum.
    Hér er rakið lítil dæmi um aðdraganda niðurstöðu dómenda sem hljóðar svo að það hafi óvefengjanlega, þ.e. hásetanum sem vönum sjómanni sem þar að auki hafi áður farið í land með þessum hætti, en þá við betri aðstæður, að ráðast til landgöngu með þessum hætti við aðstæður sem honum máttu vera ljósar að hefðu talsverða hættu í för með sér. Með hliðsjón af atvikum öllum þykir því hæfilegt að hásetinn beri sjálfur 2 / 5 hluta tjónsins en útgerðin 3 / 5 hluta.
    Hér hefur verið vitnað í fáeina dóma. Í framhaldi af þessu máli sem ég hef síðast vitnað til fór svo um þennan sjómann að hann hlaut varanlega örorku, 35%, en var illa bættur vegna þess líkamstjóns sem hann varð fyrir, eins og hér hefur komið fram, vegna þeirra ákvæða sem í siglingalögum eru um hina svokölluðu hlutlægu ábyrgð útgerðarmanns og hefur það nú oftar en ekki farið í vöxt að dómar falla á þann veg að hluta þess óhapps sem vill verða í slysum er nú beint í æ ríkari mæli á sjómenn sjálfa. Í grg. með þessari þál. segir svo:
    ,,Samkvæmt 172. gr. siglingalaga ber útgerðarmaður ábyrgð á kröfum vegna lífs- eða líkamstjóns þeirra sem ráðnir eru í skiprúm hjá honum hafi slys borið að höndum þegar hlutaðeigandi var staddur á skipi eða vann í beinum tengslum við rekstur skips enda þótt slysið eða tjónið verði ekki rakið til sakar útgerðarmanns. Samkvæmt lagagreininni ber útgerðarmaður því hlutlæga ábyrgð (þ.e. ábyrgð án sakargrundvallar) með nánari skilmálum vegna lífs- eða líkamstjóns skipverja hans og er hann þá jafnframt með lagaráðstöfun hvattur til að kaupa tryggingar í þessu skyni.
    Í 2. mgr. 172. gr. segir að útgerðarmanni sé skylt að kaupa tryggingu fyrir dánarbótum og slysabótum eftir nánari reglum. Í lagagreininni eru nefndar ákveðnar fjárhæðir en samkvæmt niðurlagi greinarinnar taka þær fjárhæðir breytingum í samræmi við laun Dagsbrúnarverkamanna.
    Samkvæmt 173. og 174. gr. siglingalaga hefur útgerðarmaður rétt til að takmarka ábyrgð sína eftir ákveðnum reglum. Samkvæmt 5. tölul. 1. mgr. 175. gr. laganna nær þessi takmörkun ábyrgðar ekki til krafna vegna tjóns á mönnum eða munum sem þeir verða fyrir sem ráðnir eru hjá útgerðarmanni eða ábyrgðarmanni útgerðar og sem rækja starf í þágu skips eða í sambandi við björgun, þó þannig að verði lífs- eða líkamstjón á mönnum sem ráðnir eru í skiprúm hjá útgerðarmanni með þeim hætti sem frá er greint í 1. mgr. 172. gr. takmarkast hin hlutlæga bótaábyrgð útgerðarmanns við þær fjárhæðir sem um ræðir í 2. mgr. greinarinnar. Er í þessu efni byggt á sömu reglu og var í 2. mgr. 205. gr. eldri laga um hlutlæga ábyrgð útgerðarmanns á vinnuslysum. Hún veitti sjómönnum umtalsverða réttarbót frá því sem leiðir af almennum bótareglum.
    Með þessari hlutlægu ábyrgðarreglu var komið á samræmi milli sjómanna og landverkafólks. Hluti af bótarétti landverkafólks vegna lífs- og líkamstjóns byggir á ákvæðum kjarasamninga um hlutlæga ábyrgð atvinnurekanda, þ.e. hinni svokölluðu slysatryggingu launþega. Í siglingalögum, eins og í almennum kjarasamningum, er þeirri reglu fylgt að útgerðarmanni sé skylt að kaupa tryggingu fyrir dánarbótum og slysabótum eins og áður segir. Hin hlutlæga ábyrgð eða slysatryggingin er hjá íslenskum launþegum í öllum tilfellum takmörkuð við þak eða hámarksfjárhæð en útilokar ekki frekari bótaábyrgð á grundvelli sakar ef sök sannast. Ábyrgð útgerðarmanns á sakargrundvelli á þess háttar tjóni lýtur hins vegar ekki takmörkun, sbr. 5. tölul. 175. gr., sem þýðir í raun að sjómenn verða eins og landverkafólk að sækja bætur umfram hina hlutlægu ábyrgð eftir reglum skaðabótaréttarins. Í þeirri stöðu verður launþeginn, sjómaðurinn, að sanna sök atvinnurekandans. Bótaábyrgð fellur ekki á útgerðarmann án sakar hans eða starfsmanna hans, þ.e. án ásetnings eða gáleysis eftir reglum skaðabótaréttarins. Takist launþega ekki að sanna þessa sök fær hann ekki tjón sitt bætt að öðru leyti en sem nemur hinni hlutlægu ábyrgðarreglu og er það oftast aðeins lítill hluti heildartjónsins. Undir óbætt tjón falla öll þau fjölmörgu tilvik þegar slys verða fyrir óhappatilviljun og gildir í því efni það sama á sjó og í landi. Vinnuslys starfsmanna vegna óhappatilvika eru aðeins bætt að litlu leyti samkvæmt íslenskum rétti. Hinir slösuðu verða þá að bera tjón sitt sjálfir.
    Það sem veldur því hins vegar að þessu máli er hreyft með þessari þingsályktunartillögu er að slys á sjó eru langtum algengari en slys í landi og miklu oftar verða þau rakin til óhappatilvika en í landi. Að sögn kunnugra verða vinnuslys í landi oftast vegna vanbúnaðar, leiðbeiningarskorts og gáleysis. Í sjómennsku er hins vegar meira um óhöpp sem eiga rætur að rekja til þess að sjómannsstarfið er hættulegra en störf í landi, vinnustaðurinn og hreyfing sjávarins er hættulegri lífi og limum sjómanna en vinnustaðir landverkafólks. Hlutlæg ábyrgð atvinnurekenda vegna hættulegs atvinnurekstrar hefur ekki verið viðurkennd í íslenskum skaðabótarétti til þessa. Venjulegt sakarmat er lagt til grundvallar hvort sem um er að ræða t.d. skrifstofustarf sem hefur engar sjáanlegar hættur í för með sér fyrir starfsmenn eða starf á skipi með tröllauknum og fjölbreytilegum vélbúnaði þar sem aðgátar er þörf við hvert fótmál.
    Tilgangur nefndarskipunar af því tagi sem hér er ráð fyrir gert er sá að kanna bótarétt sjómanna með framangreint í huga og leggja fram tillögur til úrbóta. Samkvæmt framansögðu er varla um annað en tvennt að ræða, annars vegar að hækka hlutfall hinnar hlutlægu ábyrgðar skv. 172. gr. siglingalaga, sbr. 5. tölul. 175. gr., eða með þeim hætti að gera ábyrgð útgerðarmanns vegna vinnuslysa hlutlæga að öllu eða verulegu leyti með breyttri skaðabótareglu vegna hættulegs atvinnurekstrar og breyttri sönnunarreglu vegna fjölda óhappatilvika sem ekki eru bótaskyld samkvæmt núgildandi reglu.``
    Virðulegi forseti. Þannig hljómar sú greinargerð sem við flutningsmenn höfum lagt fram með þessari till. til þál. um endurskoðun slysabóta sjómanna samkvæmt siglingalögum.
    Enn fjölgar slysum í sjómannastéttinni. Miklar kröfur eru gerðar til sjómanna, veruleg fækkun hefur orðið í áhöfnum og vinnuálagið aukist. Ég hef vitnað til þess áður hvar skipverji var að bjarga félaga

sínum en ekki tókst betur til en svo að sá sem ætlaði að bjarga slasaðist verulega og hlaut af mikil örkuml. Vegna ákvæða í siglingalögum fékk sá sem ætlaði að bjarga engar bætur og er svo enn vegna hinnar hlutlægu ábyrgðar útgerðarmanns eins og kom fram í greinargerð. Þess er líka dæmi að sjómaður hafi stungið sér til sunds af skipi sínu og ætlað að bjarga félaga sínum en við það farist sjálfur og er umhugsunarefni hvort eðlilegt væri að ættingjar þess sjómanns fái ekki meiri bætur en raun ber vitni nú í siglingalögunum.
    Að lokum er full ástæða til að taka til rækilegrar athugunar réttarstöðu íslenskra sjómanna gagnvart siglingalögum á þeim skipum sem sigla undir þægindafánum sem svo mjög var rætt um í þinginu áðan.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að þáltill. verði vísað til síðari umr. og samgn.