150 ára minning tilskipunar um endurreisn Alþingis

123. fundur
Mánudaginn 08. mars 1993, kl. 13:33:20 (5746)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Hv. alþm. Í dag minnumst við þess að liðin eru 150 ár frá ákvörðun um endurreisn Alþingis. Hinn 8. mars 1843 undirritaði Kristján konungur VIII. ,,tilskipun um stiptun sérlegrar ráðgefandi samkomu fyrir Ísland, er á að nefnast Alþíng``.
    Tilskipunin var gefin út fáum árum áður en einveldisstjórn leið undir lok. Hún var gjöf frá konungi sem á margan hátt var hliðhollur Íslendingum.
    Í tilskipuninni fólst í fyrsta lagi að landið fékk ,,sína eigin ráðgefandi samkomu`` og þar með lauk þátttöku af Íslands hálfu í stéttaþinginu í Hróarskeldu. Í öðru lagi voru í henni ákvæði um skipun þingsins. Á þinginu skyldu eiga sæti 20 kjördæmakjörnir þingmenn og sex þingmenn tilnefndir af konungi úr hópi embættismanna landsins. Þá voru í þriðja lagi rækileg ákvæði um kosningar til Alþingis, kosningarrétt og kjörgengi. Hvort tveggja var vissulega mjög takmarkað miðað við nútímahugmyndir, en talið er að 5% landsmanna hafi notið þessa réttar. Í fjórða lagi segir í tilskipuninni: ,,Fyrst um sinn á alþíng að haldast í Reykjavík.`` Og loks voru í tilskipuninni hin fyrstu þingsköp Alþingis sem að flestu leyti voru sniðin eftir þingsköpum stéttaþinganna dönsku.
    Aðdragandi þessara tíðinda var nokkur. Störf Alþingis hins forna, lögréttu og yfirréttar, voru lögð niður með konungsúrskurði 6. júní árið 1800. Síðustu fundir Alþingis við Öxará voru reyndar haldnir í júlímánuði 1798, en sökum lélegs aðbúnaðar þar voru fundir þess haldnir í Hólavallarskóla í Reykjavík 1799 og 1800. Þótt Alþingi hefði glatað sinni fornu frægð er yfir lauk sætti þjóðin sig ekki við að vera ,,alþingi svipt``. Slitnað hafði þráður sem lá allt aftur til stofnunar allsherjarríkis á Íslandi árið 930. Einar Arnórsson segir í riti sínu, Réttarsögu Alþingis, um störf þingsins í lok 18. aldar: ,,Alþingi var orðið aðallega dómstóll, þinglýsingastaður og reikningsskilastaður sýslumönnum og öðrum gjaldheimtumönnum ríkisfjárhirzlunnar.``
    En í huga þjóðarinnar var Alþingi annað og meira. Þess vegna liðu ekki mörg ár þar til krafan um endurreisn Alþingis kom fram. Og eftir að stofnað var til stéttaþinganna dönsku árið 1831 hófu Íslendingar baráttu fyrir innlendri stjórn og innlendu þingi. Þar fór mest fyrir Baldvini Einarssyni og riti hans, Ármanni á Alþingi. Íslendingar áttu fulltrúa á þingi Eydana 1835--1842, en slíkt fullnægði í engu óskum landsmanna.
    Árið 1837 stóðu Þórður Sveinbjörnsson, Páll Melsteð og Bjarni Thorarensen fyrir bænaskrá um innlent þing. Ári síðar var tekin ákvörðun um að boða til samkomu tíu æðstu embættismanna Íslands, embættismannanefndarinnar, sem kom tvívegis saman, 1839 og 1841.
    Um þetta leyti urðu mikil umskipti í sögu Íslands. Friðrik konungur VI. lést undir árslok 1839, en við ríki tók Kristján konungur VIII. Hann var á marga lund vinveittur Íslendingum og sýndi við mörg tækifæri að hann mat íslenskan menningararf mikils og vildi hlúa að honum eftir mætti.
    Fornaldardýrkun var eitt af einkennum rómantísku stefnunnar sem þá var ofarlega á baugi, og hinn nýi konungur var barn síns tíma þegar hann árið 1840 gaf út úrskurð um að unnið skyldi að endurreisn Alþingis á Þingvöllum. Og nú kvaddi Jón Sigurðsson sér hljóðs á þjóðmálavettvangi, sá maður sem upp frá því hafði mest áhrif á stefnu Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni. Jón lét alþingismálið mjög til sín taka.
    Embættismannanefndin samdi tillögur um innlent þing og urðu þær grundvöllur að tilskipun konungs 8. mars 1843. Þar var farin að mörgu leyti önnur leið en forvígismenn Íslendinga vildu, eins og Fjölnismenn, einkum Tómas Sæmundsson. Jón Sigurðsson átti samleið með embættismannanefndinni að því er varðaði þingstaðinn og þá meginstefnu að Alþingi yrði nútímaþing, sniðið að þörfum og aðstæðum síns tíma. Jón vildi hins vegar veita Alþingi meiri völd. Nú efast fáir um að stefna Jóns Sigurðssonar í alþingismálinu hafi verið rétt og orðið þjóðinni til farsældar.
    Í dag, hálfri annarri öld síðar, er fánýtt að hugleiða hvort unnt hefði verið að sameina sjónarmiðin betur, t.d. tengja hið nýja Alþingi betur Þingvöllum, svo sem með því að setja þingið þar og slíta því, viðhalda fornum heitum, lögsögumanni og lögréttu, --- og fleira mætti nefna, --- en svo varð ekki og verður varla aftur snúið til horfinna alda úr þessu.
    Það dróst í rúm tvö ár að hið endurreista Alþingi kæmi saman til fyrsta fundar. Það varð 1. júlí 1845. Vissulega voru völd Alþingis og störf takmörkuð, en án alls vafa voru áhrif þess strax mikil á þjóðina. Alþingi varð vettvangur forustumanna þjóðarinnar í sókn til þjóðfrelsis og framfara.
    Þegar forseti sameinaðs Alþingis, Haraldur Guðmundsson, minntist þess hér á þessum stað árið 1943 að 100 ár voru liðin frá útgáfu alþingis-tilskipunarinnar varð honum tíðrætt um þá gagnrýni sem störf Alþingis sæta jafnan og hann taldi vera af tvennum toga spunnin: ,,Annars vegar eru þeir, sem í raun og veru óska, að vegur og sómi Alþingis sé sem mestur.`` Þeim svaraði Haraldur með því að vitna til orða Jóns Sigurðssonar: ,,Varla er sú list, að menn hafi jafnlengi þreytt með óvissum árangri og landsstjórnarlistina.`` Undir þetta getum við alþingismenn tekið: Alþingi og störf þess verða aldrei hafin yfir gagnrýni sem á rökum er reist. En síðan segir Haraldur: ,,Hins vegar eru þeir, sem hallmæla Alþingi og spá því illspám . . .  Gagnrýni þessara manna er ekki flutt til þess að koma fram umbótum á starfsháttum eða stefnu þingsins, heldur fyrst og fremst eða eingöngu í því skyni að svipta Alþingi trausti og tiltrú fólksins. Þeim er ljós sá sannleikur, að ef Alþingi nýtur ekki trausts þjóðarinnar, er það veikt og lítils megnugt.``
    Þótt þessi orð séu mælt í miðjum hinum mikla ófriði, þá vil ég minna á þau því að þau virðast eiga við jafn vel nú, hálfri öld síðar.
    Forsetar Alþingis hafa í nokkur ár stefnt að því að minnast þessara tímamóta í sögu Alþingis. Í dag kemur út fyrir samvinnu Alþingis og Sögufélagsins rit um endurreisn Alþingis og þjóðfundinn 1851 eftir dr. Aðalgeir Kristjánsson, fyrrverandi skjalavörð. Ritið verður afhent alþingismönnum við stutta athöfn hér í hliðarsal, setustofu, að loknum þingfundi og er þeim boðið að koma og vera við þá athöfn kl. 4. Þá var sl. laugardag opnuð ný minningarsýning um Jón Sigurðsson og konu hans, Ingibjörgu Einarsdóttur, í Jónshúsi í Kaupmannahöfn, húsi Alþingis í hinni gömlu höfuðborg Íslands. Í því húsi bjó Jón Sigurðsson og starfaði lengst af og minning hans mun tengjast því um ófyrirsjánalega framtíð.
    Hv. alþm. Störf þessarar stofnunar, Alþingis, eiga sér djúpar rætur með þjóðinni. Við segjum oft --- og með sanni --- að Alþingi sé í senn elsta stofnun þjóðarinnar og hin æðsta. Á okkur alþingismönnum hvílir því mikil ábyrgð að gæta þess þjóðfrelsis sem Alþingi er skýrast vitni um, rækta arfinn og færa hann í hendur komandi kynslóðum. Minnumst þess í hita baráttunnar nú um stundir hvað mikils þurfti við á öndverðri 19. öld til að taka aftur upp þann þráð sem slitnað hafði um sinn, en það var gert í trausti þess að nýtt Alþingi mundi gegna forustuhlutverki við að leysa þjóðina úr viðjum ófrelsis og stöðnunar.
    Ég vil biðja hv. alþm. að minnast starfa þeirra sem áttu hlut að endurreisn Alþingis og minnast þeirra tímamóta, sem við nú fögnum, 150 ára afmælis tilskipunar um endurreisn Alþingis, með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]