Iðn- og verkmenntun

123. fundur
Mánudaginn 08. mars 1993, kl. 14:06:55 (5749)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Það er auðvelt að taka undir það sem hér er sett fram sem megintilgangur þessarar tillögu að það sé þarft að vekja umræðu um iðn- og verkmenntun í landinu og leiðir til að laga hana að nýjum aðstæðum, bæði hér á landi og í okkar næsta umhverfi, í okkar samkeppnisumhverfi. Það er hverju orði sannara að við þurfum að huga vandlega að því að tengja sem best saman þá verkmenntun sem

veitt er í skólum landsins og starfið í atvinnuvegunum. Það er t.d. athyglisvert að ýmsar atvinnugreinar eins og t.d. rafiðnaðurinn og nú síðast prentiðnaðurinn og ég veit að málmiðnaðurinn er inni á sömu brautum hafa tekið í sínar eigin hendur að bjóða upp á endurmenntun og símenntun og reyndar nokkra þætti í grunnmenntun í sínum starfsgreinum með því að koma á fót með samtökum fyrirtækjanna í greininni og félaga starfsmanna í þessum greinum sérstökum skólum eins og Rafiðnaðarskólanum og Prenttæknistofnuninni. Þetta tel ég vera vísbendingu um leiðir sem við eigum að huga vandlega að í þessu máli.
    Það er með öllu ljóst að hið hefðbundna meistaranám hefur lifað sitt fegursta. En við þurfum að vera vel á verði og ekki síst er ástæða til að huga að því hvernig við búum að verkmenntaskólunum, hvernig við finnum þeim stað í okkar skólakerfi og hvernig við tengjum þá við atvinnulífið. Og það er t.d. mjög athyglisvert að Iðnskólinn í Reykjavík er líklega stærsti framhaldsskóli landsins, fjölmennasti framhaldsskóli landsins, og þar er sannarlega ástæða til að huga að því hvernig þeirri stofnun er komið fyrir í okkar skólakerfi og sambærilegum stofnunum. Að þessu leyti er þetta hin þarfasta tillaga.
    Síðan kemur náttúrlega spurningin um það hvort þörf sé á að setja á starfshóp eins og hér er lagt til, sem hv. menntmn. mun vaflaust fjalla um þegar tillagan kemur til hennar. Ég vil leyfa mér að benda á að á vegum menntmrn., að frumkvæði menntmrh., fer nú fram endurmat á ýmsum þáttum í okkar skólakerfi. Mér er um það kunnugt að einmitt þau atriði sem ég hef hér vikið að í máli mínu eru þar til vandlegrar athugunar eins og ég þykist fullviss að menntmrh. muni koma hér að síðar í umræðunni.
    Með þessum orðum, virðulegi forseti, vil ég taka undir þann tilgang tillögunnar að vekja umræður um málið og hvetja til þeirra aðgerða sem til framfara horfa í verkmenntun í landinu. Það er áreiðanlega rétt hjá hv. frsm. þessarar tillögu að þeim ríkjum sem hefur tekist best að tengja saman atvinnulíf og verkmenntun, hefur líka vegnað vel í atvinnumálum og efnahag þegar horft er til langs tíma. Dæmið sem nefnt var frá Þýskalandi er athyglisvert þótt þar steðji nú að tímabundinn vandi eins og víðar í iðnaði og atvinnulífi á Vesturlöndum.