Iðn- og verkmenntun

123. fundur
Mánudaginn 08. mars 1993, kl. 14:10:43 (5750)

     Guðjón Guðmundsson :
    Hæstv. forseti. Sú till. til þál. sem hér er til umræðu er athyglisverð og tvímælalaust tímabært að fram fari endurmat iðn- og verkmenntunar í landinu. Flm. fluttu svipaða tillögu á síðasta þingi ef ég man rétt.
    Iðnmenntun á Íslandi hefur tekið litlum breytingum undanfarna áratugi og hefur að vissu leyti ekki verið aðlöguð þeim miklu breytingum sem orðið hafa í sumum iðngreinum og þeim auknu kröfum sem gerðar eru til iðnaðarmanna. Því er tímabært að taka allt skipulag iðn- og verkmenntunar í landinu til endurmats. Ég tek undir það sem segir í tillögunni að ein af forsendum þess að innlendur iðnaður standist aukna samkeppni háþróaðra iðnríkja sé að nauðsynlegar úrbætur verði gerðar á iðn- og verkmenntun í landinu og að margvísleg rök hnígi að því að iðn- og verkmenntun verði nú skilgreind að nýju með tilliti til fjölbreytilegra nýjunga í verklegu og bóklegu námi, bættra tengsla skóla og almennings og aukinnar fræðslu til almenns rekstrar.
    Ég vil leggja áherslu á að ekki verði rofin tengsl iðnfyrirtækjanna og iðnfræðsluskólanna. Ég tel það mjög mikilvægt að hluti iðnnámsins verði áfram hjá meisturum og iðnfyrirtækjum. Sá þáttur námsins er ekki hvað síst mikilvægur.
    Á það er bent í greinargerð með tillögunni að iðnnemar hafi nú um þrjár leiðir að ræða til iðnnáms:
    Að fara á fjögurra ára samning hjá meistara og sækja samhliða bóknám í iðnskóla,
    að ljúka bóklegu og verklegu námi í skóla og fara síðan í starfsnám hjá meistara,
    að ljúka bóklegu grunnnámi og fara síðan á þriggja ára samning hjá meistara.
    Af þessum þremur leiðum held ég að sú leið að ljúka bóklegu og verklegu námi í skóla og fara síðan í starfsnám hjá meistara sé hvað best og hafi reynst mjög vel. Þeir nemar sem þannig koma til starfa hjá iðnfyrirtækjunum hafa lært undirstöðuvinnubrögð í viðkomandi iðngrein, kunna að nota helstu vélar og tæki og eru alla jafna vel undirbúnir undir sjálft starfsnámið.
    Gamla meistarakerfið, þar sem nemar gera fjögurra ára samning við meistara og sækja bóklegt nám samhliða, hefur að mörgu leyti reynst nokkuð vel í gegnum tíðina. Þó er það auðvitað svo að meistarar og iðnfyrirtæki eru misjafnlega í stakk búin til að leiða nema fyrstu skrefin í iðnnámi og finnst mér líklegt að það kerfi leggist af að mestu.
    Það hefur lengst af verið svo að iðnaðarmenn hafa þurft að vinna í þrjú ár sem sveinar til að öðlast meistararéttindi. En á síðustu árum hafa sveinar orðið að ljúka námi í meistaraskóla til að verða meistarar, a.m.k. í sumum iðngreinum.
    Í greinargerð með þessari tillögu er fagnað hugmyndum um að meistaraskólinn verði beint framhald iðnskóla og iðnmenntunar. Ég tel sjálfsagt að skoða þetta vel. En ég legg áherslu á að tryggt verði að menn hafi verulega starfsreynslu í viðkomandi fagi til að geta orðið meistarar.
    Í greinargerð flm. er minnst á að kröfur um aukið bóklegt nám fari sífellt vaxandi. Í því sambandi vil ég vara eindregið við því að þeim sem eiga erfitt með að stunda strangt bóklegt nám sé gert ókleift að öðlast iðnréttindi. Ég tel að það þurfi að vera tvö stig í iðnnáminu líkt og er í málmiðnaði í dag þar sem menn geta með tveggja ára námssamningi orðið sveinar í rafsuðu. Í því námi eru mun færri bókleg fög en t.d. í vélvirkjun og plötusmíði. Þessir sveinar geta ekki orðið meistarar nema fara í frekara nám. Ég tel sjálfsagt að þeir sem vilja vinna við ákveðna iðngrein geti öðlast réttindi með þessum hætti og veit að margir afbragðs iðnaðarmenn hafa útskrifast úr rafsuðunáminu, bæði þeir sem ekki hafa treyst sér í það skólanám sem fylgir fullu iðnnámi og eins fjölskyldumenn sem ekki hafa haft efni á að sitja í skóla í fjórar annir. Sumir þessara manna hafa svo haldið áfram síðar og lokið þá námi í vélvirkjun, plötusmíði eða skyldum iðngreinum. Þessi þáttur iðnnámsins er mjög mikilvægur og fráleitt að mínu mati að iðnfræðsla miðist við það að allir þurfi að verða meistarar eða iðntæknar.
    Varðandi iðnmenntunina í landinu er ástæða til að hafa áhyggjur af þeim samdrætti sem orðið hefur í sumum iðngreinum á undanförnum áratug. Ég nefni þar t.d. húsgagnaiðnaðinn og skipasmíðaiðnaðinn, en fyrirtæki í þessum greinum hafa verið mjög afkastamikil í verkmenntun landsmanna um áratugaskeið. Það er augljóst að nemar í málmiðnaði geta átt í miklum erfiðleikum með að komast í starfsnám ef skipasmíðastöðvarnar halda ekki velli.
    Ég vil þakka hv. flm. fyrir að hreyfa þessu máli og tel nauðsynlegt að sem fyrst fari fram endurmat iðn- og verkmenntunar í landinu og eðlilegt, eins og hér er gert ráð fyrir, að fulltrúar samtaka iðnaðarins, iðnnema og iðnfræðslunnar í landinu komi að þeirri stefnumörkun.