Iðn- og verkmenntun

123. fundur
Mánudaginn 08. mars 1993, kl. 14:32:28 (5753)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Eins og flestir ræðumenn hafa getið um hér er búið að tala mikið um þennan málaflokk á síðustu árum og áratugum: Það þurfi að bæta og styrkja verkmenntun og auka og efla tengsl atvinnulífs og skóla o.s.frv. Og ég held að ef það á að skipa nefnd í eitthvað á þessu sviði, þá eigi að kanna af hverju þetta hefur ekki verið gert. Í raun og veru sé það lykillinn að lausninni á málinu að menn átti sig á því af hverju í ósköpunum hefur ekki tekist að tengja betur saman skóla og atvinnulíf en tekist hefur.
    Við sem höfum unnið við þessi mál höfum ekki svörin við þessu. Ég hef þau a.m.k. ekki til hlítar vegna þess að báðum megin borðsins, ef svo mætti að orði kveða, heyrir maður jákvætt viðhorf. Menn vilja en gera ekki eða geta ekki. Mér finnst þessi tillaga til marks um jákvætt viðhorf sem oft hefur komið fram í óteljandi ræðum á Alþingi, óteljandi ályktunum, bæði hér og annars staðar hjá samtökum, óteljandi ræðum og yfirlýsingum allra menntmrh. sem ég man eftir en niðurstaðan er engu að síður sú að þátttaka í verknámi hér og fullnaðarpróf verknáms á framhaldsskólastigi nær til stöðugt færri ungra karla og kvenna. Það er þannig. Við vitum að hluta til skýringarnar á þessu en að hluta til ekki.
    Ég held að það sé þrennt sem að einhverju leyti skýrir þennan vanda og ég ætla að nefna þær skýringartilgátur mínar hér. Í fyrsta lagi það að atvinnulífið hér hefur verið býsna veikt að því er varðar rannsóknar- og þróunarstarfsemi. Menn hafa verið fastir í gömlum formum og ekki fengist til þess að taka upp nýjar áherslur. Með þessu er ég ekkert að flytja einhverjar árásarræður á atvinnurekendur yfir höfuð, en þetta er veruleikinn. Síðan hefur það verið að gerast að iðnríkið Ísland hefur verið á undanhaldi. Stefán Ólafsson, lektor við Félagsvísindastofnun háskólans, skýrði frá því á ráðstefnu núna á dögunum uppi í háskóla á vegum félagsins Samfélagið að það hefur fækkað stórkostlega, eins og við vitum reyndar öll hér, atvinnutækifærum í iðnaði. Það er alveg ljóst að hrun skipasmíðaiðnaðarins þýðir stórkostlega fækkun nema í málmsmíði, plötusmíði, blikksmíði, járnsmíði og skyldum greinum.
    Önnur skýring sem ég ætla að nefna hér er sú sem hv. þm. Guðrún Halldórsdóttir kom að en hún þekkir sjálfsagt betur til þessara mála en við flest sem erum hér inni. Það er sú sterka bóknámshefð sem er með þjóðinni og er í sjálfu sér ekki neikvæð svo lengi sem hún hamlar ekki eðlilegri þróun á öðrum sviðum skólastarfsins.
    Þá kem ég að þriðju ástæðunni sem ég held að sé kannski aðalástæðan fyrir því að verknámið hefur ekki náð að þróast. Það er peningaskortur. Bóknámið er svo ódýrt. Stúdentarnir hjá Guðna hérna hinum megin við lækinn, í skólanum sem í gríni hefur stundum verið kallaður fjölbrautaskólinn við útitaflið, Menntaskólinn í Reykjavík með öðrum orðum, eru ódýrari á höfuð en þeir trésmiðir, prentarar, rafvélavirkjar og aðrir sem eru að útskrifast úr Iðnskólanum. Þetta er svona. Hvert hefur svarið verið? Jú, það hefur verið að það þurfi að koma upp tækjum í skólunum og menn hafa gengið mjög vasklega fram í því stundum en stundum ekki. Það er alveg ljóst að reynslan sýnir okkur nú þegar að ríkið á ekki og mun ekki eignast nægilega mikla peninga til að koma upp öllum þessum tækjakosti í skólunum. Og menn eiga að hætta að reikna með því. Sem dæmi um hve þetta er yfirþyrmandi verkefni er sú staðreynd að í einum framhaldsskóla hér á landi er til tölvustýrður fræsari, það er í Fjölbrautaskólanum á Akranesi, öðrum verkmenntaskólum ekki. Og það er alveg augljóst mál að það er ekki hægt og væri meira að segja vitlaust að fara að kaupa tölvustýrðan fræsara í alla framhaldsskóla landsins.
    Hvað á þá að gera? Þá á að taka upp skólastefnu, að mínu mati, sem semur við atvinnulífið um aðgang að þessum tækjum, ekki eftir meistara- og sveinsprófakerfinu heldur semur fyrir hvern nemanda um það að hann geti fengið aðgang að tækjum á mörgum vinnustöðum og þannig fylgst með því sem er að gerast og lært eitthvað. Fjötur um fót í þessu efni hefur auðvitað verið meistarakerfið eins og það hefur oft verið kallað en ég vil alveg eins segja að sveinsprófakerfið hafi verið fjötur um fót. Staðreyndin er sú að Alþýðusamband Íslands, sem hefur haft með að gera ákveðna hlið þessara mála í iðnfræðsluráði, hefur að mínu mati ekki komist að eðlilegri þróunarvinnu af því að menn hafa verið svo blýfastir, reyrðir í þetta gamla, staðnaða og seinvirka sveinsprófakerfi.
    Hér er hægt að kenna söðlasmíði. Hér er hægt að kenna beykisiðn. En það virðist útilokað að taka

hér upp t.d. iðngreinar sem snerta nútímaiðnað eins og plastiðnað af margvíslegu tagi sem þörf er fyrir í okkar atvinnulífi. Það virðist ekki vera hægt vegna þess að menn eru frosnir fastir í þessu gamla sveinsprófa- og/eða meistarakerfi.
    Ég held að þetta séu skýringarnar að nokkru leyti. Þrátt fyrir þetta eru margir jákvæðir hlutir í málinu í dag. Í fyrsta lagi tel ég að sú skýrsla sem við ákváðum að láta vinna í menntmrn. á sinni tíð og unnin var í Félagsvísindastofnun og birt nýlega af Jóni Torfa Jónassyni sé leiðarvísir. Hún sýnir okkur alveg nákvæmlega hvernig þessir hlutir hafa þróast. Þar kemur t.d. í ljós að meðaleinkunn þeirra sem farið höfðu í verknám er 4,5 á grunnskólaprófi en þar stendur líka að 3% þeirra sem fóru í framhaldsnám og höfðu undir 5 á grunnskólaprófi luku stúdentsprófi. Þarna er með öðrum orðum ógrynni upplýsinga sem hægt er að vinna úr og ég tel að geti leiðbeint okkur á þessu sviði.
    Í öðru lagi tel ég það jákvætt í þessu sambandi að alþýðusambandsþingið fjallaði um þessi mál. Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að ég var ekki mikið sammála öllu því sem þar kom fram. Það verð ég að játa. Það fannst mér ekki allt mjög gott. En það var þó talað um málið og það er í fyrsta sinn sem Alþýðusambandið tekur á menntamálum í heild og ég tel ástæðu til að fagna því.
    Í þriðja lagi vil ég nefna að atvinnulífsbrautirnar, sem við stofnuðum við nokkra framhaldsskóla fyrir nokkrum árum, hafa sums staðar gengið sæmilega, t.d. á Suðurnesjum og Selfossi. Mér skilst að þær hafi verið settar í gang jafnvel í einum eða tveimur skólum í viðbót, sem menntmrh. þekkir auðvitað betur, en þær hafa gengið sæmilega. Það sem vantar þar eru auðvitað samningar við atvinnulífið og sérstaklega Vinnuveitendasambandið og ég vil segja það af minni reynslu að í Vinnuveitendasambandinu eru jákvæð og opin viðhorf gagnvart óhjákvæmilegum breytingum á verkmenntakerfinu.
    Að lokum, virðulegi forseti, eru fjögur atriði sem ég tel brýnast að verði farið í. --- Og jákvætt atriði ætla ég líka að nefna, þ.e. áhuga atvinnulífsins, og ekki bara þá skóla sem hér hafa verið nefndir --- ég veit að tíminn er búinn, hæstv. forseti. Ég er að ljúka máli mínu --- heldur ætla ég líka að nefna Bílgreinaskólann og það sem þar hefur verið að gerast er mjög jákvætt. Ég ætla að nefna fjögur atriði á einni mínútu sem eru þessi: Það á að semja við atvinnulífið um námspláss. Það á að stytta brautir og gefa kost á að ljúka námi á eins til tveggja ára brautum í framhaldsskólum. Það á að taka upp virka náms- og starfsráðgjöf, bæði í framhaldsskólum og í grunnskólum. Og það á að stuðla að samstarfi við grunnskóla og framhaldsskóla þannig að skilin á milli skólastiganna verði ekki allt of skörp.