Iðn- og verkmenntun

123. fundur
Mánudaginn 08. mars 1993, kl. 15:11:53 (5759)

     Hrafnkell A. Jónsson :

    Virðulegur forseti. Sú tillaga sem hér er til umræðu hefur orðið tilefni mjög athyglisverðra umræðna um iðn- og verkmenntun. Á grundvelli þess ætla ég að leyfa mér að fjalla um þetta án þess kannski að koma mjög mikið að tillögunni sjálfri sem út af fyrir sig er þannig að hún á vafalaust fullt erindi til skoðunar í menntmn.
    Það er talað hér um iðn- og verkmenntun og ræðumenn hafa lagt málið upp með þeim hætti að á þessu væri mikill skilsmunur í dag. Ég held að svo sé ekki. Ég get ekki séð annað en hin hefðbundna skilgreining sem var á þessu fyrir nokkrum árum sé liðin tíð. Það er ekki orðinn svo mikill munur á hinum bóklega þætti í verkmenntaskólunum og fagskólunum og því bóklega námi sem er í hinum almenna menntaskóla. Þess í stað er kominn upp verulegur munur á milli þeirra sem hvorki sækja nám í hefðbundnum menntaskólum né verkmenntaskólum og hinna sem hafa einhverra hluta vegna farið á mis við þetta. Af þeirri ástæðu tel ég meginþörfina á því að ganga í að koma hér upp virkri fullorðinsfræðslu, fræðslu sem er þess eðlis að hún geri fólk bæði hæfara til að sinna því starfi sem það hefur valið sér og skilar þeim sem kaupir vinnuna betri vinnu og þjóðfélaginu væntanlega verðmætari störfum.
    Það er þannig í dag að fullorðisfræðsla af ýmsu tagi er boðin fram á mörgum sviðum en er kannski misaðgengileg fyrir fólk m.a. eftir því hvar það býr á landinu. Ég vil við þetta tækifæri minna á mjög athyglisverðan þátt í þessari endurmenntun sem á sér stað í gegnum fjarnám í kennaramenntun og er nýlega komið af stað. Þar veit ég að fólk sem m.a. sækir þetta utan Reykjavíkursvæðisins veltir fyrir sér ástæðum þess að þetta fjarnám nýtur ekki sömu réttinda í Lánasjóði ísl. námsmanna og hefðbundið nám. ( SvG: Hefur lánasjóðurinn neitað því?) Ég veit ekki annað en að hann hafi neitað því. En ég get ekki fullyrt það hér úr ræðustól. Til þess þyrfti ég að kanna það nánar. Hins vegar er mér sagt að þetta nám njóti ekki sömu fyrirgreiðslu í lánasjóðnum og hefðbundið nám.
    Hlutur sem kemur mjög gjarnan inn á borð þar sem ég er að vinna eru ýmiss konar endurmenntunarnámskeið sem fólk er að sækja til að afla sér hærri launa. Fyrir nokkrum árum síðan var farið af stað með myndarlegt átak í endurmenntun fiskverkafólks. Það tengdist launahækkunum sem fólk fékk að loknum námskeiðum. Mönnum bar almennt saman um að þetta væri spor í rétt átt. Fiskvinnslunámskeiðin skiluðu hæfara starfsfólki og það var ánægðara með þá vinnu sem það var að vinna. Vinnan fékk annan tilgang þegar það hafði sótt þessi námskeið. Það þótti ýmsum dálítið hlálegt sem höfðu unnið í fiski í áratugi að þeir ættu að fara að taka sérstakt námskeið í því að læra að meðhöndla fisk. En þeir áttuðu sig á því þegar þeir höfðu sótt þessi námskeið að þau höfðu verulegan tilgang. Fólk fékk launahækkun þegar það hafði lokið námskeiðinu. Atvinnurekendurnir voru almennt, að ég hygg, ánægðir með starfsfólkið sem þeir fengu af námskeiðunum. Ríkið kom á móti aðilum með því að greiða kostnaðinn við námskeiðahaldið.
    Nú lítur út fyrir að það eigi að draga úr þessum þætti. Ég óttast að ef það gerist þá muni þessi þáttur í endurmenntun dragast saman eða jafnvel falla niður. Þess vegna vænti ég þess ef farið verður af stað með endurmat á iðn- og verkmenntun í kjölfar samþykktar þessarar þáltill. eða að öðru leyti með starfi á vegum hæstv. menntmrh. þá gleymist ekki þessi þáttur í endurmenntuninni. Hann skiptir verulegu máli.
    Ég held, svo ég endurtaki það sem ég sagði í upphafi, að það skipti verulegu máli að átta sig á því að hin hefðbundnu skil sem menn hafa haft á iðn- og verkmenntun eru að eyðast. Þess í stað er að verða verulegur munur milli þeirra sem hafa sótt sér annaðhvort fagmenntun eða menntun í gegnum hið hefðbundna skólakerfi og hinna sem ekki hafa þetta. Það vekur verulega athygli þegar skoðaður er sá ferill sem á sér stað í hinni svokölluðu verkmenntun að sá sem í dag hefur lokið sveinsprófi heldur í langflestum tilfellum áfram í meistaraskóla og jafnvel þaðan í einhvert háskólanám í sinni faggrein og endar kannski oft og tíðum þannig að hann er búinn að mennta sig það vel að hann á ekki erindi í hin hefðbundnu störf sem upphaflega var meiningin að læra að vinna. Eftir sitja þeir sem ekki hafa tekið skólann, ekki hafa lokið meistaraskólanum eða tækniháskólanum og það eru þeir sem síðan vinna við viðgerð á bílum eða í byggingariðnaði eða skipasmíðum.