Iðn- og verkmenntun

123. fundur
Mánudaginn 08. mars 1993, kl. 15:28:06 (5762)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég kvaddi mér hljóðs hér vegna þess að í þessari ræðu menntmrh., sem ég þakka fyrir, nefndi hann, eins og oft áður hér í þessari umræðu, skýrslu Jóns Torfa Jónassonar um framhaldsskólann. Mér er ekki kunnugt um að þingmenn hafi fengið þessa skýrslu. Ég hygg að menntamálanefndarmenn hafi ekki fengið hana. Ég vil því fara fram á það við hæstv. menntmrh. að hann útvegi þingmönnum þessa skýrslu, hina styttri útgáfu, og menntamálanefndarmönnum hina lengri útgáfu, hina þykku sem er til einhvers staðar í örfáum eintökum en er afar fróðlegt skjal hef ég trú á og nauðsynlegt fyrir menntamálanefndarmenn a.m.k. að hafa til að geta myndað sér skoðun á því máli sem hér er uppi.
    Ég vil þakka menntmrh. fyrir að hann skyldi lýsa því yfir að það yrði hlustað á þessa umræðu og tekið mark á því sem hér er sagt. Ég teldi það til bóta ef ég mætti blanda mér í það mál að 18 manna nefndin fengi afrit af þessari umræðu sem hér hefur farið fram vegna þess að hér hafa komið fram mjög athyglisverð sjónarmið. Ég bendi t.d. á þau sjónarmið sem fram komu hjá hv. 3. þm. Vesturl., sem þekkir til á þessu sviði, og hv. 3. þm. Austurl. varðandi fiskvinnslunámskeið sem hann nefndi. Það hafa verið vissir erfiðleikar við að tengja þau við hið almenna menntunarkerfi í landinu. Mér finnst verkalýðshreyfingin ekki hafa verið mjög tilbúin í þeim efnum. En það er kannski vegna þess að skólarnir hafa verið skilningsvana. En alla vega hefur það verið svo að menn hafa ekki náð saman og það er mjög slæmt. Kannski getur þessi umræða orðið til þess að menn næðu saman. Ef það væri þá hefði hér í dag orðið bylting.