Tækniskóli Íslands

123. fundur
Mánudaginn 08. mars 1993, kl. 15:49:42 (5767)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að spyrja hæstv. menntmrh. að því hvort Alþfl. standi að þessu frv. og hvort þaðan hafi ekki komið neinir fyrirvarar við þetta frv. Ég man ekki betur en formaður þingflokks Alþfl. hafi greitt atkvæði á móti skólagjöldum hér þegar þau voru til meðferðar við 2. umr. fjárlaga. Mig minnir að við stjórnarandstæðingar í menntmn. höfum þá beitt okkur fyrir því að skólagjöldin í framhaldsskólunum yrðu felld niður og að hv. þm., formaður þingflokks Alþfl., hafi þá staðið með okkur í því að það væri óeðlilegt að leggja skólagjöldin á í framhaldsskólum. Með hliðsjón af því finnst mér þessi spurning vera rökrétt að spyrja hæstv. menntmrh. að því hvort Alþfl. stendur að þessu frv.?
    Eins og kunnugt er hefur Alþfl. leikið þann leik í menntamálum að reyna að kenna núv. menntmrh. og Sjálfstfl. einum um það sem aflaga fer í menntamálum í þessu landi. Formaður þingflokks Alþfl. notaði t.d. tækifærið á fundi sem var haldinn úti í Háskóla um rannsóknastefnu núna fyrir nokkrum mánuðum þar sem hann kvað svo að orði: ,,Ekki ber ég ábyrgð á ykkur Ólafi Garðari`` --- og mun þar hafa átt við hæstv. menntmrh. Þannig hefur hv. þm. aftur og aftur afneitað ráðherranum og það væri fróðlegt að vita hvort Alþfl. stendur að þessu frv. vegna þess, virðulegur forseti, að það felur í sér samþykki við því að tekin séu upp skólagjöld. Það felst ekki í 2. gr. heldur 1. gr. frv., þar stendur: ,,Síðari mgr. 1. gr. falli niður.`` Þar með punktur. En hvað stendur í síðari mgr. 1. gr. laganna um Tækniskóla Íslands nr. 66/1972? Þar stendur, með leyfi forseta, eins og hv. 3. þm. Norðurl. e. minnti á: ,,Kostnaður við stofnun og rekstur skólans greiðist úr ríkissjóði.`` Þetta á að strika út algerlega. Þannig að það er hvergi minnst á það í lögunum, ef þetta verður samþykkt, að ríkissjóður borgi fjármuni til Tækniskóla Íslands og rekstrar hans. Í rökstuðningi með frv. og greinargerð þess, sem við erum hér með fyrir framan okkur er talað um að það hafi ekki þótt ástæða til að setja slík ákvæði inn varðandi Háskólann á Akureyri og ég hygg varðandi einn skóla enn sem nefndur er í greinargerðinni. Það eru ekki rök í málinu að mínu mati, virðulegur forseti, fyrst og fremst vegna þess að þetta frv. er flutt í tilteknu samhengi, þ.e. skólagjaldasamhengi, því í 1. gr. stendur að það sé fellt út að ríkissjóður eigi að borga, en í 2. gr. stendur að það eigi að taka upp þessi skólagjöld. Það er því augljóst mál að ef Alþingi samþykkir þetta frv. þá er Alþingi að leggja blessun sína yfir þá lagatúlkun sem hæstv. menntmrh. hefur haft að því er varðar framhaldsskólann að þar væri heimilt að nota skólagjöld til að borga í rekstur. Hér er auðvitað um að ræða frv. sem markar ákveðin pólitísk þáttaskil í þessari þrætu um skólagjöld til framhaldsskólanna sem hefur staðið núna allan tímann frá því að núv. ríkisstjórn tók við og frá því að hæstv. utanrrh. og formaður Alþfl. lýsti því yfir fyrstur manna að það væri rétt að taka skólagjöld í framhaldsskólum sumarið 1991.
    Þetta frv. sem hér liggur fyrir, virðulegur forseti, er að vísu ekki eina frv. sem komið hefur af þessu tagi hér inn. Annað frv. er til meðferðar í hv. landbn. þar sem um er að ræða frv. til laga um breytingu á lögum nr. 55/1978, um búnaðarfræðslu o.fl. Þar er gert ráð fyrir því að breyta ákvæðum um búnaðarskólana, þ.e. bæði Hvanneyri og Hóla, og um Garðyrkjuskóla ríkisins og um rannsóknir í þágu atvinnuveganna þannig að það verði heimilt að leggja á skólagjöld til að reka tiltekna þrjá skóla. Garðyrkjuskóla ríkisins og báða búnaðarskólana. Það er athyglisvert í því sambandi sem er smáatriði í þessu efni, virðulegur forseti, að uppsetningin á þessum breytingartillögum er aðeins öðruvísi í þessu frv. heldur en í búnaðarfræðslufrv. og ég hef talið að ef menn ætli sér að fara inn á þessa vafasömu braut á annað borð þá ættu menn að hafa takt í hlutunum án þess að ég sé svo sem að gera mér rellu út af því. Það er ríkisstjórnarinnar að gera það en ekki okkar í stjórnarandstöðunni.
    Í lögum um framhaldsskóla stendur, með leyfi forseta, í 3. mgr. 8. gr.:
    ,,Skólanefnd ákveður upphæð gjalda er nemendum er gert að greiða við innritun í námsáfanga svo sem innritunargjöld, efnisgjöld, pappírsgjöld og nemendasjóðsgjöld.`` Í lögunum um framhaldsskóla segir síðan í 32. gr.:
    ,,Ríkissjóður greiðir allan launakostnað við kennslu sem fram fer og skipulögð er í samræmi við áætlun sem samþykkt er af menntamálaráðuneytinu.`` Þar stendur líka:
    ,,Auk kostnaðar við kennslu greiðir ríkissjóður launakostnað við stjórnun, námsráðgjöf, störf í skólasafni, á skrifstofu, félagsstörf, eftirlit og umsjón með heimavistum og eignum skóla og annarra þeirra starfa er nauðsynleg teljast vera.
    Ríkissjóður greiðir enn fremur laun prófdómara á lokaprófi á þann launakostnað sem stafar af lækkun kennsluskyldu samkvæmt ákvörðun menntmrn. og annan þann kostnað er leiðir af kjarasamningum.``
    Með öðrum orðum: Það er algerlega klárt að í lögunum um framhaldsskóla er gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði að fullu allan, ég endurtek, allan rekstrarkostnað sem til fellur og samþykktur er af ráðuneytinu og yfirvöldum viðkomandi skóla.
    Í þessu frv. er aftur á móti gert ráð fyrir því að fella algerlega út greiðsluskyldu ríkissjóðs um leið og tekin eru upp skólagjöld og það er athyglisvert að ráðuneytið notar hér í þessu frv. sama orðalag og um er að ræða varðandi innritunargjöldin í framhaldsskólunum þar sem segir hér: ,,Skólanefnd ákveður upphæð gjalda er nemendum er gert að greiða við innritun í námsáfanga í undirbúningsdeild og raungreinadeild skólans (frumgreinadeild), svo sem innritunargjöld, pappírsgjöld og nemendasjóðsgjöld`` nákvæmlega sömu gjöldin og talin eru upp í lögunum um framhaldsskóla. En þar sem málið er sett fram í þessu samhengi að það á að fella niður stuðning ríkisins við tækniskóla þá er útilokað annað en mótmæla þessu frv. sérstaklega og spyrja: Hefur Alþfl. samþykkt þetta? Hefur hann samþykkt að flytja hér á Alþingi og standa að hér á Alþingi lögum um skólagjöld í framhaldsskólum og að fella niður ríkisstuðning við framhaldsskóla? En hér er uppi tillaga um að fella niður ríkisstuðning við Tækniskóla Íslands. Og það er dálítið skrýtið að fá slíkt frv. inn í þingið til umræðu nokkrum mínútum eftir að búið er að halda langar, góðar ræður um nauðsyn þess að efla verkmenntun hér í þessu landi, þá er næsta mál á dagskrá --- hvað er það virðulegur forseti? Jú, það er að fella niður ríkisstuðning við Tækniskóla Íslands og taka upp skólagjöld í staðinn. Ég hlýt að ítreka þetta, virðulegur forseti, um leið og ég legg áherslu á að mér finnst auðvitað nauðsynlegt þó að hitt málið um búnaðarfræðsluna liggi fyrir í landbn. þá séu þessi mál skoðuð í einhverju samhengi. Hér er bersýnilega verið að lögfesta skólagjöldin bakdyramegin án þess að ríkisstjórnin vilji breyta framhaldsskólalögunum vegna þess að hún þorir ekki af stað með þau af því að kratarnir hafa talið sig geta stoppað þau en svo hafa menn smyglað inn þessum frv. hér um búnaðarfræðslu og tækniskóla. Vonandi er málið þannig að Alþfl. hafi bara sofið á verðinum en vonandi er það ekki svo að Alþfl. hafi samþykkt að fella niður ríkisstuðning við Tækniskóla Íslands.