Endurskoðun laga um stjórn fiskveiða

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 13:57:32 (5790)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Tvíhöfða nefndin, sem svo hefur verið kölluð, hefur í öllum meginatriðum lokið sínum störfum. Því miður tókst ekki að ljúka því fyrir síðustu áramót eins og til stóð. Þetta er umfangsmikið verk sem ég veit að hv. þm. þekkir til og það er meginástæðan fyrir því að ekki tókst að ljúka þessu fyrir áramót.
    Samhliða niðurstöðu tvíhöfða nefndarinnar, skýrslu hennar og tillögum, kom ríkisstjórnin sér saman um að leggja fram hugmyndir um svokallaðan þróunarsjóð sjávarútvegsins. Það hefur ekki enn tekist að ljúka öllum atriðum varðandi þá frumvarpsgerð, í öllum meginatriðum eru þær tillögur til en enn er eftir að hnýta nokkra enda. Ég vænti þess að það taki ekki langan tíma en um leið og því starfi er lokið þá er unnt að leggja fyrir lögbundna samráðsaðila, hagsmunaaðila og sjútvn. þingsins, bæði skýrslu tvíhöfða nefndarinnar og frumvarpsdrögin að þróunarsjóðnum sem eru og verða þannig eitt heildstætt mál.
    Mér er kunnugt um að tvíhöfða nefndin hefur átt einn fund með sjútvn. þingsins og gert munnlega grein fyrir höfuðatriðum í þeirra skýrslu og tillögum en þess er að vænta að það dragist ekki mjög lengi úr þessu að ljúka verkinu. Ég tek undir með hv. þm. að það er auðvitað miður að það skuli hafa dregist fram yfir hin lögboðnu mörk, en ég veit að hv. þm. skilja að í svo umfangsmiklu máli geta nokkrar vikur ekki talist mjög langur tími þó að við förum eitlítið fram yfir tímamörkin.