Eftirlit með störfum bústjóra og skiptastjóra

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 14:01:44 (5793)

     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil beina spurningu minni til hæstv. dómsmrh. Mig langar að benda á að nú að undanförnu hefur verið allmikið skrifað um það í blöðin að þeir aðilar sem eru bústjórar eða skiptastjórar í þrotabúum séu kannski ekki alltaf starfi sínu vaxnir vegna þess að þeir gæti þess ekki að allt það fé komi inn sem hugsanlega væri hægt að fá fyrir ýmsa muni úr þrotabúinu.
    Mig langar af því tilefni að spyrja hæstv. dómsmrh. hvernig staðið sé að endurskoðun og eftirliti með störfum þessara mætu manna, bústjóra og skiptastjóra. Ég veit að störf þeirra eru ákaflega vandunnin og ákaflega ábyrgðarmikil og þegar slík umræða um störf þeirra fer fram í blöðunum og kemur raunar upp meðal almennings þá væri þeim mjög mikill styrkur í því að hægt er að vísa til þess að með þeim væri gott og strangt eftirlit líka. Mig langar sem sagt að spyrja dómsmrh. um þetta.