Tækniskóli Íslands

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 14:09:55 (5797)

     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Í umræðum sem áttu sér stað í þinginu þegar þetta mál var fyrst reifað í gær, þá kom það fram að þeir sem eru í frumgreinadeild í Tækniskólanum eiga ekki aðgang að námslánum og nú er líka verið að leggja á þá möguleg skólagjöld. Ég hef verið prófdómari í þessum skóla um árabil og fylgst með því hvaða fólk það er sem kemur í þennan skóla. Ég hef séð að mikið af þessu er ungt fjölskyldufólk, aðallega karlmenn, ungir fjölskyldufeður og ég tel hörmulegt að þeir skulu hafa verið sviptir möguleikanum til að fá námslán. Það hefur ábyggilega verið geysilega mikilvægt fyrir þá að geta fengið þau og það var hörmulegt að það úrræði skyldi vera af þeim tekið. Ef líka á að bæta á þá greiðslum núna til viðbótar við önnur útgjöld sem þeir hafa, þá finnst mér í óefni stefnt.