Tækniskóli Íslands

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 14:11:46 (5798)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Það voru nokkur atriði sem komu fram í umræðunum í gær sem ég vildi aðeins gera að umræðuefni. Í fyrsta lagi þau ummæli hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur að hér væri á ferðinni dæmigert frv. um álögur á nemendur og svo sem ekki annað en við mátti búast frá minni hendi. Mér dettur nú í hug að spyrja hv. þm. hvar hún hafi verið og flokkur hennar þegar samþykkt voru lög nr. 29/1988, um Kennaraháskóla Íslands. Í öðru lagi lög nr. 131/1990, um Háskóla Íslands. Í þriðja lagi lög nr. 51/1992, um Háskólann á Akureyri og í fjórða lagi lög nr. 57/1988, um framhaldsskóla. Hér er nefnilega ekki á ferðinni neitt dæmigert frv. um álögur á nemendur heldur er hér um að ræða frv. til samræmis við þá lagabálka sem ég taldi upp. Það er ekkert annað sem hér er á ferðinni. Af einhverjum ástæðum, sem ég ekki kann að rekja, voru þessi ákvæði ekki í lögunum um Tækniskóla Íslands. Þau eru auðvitað langelst af þessum lögum sem ég taldi upp. Þau eru frá 1972 og það kann að vera skýringin. Ég veit það ekki. En þarna er sem sagt eingöngu verið að samræma lög um Tækniskólann ákvæðum í þeim lögum sem ég taldi hér upp.
    Ég nefndi hér lögin um framhaldsskóla og hv. þm. vitnaði þar í 32. gr. framhaldsskólalaganna, að mér skildist, til að renna stoðum undir þá skoðun sína að það væri óheimilt að taka gjöld af nemendum til þess að standa undir einhverjum kostnaði við skólana. Það er vissulega rétt að í 32. gr. eru mjög ákveðin ákvæði: ,,Ríkissjóður greiðir samkvæmt lögum þessum rekstrarkostnað framhaldsskóla`` o.s.frv. sem þar segir. Í þessa grein vitnaði hv. þm. en nefndi ekki 8. gr. Það gerði hins vegar hv. þm. Svavar Gestsson. Í 8. gr. er heimildarákvæðið um innheimtu gjalda sem nemendum er gert að greiða við innritun í námsáfanga, svo sem innritunargjöld, efnisgjöld, pappírsgjöld og nemendasjóðsgjöld eins og þar er talið. Þar er heimildin. Og mér sýnist alveg óþarfi að vera að deila um þetta.
    Hitt er annað mál að þeir lagabálkar sem ég taldi hér upp áðan eiga við skóla á háskólastigi. Ég minnist orða hv. þm. þar sem hún sagði að hún liti ekki sömu augum á skólagjöld á framhaldsskólastigi og háskólastigi. Þegar af þeirri ástæðu finnst mér að hv. þm. ætti að geta stutt þetta frv.
    Það kom hér fram, ég held hjá hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur, að nám í frumgreinadeild Tækniskóla Íslands væri ekki lengur lánshæft hjá Lánasjóði ísl. námsmanna. Ég vil í því sambandi geta þess að það mál er í athugun. Það hafa átt sér stað viðræður við lánasjóðinn og þær viðræður eru enn í gangi. Ég hef sérstaklega rætt þetta við framkvæmdastjóra lánasjóðsins og óskað eftir því að það verði kannað til þrautar hvort ekki sé hægt að halda frumgreinadeild Tækniskólans inni sem lánshæfu námi vegna þess að mér finnst það ekki alveg sambærilegt við annað framhaldsnám þó þetta geti verið undirbúningur að stúdentsprófi og mér sé alveg ljóst að það þarf að gæta jafnræðis. Það er vandinn í þessu efni varðandi Tækniskólann og það sama á kannski við um Samvinnuháskólann á Bifröst. Þessi mál eru til sérstakrar athugunar hjá lánasjóði núna.
    Það sama má segja um fjarnám Kennaraháskólans sem líka kom fram í umræðunni, ég man ekki alveg hjá hverjum. Það er líka í athugun. Það hafa átt sér stað viðræður og standa raunar yfir, en í því sambandi verð ég að geta þess að það hefur aldrei verið í reglum lánasjóðsins að lána út á hlutanám, þ.e. nám sem ekki nær 75% af fullu námi samkvæmt skipulagi skóla. Það er ástæðan fyrir því að það hefur ekki verið viðurkennt sem lánshæft. Það hefur verið óheimilt frá upphafi, eins og ég segi, en núna eiga sér stað viðræður og niðurstaðan gæti orðið sú að skipulagi námsins yrði breytt þannig að það væri mögulegt, án þess að ganga á svig við reglur sem eru í gildi og hafa verið í gildi, að lána til þessa náms. Þetta er enn í athugun.
    Það kom líka fram, ég held hjá hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur, að það liti út eins og ég ætlaði mér eitthvað annað og meira þar sem tekið væri út ákvæðið í 1. gr. um að kostnaður við stofnun og rekstur skólans greiðist úr ríkissjóði. Sú einfalda skýring er þarna á að þetta er nákvæmlega eins og er í þeim lagabálkum sem ég taldi upp um skóla háskólastigi. Það liggur ekki þar á bak við að ég ætli mér að seilast eftir einhverri heimild til þess að láta nemendur við þennan skóla greiða almennan rekstrarkostnað eða laun kennara við Tækniskólann. Það er ekki það sem liggur þarna á bak við heldur er þetta eingöngu til samræmis og eins og ákvæðin eru í hinum lögunum sem ég gat um. Ég vona að þetta verði ekki á nokkurn hátt misskilið.
    Þess vegna finnst mér það líka vera röng fullyrðing sem kom fram hjá hv. þm. Jónu Valgerði Kristjánsdóttur um að í þessu frv. fælist einhver stefna um að taka skólagjöld á framhaldsskólastigi. Ákvæðin um skólagjöld varðandi skóla á framhaldsskólastigi, aðra en þá sem eru á háskólastigi, eru í lögunum um framhaldsskóla. Við getum kannski átt eftir að deila eitthvað um það hvað megi greiða með innritunar- eða skólagjöldum, en það stendur til að setja um það reglugerð eins og raunar er kveðið á um í framhaldsskólalögunum. Nefnd hefur verið að störfum á vegum menntmrn. með starfsmönnum ráðuneytisins og hún er að ljúka sínu starfi.
    Annars kemur það fram við afgreiðslu fjárlaga hver ætlunin er að innheimta af skólagjöldum á háskólastiginu þannig að við getum rætt það þegar þar að kemur. Þó er að vísu víðtæk heimild núna í þessum lögum fyrir skólanefndirnar og stjórnendur skólanna að innheimta skólagjöld. Heimildin er býsna víðtæk meðan ekki hefur verið sett um það reglugerð.
    Ég held að það sé ekki mikið annað sem hefur komið fram sem ég tel mig þurfa að nefna. Það er ekki ætlun mín á nokkurn hátt, af því að það kom hér fram í umræðunum um lánasjóðinn sem fléttast nokkuð inn í þetta, að reisa einhverjar girðingar varðandi lánshæfni hins verklega náms eða iðnnáms. Iðnnámið hefur alltaf verið stutt mjög dyggilega af lánasjóðnum bæði fyrr og síðar og er enn. Þeir sem eru við iðnnám geta notið lána frá lánasjóðnum yngri en í öðru sérnámi sem er bundið við ákveðinn aldur. Þetta vil ég leggja sérstaka áherslu á.