Tækniskóli Íslands

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 14:22:09 (5799)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég heyri að hæstv. menntmrh. hefur tekið nærri sér upphafsorðin í ræðu minni í gær. Ég skal leiðrétta hann því að ég tók ekki það upp í mig að það hafi ekki verið við öðru að búast af hæstv. ráðherra heldur orðaði ég þetta á annan veg sem hann getur þá séð síðar.
    Hér segist hann eingöngu vera að samræma og benti á að ég hefði vitnað til 32. gr. laga um framhaldsskóla en ekki tekið fyrir 8. gr. Sannleikurinn er sá að ef hæstv. ráðherra hefði ekki annað í hyggju en að innheimta efnisgjöld og pappírsgjöld og nemendasjóðsgjöld, þá skyldi ég samþykkja þetta frv. En það er annað sem býr að baki. Það er að nemendur eigi að taka þátt í því að hluta til að reka skólann og þessu vil ég leyfa mér að halda fram, hæstv. forseti, þó að annað hafi komið fram í máli ráðherrans hér áðan. Þetta er bara það sem er að gerast út um allan skólann. Við getum tekið sem dæmi Háskólann á Akureyri. Háskólanum á Akureyri er ætlað að afla sér sértekna og hann gerir það með því að leggja gjöld á nemendur, skólagjöld. Þessir peningar eru síðan notaðir að hluta til til þess að reka skólann. Það má segja það sama um Samvinnuháskólann og fleiri skóla. Það er því miður verið að láta nemendur borga hluta af rekstri skólanna og það er það sem ég sætti mig ekki við. Þess vegna, eins og ég sagði í gær og get endurtekið það nú lít ég ekki sömu augum á gjaldtöku eftir því hvort um er að ræða framhaldsskóla eða háskóla. Mér finnst að þessi gjöld, ef þau eru innheimt, eigi að vera fyrst og fremst til þess að ná yfir ákveðinn kostnað í sambandi við pappír eða annað slíkt og ef hægt er að bjóða upp á eitthvað annað umfram og þetta sé einhvers konar bónus ofan á reksturinn. Það getur átt sér stað að það þurfi fjármagn til þess að fara eitthvað í rútuferð í sambandi við skólann eða annað slíkt. Þá séu nýttir fjármunir sem aflað er á þennan hátt. En þarna skilur á milli að mínu mati, hvort verið er að nota fjármagn til þess að reka skólana eða til einhverra sérþarfa. Þess vegna hef ég allan fyrirvara um það, hæstv. forseti, hvort ég styð þetta frv. og reyndar sé ég ekki að ég muni styðja það nema því verði gerbreytt í hv. menntmn.