Tækniskóli Íslands

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 15:01:51 (5806)

     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég átti síst af öllu von á því að hv. þm. Svavar Gestsson mundi snúa þessari orðræðu upp í tilfinningasemi og setja hana undir annað sjónarhorn en hér er verið að fjalla um. Það er alls ekki verið að fjalla um það að leggja á nemendur í skólunum nýja skatta eða ný gjöld. Þvert á móti er verið að samræma stefnu í skólamálum að þeirri stefnu sem hv. þm. Svavar Gestsson hefur sjálfur fylgt og lýst yfir að hann hafi greitt atkvæði með og stutt dyggilega. Ef eitthvað er verið að gera hér þá er einmitt verið að fylgja því eftir að breyta til samræmis við það sem hv. þm. hefur verið stuðningsmaður að, a.m.k. á meðan hann var sjálfur í ríkisstjórn. Það veit hann vel að við reynum að taka afstöðu hér til mála út frá málefnum og efnisatriðum og ég trúi því að hv. þm. muni halda því áfram í stjórnarandstöðu eins og í stjórn eins og mér hefur fundist hann hafa gert allt fram að þessu. Veldur það mér vonbrigðum ef á að fara að reyna að snúa einföldum málum, sem liggja ljós fyrir, upp í einhverja stjórnarandstöðu sem gerir ekki neitt annað en draga úr þeirri samstöðu sem við þurfum að byggja upp núna umhverfis skólana á þrengingartímum.