Tækniskóli Íslands

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 15:04:13 (5808)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Hv. þm. Svavari Gestssyni þótti ekki sanngjarnt af mér eins og hann orðaði það að spyrja um skólagjöld við Samvinnuháskólann og talaði um að ég hefði dregið málefni Samvinnuháskólans inn í umræðuna. Tilefnið var það að í umræðum í gær var rætt um lánshæfni vissra námsbrauta og við vissa skóla. Þar var bæði nefnt Samvinnuháskólinn og fjarnámið við Kennaraháskóla Íslands og það var ástæðan til þess að ég kom inn á málið.
    Hv. þm. spurði mig hvort ég væri tilbúinn að beita mér fyrir breytingum á lögum þannig að Verslunarskólinn og að mér skildist Samvinnuháskólinn líka heyrðu undir hina almennu löggjöf um framhaldsskólann. Þessi mál eru öll núna í endurskoðun þannig að ég ætla ekki að vera með neinar sérstakar yfirlýsingar í þeim efnum, en í fljótu bragði sé ég enga ástæðu til að vera að breyta þarna til. Ég sé ekkert óeðlilegt við að ríkið greiði þann kostnað sem það gerir t.d. við Verslunarskólann. Þar er ákveðin viðmiðun sem er grundvöllur að greiðslum ríkissjóðs. Það er í sem stystu máli kostnaður við skólahaldið í Menntaskólanum í Reykjavík og Menntaskólanum við Sund og auk þess er af mjög eðlilegum ástæðum greidd húsaleiga vegna þess að ríkið á ekki húsið og ég skil ekki hvers vegna er verið að agnúast út í það. Ríkið greiðir húsaleigu á fjölmörgum stöðum og m.a. vegna skólahalds. Það er ekkert einsdæmi að ríkið greiði húsaleigu vegna Verslunarskólans, það er fjarri því að vera einsdæmi. Mjög margir skólar eru í leiguhúsnæði.
    Ég ætla ekki að draga skipan skólanefndanna inn í umræðuna. Það er eitt af því sem er ástæða til að endurskoða. Ég er ekki viss um að þær séu eðlilegast skipaðar eins og þær eru í dag. Mér finnst t.d. ekkert eðlilegt að kennarar séu allt í einu orðnir yfirmenn skólastjóranna vegna þess að þeir eiga sæti í skólanefnd. Ég tel að það þurfi endurskoðunar við og þess vegna ekkert sjálfgefið að það eigi að færa kerfið í Verslunarskólanum í sama horf eins og er í öðrum framhaldsskólum.
    Ég á satt að segja svolítið erfitt með að átta mig á því hvers vegna við erum að deila um þetta. Eins og hefur komið fram hjá hv. þm. Gunnlaugi Stefánssyni og margsinnis hjá mér erum við að færa þessi ákvæði laganna um Tækniskóla Íslands til samræmis við það sem gildir um aðra skóla á háskólastigi. Það er það sem við erum að gera og það er ekkert verið að læða hér neinu inn eða reyna að gabba einhvern og síst af öllu samstarfsflokkinn. Það er aldeilis ekki verið að því. Þeir eru alveg með opin augu fyrir því sem þeir eru að gera og hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson hefur alveg skýrt það út. Það er verið að samræma en ekkert verið að fara hér á bak við neinn og því síður að það sé verið að gera hér einhverja mjög róttæka breytingu eins og hv. þm. Svavar Gestsson segir. Það er ekki verið að því.
    Mikið er gert úr því að með 1. gr. sé verið að fella niður síðari mgr. 1. gr. í gildandi lögum sem segir að kostnaður við stofnun og rekstur skólans greiðist úr ríkissjóði. Þessi ákvæði eru ekki í lögunum um þá skóla sem ég taldi hér upp áðan, um Háskóla Íslands, um Háskólann á Akureyri, um Kennaraháskólann.
    Ég tel liggja í augum uppi að frumgreinadeildin í Tækniskólanum fer eftir ákvæðum um framhaldsskóla þannig að það er ekki hin minnsta hætta á því að farið verði að leggja á skólagjöld vegna frumgreinadeildarinnar við Tækniháskólann eftir einhverjum öðrum lögum. ( SvG: Af hverju stendur það ekki í frv.?) Það leiðir af sjálfu sér og ég er að segja það að við erum að færa þessi ákvæði til sama horfs og eru í lögunum um skóla á háskólastigi. Ég hef ekkert á móti því að hv. menntmn. athugi málið ef mönnum sýnist nauðsynlegt að taka þarna af öll tvímæli. Ég hef lýst því yfir að það er ekki verið að læða hér neinu inn, alls ekki.
    Annað sem ég á afskaplega erfitt með að skilja í málflutningi hv. þm. Svavars Gestssonar er að það er alveg eins og það sé verið að leggja á skólagjöld í fyrsta skipti. Ég spurði einhvern tíma í fyrra hvar hv. þm. Svavar Gestsson hefði verið á meðan hann var í ráðherrastóli og horfði þá upp á það væntanlega þegjandi að það voru innheimt skólagjöld í nálægt öllum framhaldsskólum landsins. Ég lagði fram upplýsingar um það. Ég er með nýjar upplýsingar enn. ( SvG: Þetta er útúrsnúningur.) Nei, þetta er enginn útúrsnúningur, hv. þm. Það er stundum látið að því liggja að innheimta skólagjalda í framhaldsskólakerfinu hafi eingöngu runnið til skólafélaganna, til nemendafélaganna. Ég hef það allt saman sundurliðað. Að vísu er í mörgum skólum miklu hærri upphæð sem rennur til skólafélaganna en skólanna sjálfra. Því miður er það svo eða hefur verið svo til skamms tíma að ýmsir þessara framhaldsskóla létu þessa ekki getið í fjárlagatillögum sínum að þeir innheimtu skólagjöld. ( KÁ: Hvað var gert við þessa peninga?) Hvað var gert við þessa peninga? Við vitum það ekki nákvæmlega vegna þess að ráðuneytinu var ekki gerð grein fyrir því. Ég held að hv. þm. Svavar Gestsson geti staðfest það að hann vissi ekki nákvæmlega í ráðherratíð sinni hvað var gert við þessa peninga. Ég efast ekki um að þeir hafi allir runnið til hinna þarflegustu viðfangsefna í skólanum. ( SvG: Fullkomin fölsun á veruleikanum.) Ég er með ýmsar upplýsingar um innheimtu gjalda í framhaldsskólakerfinu. Til er reglugerð um framhaldsskóla. Hún er nr. 105/1990. Hver ætli hafi verið ráðherra menntamála þá? Er nokkur vafi á því? Ég held ekki. Þar segir:
    ,,Skólanefnd skal að fengnum tillögum skólameistara ákveða upphæð þeirra gjalda er nemendum er gert að greiða við innritun í námsáfanga, svo sem innritunargjalda, efnisgjalda, pappírsgjalda og nemendasjóðsgjalda . . . `` og einnig þeirra gjalda ,,er nemendur skulu greiða vegna sérgreinds kostnaðar við rekstur mötuneytis, skipulagðan akstur, efniskaup til verklegrar kennslu, vegna leigu í heimavist`` o.s.frv.

    Þetta eru gjöld sem hafa verið innheimt og það er enn þá verið að innheimta þau. ( SvG: Skv. 33. gr. Þetta er allt annað mál, hæstv. ráðherra.) Þetta er líka samkvæmt heimildum í 8. gr. framhaldsskólalaganna, það veit hv. þm. og ætti ekki að rugla þessu saman við ákvæði 32. gr. framhaldsskólalagnna sem taka af öll tvímæli um það að skólagjöld verða t.d. ekki innheimt til þess að greiða kennslukostnað. ( SvG: En reksturinn?) Það liggur alveg ljóst fyrir. Rekstur? Það er ekki nægilega skilgreint. Það veit líka hv. þm. Hann beitti sér ekki fyrir því í ráðherratíð sinni að sett yrði reglugerð um innheimtu skólagjalda. Það er ég að láta undirbúa samkvæmt ákvæðum í gildandi lögum um framhaldsskóla. Sú reglugerð hefur aldrei verið sett þannig að mér finnst alltaf eins og verið sé að fara inn á braut núna með innheimtu skólagjalda sem aldrei hafi verið gengin áður. Það er bara rangt. Skólagjöld hafa a.m.k. verið innheimt frá því að framhaldsskólalöggjöfin var sett. Ég þekki ekki málið lengra aftur í tímann. Þessar upplýsingar liggja nú alveg fyrir. ( SvG: Ekki reksturinn.)
    Hefur hv. þm. sannanir fyrir því hvernig þeim skólagjöldum, sem hafa verið innheimt í hinum einstöku framhaldsskólum landsins frá 1988 og kannski fyrr, hefur verið varið? Ég hef þær ekki. ( SvG: Ekki í rekstur.) Ekki í rekstur. Hefur hv. þm. alveg skýra greiningu á því hvað er rekstur og hvað eitthvað annað? ( SvG: Er ráðherrann að bera þjófnað á . . .  ) Nei, ég er ekki að því. Ég er ekki heldur að bera á þá lögbrot, alls ekki. En ég er að segja að reglugerð um innheimtu skólagjalda hefur ekki verið til og í raun og veru eru engin sérstök takmörk fyrir því hvað skólarnir hafa mátt innheimta og heldur ekki hvað þeir hafa innheimt. Ég hef allar þessar upplýsingar. Þetta er mjög misjafnt. Hæsta tala sem ég sé í innritunargjöldum í framhaldsskólakerfinu sýnist mér vera 16 þús. kr. og þá er ekki verið að tala um efnisgjöld, húsaleigu eða annað slíkt sem eru í mörgum tilvikum miklu hærri upphæðir. 11 þús., 10 þús. er í þó nokkuð mörgum skólum, 9 þús., 6 þús. o.s.frv. Í skólasjóð sé ég að fer hér mest í 12.700, ekki 16 þús., 12.700 en 3.300 til nemendafélags. Þannig er þetta og því er ekki neitt nýtt að sjá hér dagsins ljós, alls ekki og með þessum tillögum um breytingu á lögum um Tækniskóla er ekki verið að gera neina róttæka breytingu.
    Hv. þm. spurði enn og aftur af hverju væri verið að fella niður ákvæðið í 1. gr. Ég er margbúinn að svara því. Það er einfaldlega vegna þess að verið er að samræma þetta löggjöf annarra skóla á háskólastigi en það er ekkert verið að læða einu né neinu hér inn. Þess vegna þarf heldur ekki að spyrja hvort það eigi að líða eitthvert lagafúsk eins og hv. þm. Svavar Gestsson spurði. Þetta er ekkert lagafúsk. Enn og aftur, hér er verið að samræma lögin um Tækniskólann annarri löggjöf.
    Svo aðeins sem hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson er svo sem búinn að svara varðandi afstöðu Alþfl. Jú, við höfum þann hátt á eins og hv. þm. Svavar Gestsson þekkir vafalaust frá ráðherratíð sinni að það er skipst á bréfum milli flokka um hvort þeir samþykki framlagningu frumvarpa eða ekki. Ég hef hér afrit af bréfi Alþfl. varðandi þetta mál og það er svona:
    ,,Þingflokkur Alþfl. hefur samþykkt að frv. til breytinga á lögum um Tækniskóla Íslands verði flutt sem stjfrv. með fyrirvara um breytingar á frv. í meðferð þingsins.``
    Þetta er hinn venjubundni fyrirvari sem þingflokkarnir hafa þegar þeir eru að samþykkja framlagningu frv. og er ekki neitt sérstakt um það að segja. Þetta er hið venjulega.