Tækniskóli Íslands

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 15:23:49 (5816)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er að mínum dómi mjög þörf umræða sem hér á sér stað vegna þess að það er ekki rétt sem fram hefur komið hjá hæstv. menntmrh. að hér sé verið að gera einfalda breytingu á lögum um Tækniskóla Íslands til samræmis við aðra skóla á háskólastigi. Hér erum við að fara í gegnum mjög mikla grundvallarumræðu um skólagjöld og stefnuna í þeim málum.
    Við höfum lengi vitað það eða frá því að þessi ríkisstjórn tók til starfa að hún hefur haft í hyggju að koma á skólagjöldum. Það kom fram strax sumarið 1991 eftir að þessi stjórn tók til starfa. ( GunnS: Skólagjöldin hafa verið innheimt í 20--30 ár.) Ég bið þingmanninn að hafa biðlund. Ég ætla að koma að því máli hér síðar.
    Það kom fram í máli hæstv. menntmrh. þegar sumarið 1991 að hann hafði í hyggju að koma á skólagjöldum, en þegar þing tók til starfa kom í ljós að mikil andstaða var við slíkt í Alþfl. sem við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1992 kom í veg fyrir að sérstök skólagjöld yrðu innheimt í framhaldsskólum landsins. Sú vörn féll við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1993. Þá komum við að því sem hv. þm. var að kalla hér fram í að skólagjöld hafi verið innheimt hér áratugum saman. Þarna er að mínum dómi um miklar rangfærslur að ræða. Þetta getur að vísu verið spurning um það hvað við köllum hlutina og hvernig við skilgreinum skólagjöld, hvort við erum að tala um einstök gjöld sem hafa verið innheimt í framhaldsskólunum og hér hafa mikið verið til umræðu eða hvort við erum að tala um það að nemendur fari að borga rekstur skólanna. Þannig hefur það ekki verið í langsamlega flestum tilvikum. Í fyrra þegar umræða um skólagjöld hófst eða fyrir afgreiðslu fjárlaganna 1992 þá hringdum við nokkrir þingmenn í hvern einasta framhaldsskóla á landinu og spurðum um það hvernig þessum peningum væri varið, við hringdum í hvern einasta framhaldsskóla. Ég hef ekki trú á því að þeir sem þar urðu fyrir svörum hafi verið að gefa okkur rangar upplýsingar vegna þess að þeim upplýsingum bar mjög saman, bæði við það sem ég þekki úr framhaldsskólunum og við það sem maður vissi að gengur og gerist í skólunum. Þessi mál hafa einfaldlega verið með þeim hætti að það hafa verið innheimt gjöld sem að mestum hluta hafa runnið í sjóði nemenda. Í þeim skóla, þar sem ég kenndi áður en ég komst á þing, voru innheimtar 1.000 kr. fyrir leikhúsmiða. Það þótti rétt að gera það að hausti til meðan nemendur ættu einhverja peninga og væru búnir að borga miðann fyrir fram og síðan minnir mig að 2.000 kr. hafi farið í svokölluð pappírsgjöld eða innritunargjöld. Nú vil ég fá að upplýsa hv. þm. um það til hvers þeir peningar voru notaðir ef hann vildi nú vera svo vænn að hlusta, en þeir voru m.a. notaðir til þess að styðja nemendur sem áttu í erfiðleikum. Þeir voru notaðir til þess að styðja leiklistarsýningu skólans. Þeir hafa verið notaðir til þess að efla kór. Það sama gildir um aðra framhaldsskóla á landinu og get ég þar nefnt sem dæmi Menntaskólann við Hamrahlíð sem heldur uppi einhverju merkilegasta kórstarfi sem um getur hér á landi en aðrir nemendur hafa lagt sitt af mörkum í svokölluðum innritunargjöldum til þess að styðja þessa starfsemi. Peningarnir hafa verið notaðir til slíkra hluta. Það sem er að gerast hér er einfaldlega það að farið er að gera ráð fyrir því að skólarnir innheimti ákveðnar upphæðir í svokallaðar sértekjur og farið er að reikna þær tekjur inn í rekstur skólanna.
    Þó eru hér afar sérkennilegir hlutir sem ég kann ekki að skýra og væri gott ef hæstv. menntmrh. gæti skýrt það fyrir okkur. Hér hefur nokkuð verið rætt um Verslunarskólann og Samvinnuháskólann í Bifröst. Ég veit ekki hver skólagjöldin eru í Verslunarskólanum núna fyrir þennan vetur en í fyrra voru þau 37 þús. kr. á nemanda. Ef hæstv. menntmrh. er að rökstyðja það hér að fjárlögin eigi að spegla kostnaðinn við skólann hlýtur það að gilda varðandi Verslunarskólann líka og er honum samkvæmt fjárlögum ætlað að innheimta 4,6 millj. kr. í sértekjur. Það er ljóst að skólagjöldin eru ekki inni í þeirri tölu. Það er alveg augljóst mál því að Verslunarskólinn er mjög stór skóli sem á samkvæmt fjárlögum að afla sér 4,6 millj. en Tækniskólinn sem hér er til umræðu á að afla sér 7,1 millj. Ég spyr hver er skýringin á þessu. Það er alveg augljóst að skólagjöld Verslunarskólans sem eru m.a. notuð í rekstur, í tækjakaup og fleira, enda er hann einkaskóli, hann er skilgreindur sem einkaskóli þó að ríkið borgi megnið af kostnaðinum.
    Ég er ekki alveg sammála hv. þm. Svavari Gestssyni um þessa skóla. Ég get út af fyrir sig samþykkt það að menn reki skóla ef þá langar til. Ef menn reka einkaskóla og hafa aðstöðu til þess að afla til þess mun meiri fjár en aðrir fá þá eiga þeir líka að borga það sjálfir. Þá á ríkið ekkert að standa undir þeim rekstri. Ég sé engin rök fyrir því.
Hitt er annað mál að það er auðvitað ágætt og gott mál að hafa hér verslunarskóla en menn verða bara að gera svo vel að greina á milli ríkisskóla annars vegar og einkaskóla hins vegar. Auðvitað er hægt að hugsa sér einhvern blandaðan rekstur en þá er líka eðlilegt að ríkið komi að stjórn skólans.
    Mér finnst að í þessari umræðu um skólagjöld sé verið að blanda tvennu saman. Það er alveg augljóst mál hvað gerðist með fjárlögunum 1992 að þá var háskólanum gert samkvæmt fjárlögum að afla sér aukinna sértekna. Fé til hans var skorið svo mikið niður að skólinn átti ekki annarra kosta völ og hér er einfaldlega verið að opna fyrir það, hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, að hið sama gerist í Tækniskólanum. Það er verið að opna fyrir það að Tækniskólinn fari að innheimta skólagjöld í svipuðum mæli og gert er í Háskóla Íslands. Ég veit reyndar ekki hvað skólagjöldin eru há í Kennaraháskólanum en ég veit þess dæmi að fólk hefur hætt við að innrita sig í Háskóla Íslands vegna þess hve skólagjöldin eru orðin há. Skólinn tekur til sín 17 þús. kr. af hverjum nemanda. Það finnst kannski sumum ekki há upphæð en þegar fólk er að reka heimili og ala upp börn þá munar um slíkar upphæðir. Þegar búið er að skerða lánasjóðinn og þrengja að námsmönnum með þeim hætti sem raun ber vitni þá munar fólk um slíkar upphæðir. Ég veit þess dæmi og það gildir fyrst og fremst um konur að þær hafa orðið að hætta við að fara í nám vegna þess hvernig ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. er að herða að þessu fólki. Ég þarf ekki að taka það fram að ég er algerlega mótfallin þessari stefnu. Ég er þeirrar skoðunar og við kvennalistakonur að í því skólakerfi, sem við teljum til ríkisskóla, eigi fólk að eiga frjálsan aðgang að námi og það sé röng stefna að sækja sífellt meira í vasa nemenda.
    Það hefur komið fram að nú eru innheimtar 4.100 kr. af nemendum í Tækniskóla Íslands og samkvæmt upplýsingum þaðan telur skólinn sig ekki hafa haft neinar heimildir til þess að innheimta önnur gjöld. Þessar 4.100 kr. hafa fyrst og fremst runnið til nemenda eins og hér kom fram. En á fjárlögum tvö ár í röð hefur verið gert ráð fyrir sértekjum fyrir Tækniskólann og ég hlýt að spyrja hvernig það bil hefur verið brúað. Hvernig hefur Tækniskólinn brúað það bil sem þarna hefur greinilega vantað upp í tekjuöflun skólans? Hvernig stendur á því að ár eftir ár eru settar inn í fjárlög sértekjur á þennan skóla og hann hefur engar heimildir til þess að afla sér þeirra sértekna? Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Hvers konar lagasetning er þetta? Fjárlög eru lög. Ég horfi á hv. þm. Gunnlaug Stefánsson sem situr í fjárln. Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Það er alveg makalaust að horfa upp á svona lagað. Hér er loksins undir vor árið 1993 verið að reyna að afla skólanum þessarar heimildar sem ég er reyndar algerlega á móti að veita honum. En þetta eru auðvitað alveg fráleit vinnubrögð.
    Við minnumst þess að fyrir síðustu jól komst í gegn að innheimt yrðu skólagjöld í framhaldsskólanum, þ.e. aukin gjöld miðað við það sem verið hefur. Gert er ráð fyrir 3.000 kr. gjaldi á nemanda. Það bætist auðvitað ofan á það sem fyrir er því að ekki stendur til að skerða nemendasjóðinn, eða hvað? Stendur það til? Ætlar ríkið að fara að skipta sér af því? Ætlar ríkisstjórnin að fara með puttana í það? Það væri fróðlegt að fá það upplýst hér. ( Menntmrh.: Það stendur ekki til.) Nei, það er gott að vita það, enda kemur það ríkinu ekkert við hvernig nemendur afla sér tekna meðan það er gert með löglegum hætti. Ég

harma það að ríkisstjórnin skuli vera að færa sig inn á svið skólanna með þessum hætti og koma hugsanlega í veg fyrir það að nemendum sem eiga í erfiðleikum verði hjálpað því að auðvitað er verið að skerða fé til skólanna. Auðvitað er verið að gera þeim að afla sér tekna með öðrum hætti en verið hefur.
    Ég get ekki látið hjá líða að koma aðeins inn á það sem kom fram í máli hæstv. menntmrh. varðandi skólanefndirnar. Það er reyndar annað mál og heyrir svo sem ekki undir Tækniskólann en hér hefur ýmislegt komið til umræðu sem varðar skólana almennt. Ég hef heyrt þetta sjónarmið frá skólameisturum að þeim þyki hart við það að búa að kennarar sitji í skólanefndum og lendi þar hugsanlega í meiri hluta, en ég tel það nú svo sjálfsagt mál að kennarar eigi aðild að skólanefndum og starfsmenn skólanna aðrir og nemendur og foreldrar að það þurfi bara ekki að tala um svoleiðis lagað. Það reynir auðvitað á þegar menn lenda kannski í einhverjum deilum hvar meiri hlutinn liggur. En skólameistarar eru auðvitað ekki neinir ókrýndir stjórnendur. Við erum að tala um lýðræðislega stjórnarhætti í stórum fyrirtækjum sem skólar eru auðvitað. Þar koma margir að og því betri sem samvinnan er og því fleiri sem koma að stjórn skólanna, því betra. Það er a.m.k. mín reynsla og það er ekki síst sem hlutur nemenda er oft afar góður þegar þeir koma með ýmsar góðar tillögur og þeir eru auðvitað í hópi nemenda og heyra um ýmislegt sem aflaga fer og það hefur að mínum dómi verið mjög til góðs að nemendum var veitt aðild að stjórnum skólanna.
    Ég vil að lokum minna á það, virðulegi forseti, að reynslan úr Háskóla Íslands hefur sýnt okkur það að þegar einu sinni er búið að setja skólunum stólinn fyrir dyrnar með þeim hætti sem raun ber vitni á undanförnum tveimur árum þá eiga skólarnir auðvitað ekki annarra kosta völ en að fara út í það að innheimta há skólagjöld. Ég kalla það ekki skólagjöld, sem innheimt hafa verið, vegna þess að þau hafa ekki farið í rekstur skólanna. Menntmrh. kom inn á það hvað er rekstur og hvað er ekki rekstur. Í umræðu sem varð um skólamál haustið 1991 rakti sú sem hér stendur hvernig málum er háttað í Háskóla Íslands. Ég kynnti mér alveg sérstaklega hvernig þeim málum var háttað áður en skólagjöld voru hækkuð þar og ég held að hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson hefði afar gott af því að hlusta á það. Þá voru innheimt gjöld upp á 7.700 kr. í Háskóla Íslands en þau eru nú um 23.000 kr. Af þessum 7.700 kr. runnu 5.700 til stúdenta og skiptust á milli stúdentaráðs og Félagsstofnunar stúdenta þannig að háskólinn fékk 2.000 kr. í sinn hlut. Þeir peningar voru notaðir til þess að borga skólaskírteini, myndatöku, kennsluskrána og vottorð sem nemendur þurftu að fá. Peningarnir fóru til þjónustu við nemendur. Það má kannski kalla það rekstur. Þetta er auðvitað hluti af nauðsynlegri þjónustu en samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk þegar ég var að kanna þetta dugðu þessir peningar hvergi nærri fyrir þessu. Menn geta rétt ímyndað sér hvað kennsluskrá Háskólans kostar, það er engin smábók. Við þurfum auðvitað að skilgreina hvað við meinum með orðinu skólagjöld. Við sem erum andstæðingar skólagjalda og teljum ríkisstjórnina vera á mjög rangri braut í þessu erum auðvitað fyrst og fremst að tala um að ekki verði farið lengra inn á þá braut að láta nemendur standa undir almennum rekstri, svo sem tækjakaupum, kennslu og öllu því sem er í kringum rekstur eins skóla. Við erum að tala um það hvaða stefna eigi að ríkja hér í skólamálum og það er alveg ljóst að um það eru skiptar skoðanir. Hér er ríkisstjórn sem dreymir um að einkavæða á öllum sviðum og dreymir um það að koma á svokölluðum þjónustugjöldum sem víðast og hefur reynt allt hvað hún getur og er því miður búin að vinna mikið tjón, m.a. í heilbrigðiskerfinu. Það er auðvitað í samræmi við þá stefnu sem verið er að færa sig upp á skaftið í skólagjöldunum. Þetta er stefna sem ég er andvíg. Ég tel að við eigum að hafa góða ríkisskóla til þess að halda hér uppi almennri og góðri menntun til að tryggja það að fólk hafi jafnan aðgang að námi en ég get líka samþykkt það að fólk fái að reka hér skóla af ýmsu tagi ef það hefur til þess vilja. En það getur ekki ætlast til þess að aðrir séu að borga fyrir ýmiss konar sérréttindi. Það get ég ekki fallist á.