Tækniskóli Íslands

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 15:44:03 (5818)

     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég benti á það í ræðu minni áðan hver þróunin hefur orðið í Háskóla Íslands. Menntmrh. heldur því fram að verið sé að samræma lög og ég dreg af því þá ályktun að með því að breyta þessum lögum sé einfaldlega verið að opna fyrir það að Tækniskóli Íslands komi á háum skólagjöldum. Eins og hér hefur komið fram hafa verið innheimtar 4.100 kr. sem hafa runnið í nemendasjóð og við skulum halda nemendagjöldunum fyrir utan umræðuna. Gjöld til skólans hafa ekki verið innheimt í Tækniskólanum. Þeir hafa ekki talið sig hafa heimild til þess samkvæmt því sem mér var sagt í skólanum í gær. Með frv. er verið að opna fyrir það að farin verði sama leiðin í Tækniskóla Íslands og í Háskóla Íslands að skólagjöldin séu stórhækkuð. Ég er því andvíg. Við höfum horft upp á það að nemendum hefur stórfækkað í Tækniskóla Íslands vegna þess hvernig Alþfl. og fleiri hafa staðið að því að breyta lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Telja menn að það sé þetta sem við þurfum? Við erum að tala um það að við þurfum að mennta þjóðina, okkur vanti tæknimenntað vinnuafl og við þurfum að byggja hér upp atvinnulíf. Svo eru menn að sauma að skólum eins og Tækniskóla Íslands. Hvert leiðir þetta, hv. þm.? Þetta er röng stefna. Við eigum að útvega þessum skólum það fé sem þeir þurfa og þegar hv. þm. gengur með mér í það að spara í heilbrigðiskerfinu með fyrirbyggjandi aðgerðum þá skulum við tala um það hvernig við skipuleggjum aðra málaflokka í þjóðfélagi okkar. Það þýðir ekkert að benda á það að menn geti ekki sagt hvaðan peningarnir eiga að koma eða hvert menn ætla að sækja þá og það sé ekki verið að hækka skólagjöld. Það er verið að opna fyrir það að innheimta há skólagjöld í Tækniskóla Íslands. Við getum náð okkur í peninga með öðrum hætti og við skulum gera það, hv. þm.