Tækniskóli Íslands

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 15:46:09 (5819)

     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hér talar hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir eins og hæstv. ríkisstjórn hafi tekið upp á því fyrst allra ríkisstjórna að leggja á skólagjöld eða nemendagjöld í landinu. ( Gripið fram í: Í rekstur.) Það virðist ekki hafa þurft nein lög allt frá því að þessi ríkisstjórn kom til valda til þess að innheimta skatta af nemendum til skólastarfsins. Við skulum þá hætta að tala um rekstur og við skulum þá bara kalla það skólastarfið. Það er langtum viðtækara og eðlilegra og réttlátara.
    Hv. þm. Svavar Gestsson, þáv. menntmrh., tók ekki einu sinni eftir því að það voru einhver gjöld borguð í þessum skóla og það hefur komið fram hér í umræðunum og það þurfti engin lög til. Þess vegna spyr ég hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur sem á eftir að svara hér í andsvari: Hvaða ástæða er til að ætla að þessi lagabreyting muni hvetja til þess að innritunargjöld í Tækniháskóla Íslands verði hækkuð ef Tækniháskóli Íslands og aðrir skólar fram að þessu hafa hvorki þurft að spyrja kóng né prest hvort þeir hækki eða lækki skólagjöldin yfir höfuð? Það kemur greinilega fram á þeim mismunandi skólagjöldum sem í gildi eru. Sums staðar eru þau mjög lág. Sums staðar eru þau mjög há. Skólarnir virðast hafa þetta alveg á sínu valdi hversu há þessi gjöld eru þannig að við erum í raun og veru ekki að tala hér um kjarna málsins og lög hafa ekkert haft um þetta að segja fram að þessu.