Tækniskóli Íslands

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 15:47:59 (5820)

     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Enn einu sinni verðum við að greina annars vegar á milli einkaskóla og ríkisskóla, á milli skólagjalda sem renna að hluta til til reksturs skóla og hins vegar á milli gjalda sem nemendur eru að innheimta. Það hefur staðið um það deila í Háskóla Íslands hvort nemendum beri skylda til þess að greiða þau gjöld sem þar er verið að innheimta. Sumir hverjir telja sig geta staðið þar utan við. En staðreyndin er sú eins og hér hefur margoft komið fram að nemendur hafa innheimt gjöld og ég get ekki séð hvað bannar þeim það. Reyndar hafa skólarnir séð um þessa innheimtu. Síðan renna þeir peningar í sjóði nemenda og síðan hefur þetta ákveðna pappírsgjald verið tekið. ( Gripið fram í: Ekki nema hluti af því.) Megnið af upphæðinni, virðulegi þingmaður. ( GunnS: Varðar það ekki helming?) Hann verður að gera svo vel og nefna mér dæmi um það. Eins og ég sagði hér í ræðu minni áðan, þá hringdum við í hvern einasta framhaldsskóla á landinu. Þegar þingmaðurinn kemur út í skóla eins og Verslunarskóla Íslands gilda þar bara allt önnur lögmál vegna þess að það er einkaskóli sem innheimtir nálægt 40 þús. kr. eða jafnvel meira núna í nemendagjöld sem eru m.a. notuð í tækjakaup og ýmiss konar rekstur. Það er mjög vel búið að Verslunarskóla Íslands. Það er best búni skóli á landinu. Það er vegna þess að þeir hafa getað innheimt há skólagjöld. Þeir virðast hafa til þess heimild. Ég þekki ekki lögin um Verslunarskóla Íslands það vel að ég viti hvernig því er varið. Ég þarf að fletta því upp í lagasafninu. En við verðum að greina þarna á milli. Það eru einkaskólar og það eru ríkisskólar og ástæðan fyrir því að ég er á móti þessu er sú að reynslan frá Háskóla Íslands sýnir okkur það að þannig er búið að skólunum að þeir verða að hækka skólagjöldin.