Tækniskóli Íslands

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 15:50:14 (5822)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Hv. 5. þm. Austurl., sem er kominn í mjög krappa stöðu blessaður, fullyrti áðan að menntmrh. hefði í minni tíð ekki tekið eftir því að það hefðu verið lögð á innritunargjöld í skólum. Ég

þarf ekki annað en vísa til þeirrar reglugerðar sem ég setti um starfsemi framhaldsskóla til þess að staðfesta að þetta er afskaplega ómerkilegur áburður og til marks um að hv. þm. er holdi klætt rökþrota bú hér í ræðustólnum og vandi hans liggur í því að hann hefur samþykkt að það verði tekin skólagjöld í rekstur skólanna sem hann vill núna kalla skólastarfið eins og hann orðaði það. Þar er auðvitað nákvæmlega um það sama að ræða.
    Ég held, virðulegi forseti, að þessi umræða hafi leitt mjög skýrt í ljós að nemendur framhaldsskólanna í landinu hafi ákveðið í skólafélögunum að taka tiltekin gjöld, eins og félagsgjöld og algengt er að taka. Stundum hefur þetta verið notað í annað. Það er alveg rétt hjá hæstv. menntmrh. Þetta hefur verið notað t.d. í bræðrasjóð Menntaskólans í Reykjavík sem hefur verið notaður til þess að styrkja nemendur utan af landi sem hafa stundað þar nám. En það er jafnrétt sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir sagði að ef það á að taka peninga af þessum innheimtum í almennan rekstur, þá þýðir það minna svigrúm til að styrkja efnalitla nemendur og það er skrýtin jafnaðarstefna að fallast á fyrirkomulag af því tagi sem dregur úr jöfnunarmöguleikum að þessu leytinu til.
    Ég taldi og tel að það hafi verið eðlilegur hlutur að setja ákvæði 8. gr. í framhaldsskólalögin á sínum tíma, en mig óraði ekki fyrir því að sú grein yrði misnotuð eins og núna er verið að gera, misnotuð með þeim hætti að það er verið að taka peninga samkvæmt þessari grein í almennan rekstur skólanna. Út á þetta gengur málið og það er vandinn sem hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson stendur frammi fyrir, að hann hefur samþykkt að skattleggja nemendur framhaldsskólanna með sérsköttum sem ganga til þess að greiða rekstrarkostnað skólanna. Jafnaðarmannaflokkur Íslands hefur samþykkt að leggja sérstaka skatta á nemendur framhaldsskólanna og það er eðlilegt að hann geri tilraunir til þess að sverta störf annarra af því tilefni, en ég vísa því algerlega frá mér um leið og ég lýsi því yfir, virðulegi forseti, að vissulega finn ég til með hv. þm. því að hann er í vonlausri stöðu.