Menningarsjóður

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 16:05:21 (5825)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Hér hefur hæstv. menntmrh. mælt fyrir frv. til laga um Menningarsjóð. Ég get sagt það strax að ég hef ýmislegt við þetta frv. að athuga og kannski þá sérstaklega við vinnubrögðin við að leggja niður menntamálaráð og Menningarsjóð hinn forna. Þar voru einstök vinnubrögð viðhöfð. Ég hef líka sitthvað að athuga við stjórnskipan þessa nýja sjóðs og hvernig hugmyndir eru uppi um að afla honum tekna. Ég get hins vegar tekið undir það sem kemur fram í 1. gr. að það sé ástæða til að styðja útgáfu þeirra bóka á íslenskri tungu sem verða megi til eflingar íslenskri menningu.
    Hæstv. ráðherra komst svo að orði áðan að það hefði sjálfsagt verið ástæða til þess að ríkið tæki þátt í bókaútgáfu þegar gömlu lögin um menningarsjóð voru samþykkt. Mér fannst eins og það lægi í orðunum að það væri ekki meiningin að ríkið gerði það áfram, en þó gengur þetta frv. reyndar út á að svo verði áfram þó það verði með öðru sniði.
    Ég ætla ekki að fara í mjög löngu máli yfir forsöguna. Við höfum á hv. Alþingi nokkrum sinnum tekið fyrir málefni Menningarsjóðs og menntamálaráðs í tengslum við það að meiri hluti stjórnar lagði niður starfsemina án þess að lög væru felld úr gildi um að menntamálaráð og Menningarsjóður skyldu standa fyrir bókaútgáfu. Þessi vinnubrögð hafa verið gagnrýnd, ekki bara af okkur stjórnarandstæðingum á hv. Alþingi heldur einnig af --- hæstv. ráðherra gæti kannski sagt sem svo --- virtari mönnum í þessu þjóðfélagi. Það kom t.d. fram í áliti frá umboðsmanni Alþingis að í þessu sambandi nægði ekki heimild í fjárlögum fyrir fjmrh. til þess að semja um ráðstöfun eigna og skulda sjóðsins, en slík heimild var samþykkt með fjárlögum árið 1992 eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra.
    Þá hefur Sigurður Líndal einnig látið sig þetta mál varða. Hann skrifaði grein í Morgunblaðið, laugardaginn 16. maí 1992, þar sem hann fjallar mjög ítarlega um þetta mál og hefur ýmislegt við vinnubrögð meiri hluta Menningarsjóðs og hæstv. ríkisstjórnar að athuga í þessum efnum. Ég hef grun um að hv. 18. þm. Reykv. ætli að fara nánar í þau mál og ætla því ekki að gera það.
    Ég sagði að ég hefði líka ýmislegt við stjórnskipan að athuga. Mér finnst ekki eðlilegt að hæstv. menntmrh. skipi alla stjórnin þannig að sjóðurinn sé í sjálfu sér pólitískt verkfæri í höndum ráðherra. Um mál sem þessi, menningarmál, á að geta ríkt mikil samstaða í þjóðfélaginu og ég tel æskilegra að þarna komi fleiri að og aðilar í þjóðfélaginu tilnefni t.d. í stjórnina heldur en að þetta sé gert á þennan hátt. Nú veit ég að hæstv. menntmrh. gerir sér grein fyrir því að Sjálfstfl. kemur ekki alltaf til með að fara með menntmrn. og ég vil biðja hann að hugsa til þess tíma --- þá verður skipt algerlega um stjórn --- og hvort hann telji þetta fyrirkomulag æskilegt fyrir menningu þessa lands. Þegar um svo viðkvæm málefni er að ræða sem útgáfu bóka þá finnst mér alveg sjálfsagt að þar komi fleiri að og vil endilega beina því til hæstv. ráðherra hvort þetta sé ekki mál sem við getum tekið til endurskoðunar í menntmn. og komið með brtt. við og hann hugsanlega stutt.
    Svo er það í sambandi við tekjuhliðina. Þar er lagt til að gamla fyrirkomulagið gildi eins og kemur fram í a-lið 3. gr., með leyfi forseta: ,,Gjald af aðgöngumiðum að kvikmynda- og skuggamyndasýningum og dansleikjum skv. 8. gr. laga nr. 58/1970, um skemmtanaskatt.`` Og í öðru lagi: ,,Fjárveiting sem veitt er á fjárlögum hverju sinni.``
    Um þennan skemmtanaskatt lagði ég fram fyrirspurn á 113. löggjafarþingi vegna þess að þetta eru mjög gömul lög, frá 1970, og ekki í nokkru samræmi við það þjóðfélag sem við lifum í í dag. Ég leyfði mér þá að spyrja hæstv. fjmrh. hvort það stæði ekki til að breyta reglum og lögum um skemmtanaskatt í samræmi við aðrar breytingar og einföldun í skattkerfinu. Þá var svarið þetta, með leyfi forseta: ,,Það er óhjákvæmilegt að taka núverandi tilhögun skemmtanaskatts til athugunar í tengslum við hinar umfangsmiklu skattbreytingar sem nú hafa átt sér stað. Mun þess óskað að fjmrn. eigi um það samvinnu við menntmrn. að undirbúa slíka athugun.``
    Síðan hefur ekkert gerst að því er ég best veit. Nú ætlar hæstv. menntmrh. að fara að gera þessi úreltu lög að aðalatriðinu í tekjuöflun fyrir þennan nýja sjóð. Af því að hann var að gera sérstaklega lítið úr gömlu menningarsjóðslögunum vegna þess að þau væru svo gömul og hefðu kannski verið í takt við þann tíma þegar þau voru sett þá vil ég beina því til hans hvort það megi ekki vera að þessi lög um skemmtanaskatt, þó ég viti að þau heyra ekki undir hann, séu orðin það úrelt að ekki sé ástæða til að byggja á þeim varðandi þetta nýja frv. og væntanlegu þessi nýju lög.
    Það kom m.a. fram í svari við fyrirspurn minni um skemmtanaskattinn að það eru nær eingöngu kvikmyndahúsin sem skila einhverjum skemmtanaskatti. En veitingahús skila svo til engu þrátt fyrir að í lögum um skemmtanaskatt standi í 2. gr., með leyfi forseta:
  ,,2. flokkur. Kvikmynda- og skuggamyndasýningar.
    Af skemmtunum, sem til þessa flokks teljast, greiðist 15% skattur af brúttóverði seldra aðgöngumiða.
    3. flokkur.
    a. Dansleikir allir, hvort sem einstök félög eða dansskólar stofna til þeirra eða þeir eru haldnir fyrir allan almenning, enn fremur dansæfingar, er standa fram yfir kl. 11 að kvöldi. Haldi félag dansleik og sé aðgangur ókeypis er lögreglustjóra heimilt að ákveða skattinn.``
    Í 8. gr. þessara laga kemur fram, með leyfi forseta:

    ,,Leggja skal sérstakt gjald á alla selda aðgöngumiða samkvæmt 2. flokki 2. gr., að undanteknum kvikmyndasýningum fyrir börn, og að dansleikjum skv. a-lið 3. flokks sömu greinar. Nemur gjald þetta 1,5% af brúttóverði seldra aðgöngumiða að kvikmyndahúsum og 3% af brúttóverði seldra aðgöngumiða að dansleikjum.``
    Þetta er nú tekjustofninn sem hæstv. menntmrh. hugsar sér að nýta sér í þessu sambandi. Sannleikurinn er sá að þessi löggjöf er algerlega úrelt. Það skilar sér ekki sem veitingahúsin ættu að skila. Auk þessi gildir þetta ekki um öll kvikmyndahús. Tvö kvikmyndahús eru undanskilin, bæði Háskólabíó og Laugarásbíó.
    Mér finnst það veikja svo stöðu þessa frv. að ætla að byggja tekjuöflunina á þessum úreltu lögum að mér finnst þetta eiginlega vera allt saman hálfgert grín. Ef sjóðurinn, sem er þó til staðar samkvæmt lögum í dag, hefði fengið, því hann átti líka að fá þessar tekjur, þessar tekjur sem honum bar samkvæmt lögum þá hefði sú staða með Menningarsjóð og menntamálaráð aldrei komið upp, sem hæstv. ráðherra kom inn á hér í sínu máli, að þar hefði allt verið komið í þrot. Þá hefði sú staða hreinlega ekkert komið upp.
    Það væri athyglisvert ef þessar tekjur færu allt í einu núna að skila sér til Menningarsjóðs þó það séu komin einhver ný lög. Mér segir svo hugur að þetta sé allt saman hálfgert grín og þetta sé fyrst og fremst til að leggja niður gömlu lögin og þessi menningarsjóður verði ,,jafnlamaður`` og hinn fyrri innan mjög stutts tíma.
    Hitt er annað mál að þessar 15 millj. sem urðu til vegna uppgjörs Bókaútgáfu Menningarsjóðs eiga að renna til bókaútgáfu þó á þessu ári. ( Menntmrh.: Nei, ekki á vegum ríkisins. Því verður hætt.) Með leyfi forseta, stendur hér: ,,Ákvæði til bráðabirgða. Á árinu 1993 skulu 15 millj. kr. frá uppgjöri Bókaútgáfu Menningarsjóðs renna til Menningarsjóðs í stað framlags á fjárlögum.`` Ég get ekki skilið þetta öðruvísi en að þessar 15 millj. eigi að renna til sjóðsins í ár og síðan á næsta ári eigi ákvæði 3. gr. að taka gildi. ( Menntmrh.: Við hættum bókaútgáfunni.) Hætta bókaútgáfu, já, mér er kunnugt um það. En hæstv. ráðherra hyggst taka hana upp að nýju væntanlega. ( Menntmrh.: Nei.) Nei, ekki bókaútgáfu, að styrkja ákveðna útgáfu. Það er ekki það sama. Rétt skal rétt vera.
    Hæstv. forseti. Mér finnst þetta vera hálfgert yfirklór eins og hefur komið fram í máli mínu. Ég hef samt fullan hug á að skoða þetta mál í hv. menntmn. þar sem ég á sæti með jákvæðu hugarfari því að vissulega hljómar 1. gr. fagurlega. Stjórnina vildi ég sjá einhvern veginn allt öðruvísi og tekjuöflunina öruggari.