Menningarsjóður

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 17:15:29 (5828)


     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. menntmrh. er undrandi á því hvernig honum er tekið í þinginu og mér þykir leitt til þess að vita að honum skuli leiðast hér í þessari góðu stofnun þar sem hann kunni alla jafna vel við sig áður man ég var. ( Menntmrh.: Það er misskilningur að mér leiðist.) Svona er það nú að menn hafa auðvitað skiptar skoðanir á málum af því tagi sem hér er verið að ræða eins og gengur.
    Fyrst vil ég aðeins víkja að aðdraganda þessa máls sem hér er uppi og segja að það hefði verið miklu eðlilegra að byrja á því að flytja lagafrv. Það er að öllu leyti miklu heppilegra og um það getur í raun og veru ekki verið neinn ágreiningur. Það sjá það allir sanngjarnir menn að það er skynsamlegra að Alþingi móti stefnu í máli en að menn séu að pína þetta fram eða smygla stefnunni inn bakdyramegin.
    Í þessu menningarsjóðsmáli þá kynntumst við í þessari virðulegu stofnun og sérstaklega fulltrúar

Alþingis í menntamálaráði kynntust pólitískum vinnubrögðum sem ég hef kallað ,,borgarstjórastílinn`` en þau ganga út á það að ráðherranum eða ,,stjóranum`` dettur eitthvað í hug og það er gert. Það er alveg sama hvað lögin segja eða reglugerðirnar. Það er vesen og má leiðrétta það eftir á og laga það að ákvörðununum eftir á. En það er ekki svo mikið verið að vesenast í lagabókstafnum og reglugerðunum fyrr en hlutirnir eru búnir og gerðir.
    Við höfum kynnst mörgum dæmum um þetta í tíð hæstv. núv. ríkisstjórnar eins og við ræddum t.d. fyrr í dag í sambandi við Tækniskólann þar sem er verið að smygla inn skólagjöldum án þess að lög standi til þess með þeim rökum að þar sé verið að samræma það framhaldsskólunum og þó að ríkisstuðningurinn sé strikaður út í lögunum þá er það ekkert nýtt, segir ráðherrann. Það er bara samræming. En sama ríkisstjórn hefur ekki svo mikið við að samræma það í öðrum frv. sem hún er að flytja um sama mál. Það er t.d. ekki felldur niður ríkisstuðningur við Bændaskólann á Hvanneyri eða Bændaskólann á Hólum eða Garðyrkjuskóla ríkisins í frv. sem hér liggur fyrir frá sömu ríkisstjórninni. Röksemdirnar sem eru fluttar fyrir vinnubrögðunum reka sig því hverjar á annarra horn.
    Ég tel að það hefði verið eðlilegra að byrja á því að fara lagaleiðina. Ég segi það a.m.k. fyrir mig að ég hefði tekið því afar vel vegna þess að ég var þeirrar skoðunar og hef mjög lengi verið, löngu áður en ég fór til starfa í menntmrn. árið 1988, að það væri óhjákvæmilegt að endurskoða lögin um Menningarsjóð eins og þau voru vegna þess að þar voru gefin hátimbruð fyrirheit um eitt og annað sem var komin full reynsla á að ríkissjóður mundi aldrei standa við. Þess vegna var full þörf á því að endurskoða þessi lög og hefði verið skynsamlegra að byrja á því áður en, með leyfi forseta, ,,djöfulgangurinn`` byrjaði í kringum þessa stofnun.
    Hæstv. menntmrh. vill verja sig í þessu máli með nokkuð sérkennilegum hætti tel ég vera. Þ.e. með heimildargrein 6. gr. fjárlaga árið 1992 þar sem segir svo, með leyfi forseta: ,,Fjmrh. er heimilt að semja um ráðstöfun eigna og skulda Menningarsjóðs.`` Ég skil það svo að þetta séu eignir og skuldir og takmarkað við þær.
    Ég tel að í þessu ákvæði hafi ekki falist sá vilji að Alþingi væri að lýsa því yfir að það ætti að leggja bókaútgáfuna niður. Ég tel ekki felast í þessu ákvæði að það sé verið að segja: Menningarsjóður á að leggja niður bókaútgáfuna.
    Hæstv. menntmrh. vísað til ummæla tveggja stjórnarmanna í menntamálaráði sem hefðu viljað halda bókaútgáfunni áfram og verið þannig í raun og veru andvígar þeirri stefnu sem hæstv. menntmrh. vildi framkvæma í þessu máli. Hæstv. ráðherrann orðaði þetta áðan, með leyfi forseta, orðrétt: ,,Þær vildu halda áfram bókaútgáfunni en það var þvert á vilja Alþingis.``
    Þetta er ekki rétt uppsetning hjá hæstv. ráðherra. Vilji Alþingis stóð aldrei til þess að leggja bókaútgáfuna niður. Sú ákvörðun var ekki tekin með þessari heimildargrein árið 1992. Þetta segi ég hér, virðulegi forseti, vegna þess að ég held að það sé alveg nauðsynlegt að menn viti hvað þessar heimildargreinar þýða. Í fjárlögum ársins 1993 er mýgrútur af alls konar heimildum fyrir fjmrh. að semja um eignir og skuldir en það þýðir ekki að honum sé heimilt að leggja niður viðkomandi stofnanir. Honum er heimilt að selja t.d. tiltekin hús sem heilsugæslan hefur haft í notkun. Það þýðir ekki að fjmrh. sé heimilt eða heilbrrh. að leggja niður heilsugæslu í viðkomandi umdæmi. Þessi uppsetning hjá hæstv. menntmrh. er því ekki nákvæm, hún er ekki rétt, hún er ekki sönn og ég vísa henni algjörlega á bug.
    Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því að heimildarákvæði í 6. gr. dugir ekki í þessu efni. Heimildarákvæði 6. gr. dugir til þess að gera upp skuldir Menningarsjóðs og gera það upp með eignum Menningarsjóðs, tel ég vera, en það þýðir ekki að heimilt sé að leggja niður bókaútgáfu og starfsemi Menningarsjóðs. Það tel ég vera útúrsnúninga á heimildargreinum fjárlaga og mér finnst það satt að segja dálítið alvarlegt mál ef hæstv. ráðherrar ætla að túlka allar heimildargreinarnar svona, virðulegi forseti. Ætla ráðherrarnir í þessari ríkisstjórn, þar sem borgarstjórastíllinn er uppivaðandi, að túlka 6. gr. alla svona að um leið og það stendur að það sé heimilt fyrir fjmrh. að gera eitt eða annað varðandi eignir eða skuldir viðkomandi stofnana þá megi leggja niður alla starfsemi þeirra? Má leggja niður starfsemi skóla t.d. þar sem heimilað verður í 6. gr. fjárlaga að selja skólastjórabústað? Má leggja niður heilsugæslustöð af því að heimilað er í 6. gr. fjárlaga að selja gamlan héraðslæknisbústað, eða hvað? Þetta er auðvitað ekki rétt. Þetta er ekki nákvæmt og þetta er ekki rétt hjá hæstv. ráðherra.
    Alþingi hafði aldrei tjáð sig um það að Alþingi vildi leggja niður þessa bókaútgáfu. Það hafði aldrei gert það.
    Bókaútgáfa Menningarsjóðs og sú starfsemi sem þar hófst árið 1928 hefur alltaf verið Sjálfstfl. mikill þyrnir í augum. Sjálfstfl. var alltaf mjög þversum í sambandi við þessa stofnun á sínum tíma og taldi hana vera eina af mörgum tilraunum Jónasar Jónssonar, dóms- og menntamálaráðherra, til þess að leggja undir sig Ísland. Um þessa stofnun voru skrifaðar margar lítið fallegar greinar í Morgunblaðið fyrir nokkrum áratugum. Væri út af fyrir sig fróðlegt að rifja upp úr þessum ágæta ræðustóli það sem þar var skrifað en verður ekki gert að sinni.
    Sjálfstfl. grætur það þess vegna þurrum tárum þó að Menningarsjóður og starfsemin sem þar er sé aflögð í tíð núv. ríkisstjórnar og jörðuð. Einhverjum sem horfa á hlutina í því samhengi kemur það ekki á óvart þó að Sjálfstfl. leggi á það áherslu að koma þessari útgáfu og þeirri starfsemi allri fyrir kattarnef.
    Hitt er hins vegar ljóst, virðulegi forseti, að íslenska ríkið hefur staðið í margs konar útgáfustarfsemi og stuðningi við útgáfustarfsemi. Ég hef mjög lengi verið þeirrar skoðunar að það eigi að samstilla það með einhverjum hætti. Ég tel það hagkvæmara og ódýrara og skynsamlegra fyrir ríkið. Þá er ég t.d. að tala um útgáfu á vegum Árnastofnunar, svo ég nefni dæmi, útgáfu sem er á vegum háskólans og þá útgáfu að einhverju leyti sem hefur verið á vegum Menningarsjóðs.
    Ég get verið sammála hæstv. menntmrh. um að það er dálítið sérkennilegt líka að setja hlutina þannig upp að ríkið sé sjálft að gefa út bækur. Satt að segja kann ég ekki almennilega að meta það fyrirkomulag. Þess vegna fannst mér það skrýtið t.d. þegar Alþingi ákvað að gefa út kristnisögu. Ég hélt að það væri búið að leggja það niður fyrir löngu annars staðar í heiminum að ríkið eða þingi eða hver það nú er sé að gefa út sögu. Það eru auðvitað aðrir aðilar, fræðimenn og rannsóknastofnanir, sem eiga að standa í slíkri útgáfu en Alþingi á ekki að vera að stjórna því hvernig bækur eru skrifaðar. Mér skilst að það sé ákveðin ritnefnd starfandi á vegum Alþingis í sambandi við þessa kristnisögu og allt gott um það, en ég held að Alþingi eigi ekki að vera að þessu vegna þess að það er ekki hlutverk Alþingis að standa í því að gefa út bækur. Sem betur fer. Mér líst ekki á það ef Alþingi ætlaði sér að standa í því að koma frá sér bókum í verulegum mæli eða öðrum menningarverkum, t.d. kvikmyndum um sögu Alþingis. Ég treysti ekki Alþingi til þess. Ég get þess vegna út af fyrir sig verið sammála því að það er óeðlilegt að ríkið standi í slíku.
    Hitt er aftur annað mál að það er stórkostleg þörf fyrir það að ríkið hjálpi til við útgáfu á menningarverkum af ýmsu tagi og það hefur ríkið gert. Ég gæti nefnt fjölmörg dæmi um það frá síðustu árum þar sem ríkið hefur lagt peninga í útgáfustarfsemi fyrir utan Menningarsjóð þó að um það mætti margt spyrja hvað verður um þá útgáfu sem þar var. Ég heyrði ekki að hæstv. ráðherra svaraði spurningunni varðandi almanak Þjóðvinafélagsins sem hv. 18. þm. Reykv. bar fram áðan en það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það.
    Hvaða bækur eru það sem Alþingi er að gefa út um þessar mundir eða hefur verið að gefa út síðustu tvö árin eða svo? Ég hripaði niður hjá mér á blað sex bækur og meiri háttar verk sem Alþingi eða ríkisstjórnin hafa með einhverjum hætti komið að. Það er í fyrsta lagi kristnitökusagan. Í öðru lagi iðnsaga Íslands, sem hefur verið í smíðum um alllangt skeið eða frá því að Sverrir Hermannsson var iðnrh. Hann flutti það verk síðan með sér yfir í menntmrn. og hefur það verið vistað þar síðan og komið hafa út fjölmargar bækur um iðnsögu Íslendinga á undanförnum árum og eru að flestu leyti hinar ágætustu bækur og hin gagnlegustu rit. Má kannski segja að iðnsaga Íslands sé þar með orðin sjálfstæð stofnun sem lýtur sínum lögmálum án þess að ríkið sé allt of mikið með puttana í því frá degi til dags hvað þar er gefið út þó ráðuneyti menntamála komi að þeirri útgáfu með óbeinum hætti, þ.e. að því er varðar samninga við þá aðila sem skrifa iðnsögu Íslands.
    Ég hefði talið að Menningarsjóður hefði átt að yfirtaka þetta verkefni, iðnsögu Íslands. Það hefði verið eðlilegt að Menningarsjóður hefði gert það og haft með það að gera.
    Í þriðja lagi nefni ég dönsku orðabókina, sem kom út ekki fyrir löngu. Menntmrn. styrkti þá útgáfu m.a. með, að mig minnir, því að verja til þessarar útgáfu tvennum launum framhaldsskólakennara í ein sex til átta ár eða frá því að Ragnhildur Helgadóttir gegndi starfi menntmrh. og þar til bara á síðasta ári líklega. ( Menntmrh.: Og er enn.) Og er enn.
    Í fjórða lagi nefni ég þýska orðabók, sem menn hafa verið með í undirbúningi og hefur verið kostað til framhaldsskólakennaralaunum af almennum launalið menntmrn. án þess að það hafi nokkurn tímann verið borið undir Alþingi sem sérstakt verkefni.
    Í fimmta lagi þá hygg ég að það sé verið að vinna að útgáfu á franskri orðabók líka á vegum menntmrn. með sams konar stuðningi, minnir mig reyndar, og við dönsku orðabókin, þ.e. að tvennum kennaralaunum framhaldsskólakennara hafi verið varið til þessa verkefnis frá árinu 1990, gæti ég trúað og ég geri ráð fyrir að það sé enn í gangi.
    Í sjötta lagi, eins og hæstv. menntmrh. minnti á áðan, var varið til þess úr ríkissjóði þó nokkrum upphæðum að kaupa 200 eintök af alfræðiorðabókinni samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar á árinu 1991.
    Hér nefni ég það sem ég man eftir í fljótu bragði sem sýnir að ríkið er að styðja útgáfu bóka hér og þar og allt gott um það að segja. Ég er hins vegar ekki viss um að það sé ákvörðun sem eigi að takast á hverjum tíma endilega á borði ráðherra hvaða bækur og útgáfur eru styrktar á vegum ráðuneytisins. Ég held að það væri miklu eðlilegra að sjálfstæð stofnun hefði með það að gera sem ráðherra gæti á hverjum tíma vísað til. Því þó að þeir menn sem sitja við borð menntmrh. á hverjum tíma slysist til að taka skynsamlegar ákvarðanir í þessum efnum þá er það í rauninni óeðlilegt að framkvæmdarvaldshafinn sé að gera upp á milli verkefna af þessu tagi. Það er alla vega mín skoðun.
    Síðan ætlaði ég að nefna í sjöunda lagi verkefni, sem var komið svo að segja hálfa leiðina inn í ríkiskerfið en var sett þaðan út aftur og er veruleg eftirsjá að. Það er bókaröðin Íslensk þjóðmenning, sem Hafsteinn í Hólaprenti setti af stað á sínum tíma, og eru afar merkar bækur um uppruna og sögu Íslands og íslenskrar menningar. Mig minnir að það séu komnar út einar þrjár eða fjórar bækur og gert hafði verið ráð fyrir því að þær yrðu samtals tíu. Það var búið að semja við fjölda höfunda um framhald bókanna. Það hafði verið gert ráð fyrir að útgáfan yrði sett að einhverju leyti inn í Þjóðminjasafnið og rekin í tengslum við útgáfustarfsemi þess. En ég hygg að þetta mál sé meira og minna afvelta eins og sakir standa. Ef það eru nýjar fréttir af því þá væri gott að heyra þær.

    En allt bendir þetta til þess, virðulegur forseti, að í þessu fámenna þjóðfélagi okkar sé markaðurinn svo lítill að hann ræður ekki við að standa undir stærri verkefnum af þessu tagi. Hann ræður ekki við það. Þess vegna verðum við, ef við ætlum að heita menningarþjóð, bókmenningarþjóð, að kosta þarna nokkru til úr sameiginlegum sjóðum og þess vegna á auðvitað að vera til öflugur menningarsjóður.
    Nú er það hins vegar spurning hvort það frv. sem hér liggur fyrir tekur á þessu máli eða ekki. Ég held í sjálfu sér að það megi halda því fram að frv. geri það ekki. Sérstaklega vegna þess að kostnaður við útgáfu bóka hefur aukist stórkostlega í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það er búið að taka um það ákvörðun að leggja virðisaukaskatt á bækur. Það er ekkert smávegis sem ákveðið hefur verið að leggja þar á bækur og íþyngja þannig útgáfustarfsemi. Virðisaukaskatturinn á bækur gefur mörg hundruð milljónir króna í ríkissjóð á ári. Auðvitað hljóta menn að beita sér fyrir því að virðisaukaskattur á bækur verði felldur niður. Það er reyndar alveg voðalegt til þess að vita að Íslendingar skuli leggja virðisaukaskatt á bækur einmitt sama árið og verið er að taka um það ákvörðun að Ísland verði aðili að Evrópsku efnahagssvæði þegar samkeppnin við erlenda bókaútgáfu mun fara vaxandi á komandi árum. Þeir sem kaupa bækur og fara í bókabúðir þekkja að verðlagningin á okkar bókum er þannig að það er vandséð að okkar bókaútgáfa geti verið samkeppnisfær við það sem gerist erlendis á þessum stóru milljóna, milljónatuga og ég tala nú ekki um milljónahundraða mörkuðum.
    Þess vegna held ég að í rauninni hefði verið skynsamlegast í þessu máli úr því að menn fóru á annað borð að breyta lögunum um Menningarsjóð að ákveða, ef menn ætla að taka þennan virðisaukaskatt af bókum, að verulegur hluti af virðisaukaskattinum fari í þennan menningarsjóð til bókaútgáfu. Þá hefði verið einhver mannsbragur á þessu frv. Ef menn hefðu verið með í 3. gr. ákvæði um það t.d. að eins og einn fjórði af virðisaukaskattinum sem kemur af bókum renni í þennan Menningarsjóð. Þá voru menn komnir með umtalsverðar fjárhæðir sem hefðu getað orðið til að styðja við bakið á okkar bókaútgáfu með myndarlegum og glæsilegum hætti, bæði að því er varðar bókaútgáfu hér og einnig að því er varðar kynningarstarf og þýðingar á íslenskum bókmenntaverkum á erlendum vettvangi.
    Í þessu sambandi og í sambandi við málið og aðdraganda þess vil ég aðeins áður en ég kem að frv. sjálfu, virðulegur forseti, einng ítreka það sem hér kom lauslega fram áðan. Í aðdraganda málsins kemur fram þessi ofboðslega ofstjórnartilhneiging hjá núv. ríkisstjórn. Það á að stjórna öllu alveg nákvæmlega ofan frá lið fyrir lið. Það kemur t.d. fram í frv. sem á að tala fyrir hér á eftir í sambandi við framhaldsskólana að það á að stjórna öllu ofan frá. Þetta er gömul aðferð hjá íhaldsflokkum og hægri flokkum víða. Þeir vilja stjórna öllu ofan frá á félagslega sviðinu, menningarsviðinu og menntasviðinu en að því er fjármagnið varðar á að vera frelsi. Það er svo skrýtið í raun og veru í þessari ríkisstjórn, sem nú situr hér í landinu, að við erum með Sjálfstfl. og líka Alþfl. í því að stjórna öllu ofan frá á félagssviðinu, heilbrigðissviðinu, menntasviðinu og menningarsviðinu. En þegar kemur að fjármagninu þá á allt að vera svo óskaplega frjálst, eins og Rósa í Sumarhúsum sagði. Fjármagnið á að vera svo frjálst. Og þegar talað er um vexti við hæstv. viðskrh. má aldrei anda á bankaráðin af því að þau ráða þessu öllu saman og markaðurinn á að ráða. Þar á að vera frelsi. Um þessi mál snúast allar hugmyndafræðilegar umræður á milli íhaldsmanna og sósíaldemókrata niðri í Evrópu þó kratarnir hér á Íslandi hafi ekki frétt af því frekar en öðru.
    Þetta frv. hér undirstrikar í raun og veru þessa sterku miðstjórnartilhneigingu af hálfu Sjálfstfl. Ég ætla að víkja að nokkrum efnisatriðum þess. Það er í fyrsta lagi 2. gr. frv. þar sem talað er um að í stjórn Menningarsjóðs eiga sæti þrír fulltrúar sem menntmrh. skipar til tveggja ára í senn og skipar hann einn þeirra formann stjórnar. Varamenn í stjórn skulu skipaðir með sama hætti og til jafnlangs tíma. Skipunartími stjórnunarmanna skal þó takmarkaður við embættistíma þess ráðherra sem skipaði þá sitji hann skemur en sem nemur reglulegum skipunartíma stjórnar. Ég tel út af fyrir sig eðlilegt að stjórnir í stofnunum af þessu tagi fylgi ráðherrum og starfstíma ráðherra. Auðvitað getur ráðherra framlengt þá stjórn sem hefur verið en ég tel almennt skynsamlegt að það sé losað um svona samninga þegar um er að ræða ráðherraskipti.
    Hitt get ég aftur á móti ekki fellt mig við að sú aðferð við skipan stjórnarinnar sem hér er lögð til sé viðhöfð þegar við skipan stjórnar af þessu tagi eru nokkrir möguleikar. Fyrsti möguleikinn er sá að menntmrh., eða ráðherra hver sem hann er, skipi alla stjórnina eigin hendi án allra viðmiðana. Það stendur ekkert hér um það hvaðan þessir menn eiga að vera komnir. Annar möguleikinn er sá að Alþingi kjósi stjórnina og það út af fyrir sig kemur til greina. Þriðji möguleikinn er sá, eins og þetta er t.d. í þýðingarsjóði og bókmenntakynningarsjóði og fleiri sjóðum, að einhverjir tilnefningaraðilar tilnefni menn í stjórnina en ráðherra síðan skipi. Ég tel t.d. varðandi þessa stjórn að það komi til greina alveg eins og að Alþingi kjósi hana að nokkrir aðilar tilnefni menn í stjórnina. Ég nefni í því sambandi Félag bókaútgefenda, Rithöfundasamband Íslands og Háskóla Íslands, svo ég nefni þrjú dæmi um aðila sem gætu hugsanlega tilnefnt menn í þá stjórn sem hér er verið að tala um yfir Menningarsjóð í staðinn fyrir að láta menntmrh. einan um að ganga frá þessu í einstökum atriðum. Hér stendur ekkert um það að þessir stjórnarmenn menntmrh. eigi að koma úr menningargeiranum eða bókaútgáfunni eða neitt þess háttar. Það er alveg hægt að draga þarna inn menn hvaðanæva að úr þjóðfélaginu. Ég held að það væri þó eðlilegra að það væri sett einhver takmörkun á þessu sviði en það er ekki gerð tillaga um það.
    Í öðru lagi varðandi þetta frv. vil ég gera sérstakar athugasemdir við 3. gr. vegna þess að mér finnst hún aumingjaleg. Það er búið að lækka mjög mikið framlög til menningarmála af núv. ríkisstjórn.

Sem hlutfall af ríkisútgjöldum hafa framlög til menningarmála ekki verið lægri um langt árabil. Það er vegna þess að það er búið að taka af menningunni mörg hundruð milljónir króna í gegnum virðisaukaskatt sem á að taka gildi á þessu ári. Þess vegna hefði ég talið að ef menn ætla að taka virðisaukaskatt á annað borð hefði átt að setja um það ákvæði að á meðan virðisaukaskattur er innheimtur á bókum verði hluta af honum, t.d. einum fjórða, skilað í Menningarsjóð. Það held ég að menn eigi að athuga mjög vandlega við meðferð þessa frv.
    Í greinargerð þessa frv. er vikið að efni sem mér hefur ekki verið alveg ljóst og væri fróðlegt að fá upplýst hér. Það er afskaplega ánægjulegt að menn skuli koma því inn í greinargerð sem maður hefur satt að segja verið að velta fyrir sér mjög lengi hvort væri til. Það er gefið í skyn að ákveðið fyrirbæri sé til sem maður hefur ekki séð og það er merkilegt. Þetta er dálítið eins og í þjóðsögunum. Það stendur um 2. gr. á bls. 3. ,,Þá er í þessari grein tryggt að stjórn Menningarsjóðs endurspegli á hverjum tíma þær áherslur sem í gildi eru í mennta- og menningarstefnu ríkisstjórnar.``
    Ég hefði viljað spyrja að því: Hvaða menningarstefnu hefur ríkisstjórnin núna? Við höfum séð virðisaukaskattinn á menninguna. Við höfum séð niðurskurðinn í skólunum. Við höfum ekki séð framkvæmdaáætlanir um fjármuni til rannsókna- og þróunarverkefna. Hvar er þessi menningarstefna?
    Það er alveg upplagt verkefni, virðulegur forseti, í tengslum við umræðu um þetta ágæta mál um Menningarsjóð að ræða ítarlega um menningarstefnu ríkisstjórnarinnar. Hver er hún? Hvernig birtist hún Alþingi? Hvernig birtist hún þjóðinni? Hvernig kemur hún fram t.d. gagnvart áhugaleikfélögum? Hvernig kemur hún t.d. fram gagnvart leikhópum, atvinnuleikhópum? Hvernig kemur hún fram gagnvart Kvikmyndasjóði, sem nú eru ætluð meiri verkefni en áður, m.a. að standa undir alls konar rekstrarútgjöldum af sínu takmarkaða fé? Hvernig kemur þessi menningarstefna fram? Ég held að það væri afar fróðlegt að fá um það upplýsingar í þessari umræðu um þetta frv. um Menningarsjóð.
    Ég tel með öðrum orðum, virðulegur forseti, að aðdragandi að frv. þessu sé gangrýni verður. Það hefði átt að flytja hér frv. um Menningarsjóð í upphafi málsins en ekki í lok þess. Í öðru lagi tel ég að frv. sé með þeim hætti að það þurfi verulegrar lagfæringar við og tel ekki ástæðu til að eyða frekari orðum að því þar sem ég á sæti í menntmn. og á kost á að fara yfir málið þar. En bæti því svo við að lokum að ég tel nauðsynlegt að til sé í landinu stofnun, sjóður eða annað sem geti með myndarlegum hætti styrkt útgáfustarfsemi sem þörf er á að styðja, eins og orðabækur, alfræðiorðabækur og slíka þætti og meiri háttar sagnfræðileg verk líka. Ég tel að að sé eðlileg hugsun í því að gera ráð fyrir að ríkið eða þessi sjóður eða stofnun styðji þessi verkefni vegna þess að ég hef mjög lengi haft illan bifur á því að ríkið sé að skrifa sögu og hvað þá heldur bókmenntir.