Menningarsjóður

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 17:42:40 (5829)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hv. menntmrh. fannst gæta geðvonsku í ræðu minni hér áðan. Ég vil upplýsa hann um að ég er að jafnaði nokkuð geðgóð. En því er ekki að leyna að ég er afar hneyksluð yfir því hvernig staðið hefur verið að málum varðandi Menningarsjóð og menntamálaráð eins og heyra mátti í minni fyrri ræðu hér.
    Ég ætla að reyna að svara ýmsu því sem hæstv. ráðherra beindi til mín og reyna að vera stuttorð því það líður á daginn.
    Í fyrsta lagi vil ég nefna að þegar við skoðum þetta mál í heild þá snýst það um býsna margt. Í fyrsta lagi snýst það um hvort löglega hafi verið staðið að málum. Eins og ég rakti hér þá taldi meiri hluti menntamálaráðs að formaður ráðsins hefði lagt fram tillögu sem ekki átti við lög að styðjast og sem gekk gegn gildandi lögum og því var lýst vantrausti á þáverandi formann. Ég hlýt að spyrja: Finnst hæstv. menntmrh. það eðlilegur gangur mála þegar lýst hefur verið yfir vantrausti á sitjandi formann að hann sé svo kosinn aftur? Formaður er sakaður um lögleysu og síðan er hann aftur kjörinn formaður. Mér finnst mjög hæpið að standa þannig að málum.
    Síðan er hefur stór spurning komið upp í þessu máli og valdið allmiklum bréfaskriftum, m.a. til Alþingis, en hún er: Hvert er hlutverk kjörinna fulltrúa? Fulltrúar, sem eru kjörnir á hinu háa Alþingi til að framfylgja lögum og standa frammi fyrir því sem þeir telja vera lögleysu, hvert eiga þeir að snúa sér? Hvert er hlutverk þeirra? Ég tel að fulltrúar Kvennalistans og Framsfl. og á tímabili Alþfl. hafi talið það skyldu sína að sjá til þess að lögum væri framfylgt svo sem þeim bar og þeir töldu að það væri verið að framkvæma hluti sem ekki var heimild fyrir.
    Í þessu máli vaknar einnig sú spurning hvert vald ráðherra er gagnvart stjórnum sem kjörnar eru af Alþingi. Ég nefndi það hér áðan að ég hef tekið eftir því að viðhorf hæstv. menntmrh. í þeim efnum er mjög á annan veg en það sem ég hef heyrt í máli t.d. viðskrh.
    Síðan er það atriði sem varðar túlkunina á heimildargreininni, þ.e. 6. gr. fjárlaga. Það er alveg augljóst að okkur greinir á um það og hæstv. ráðherra, og væntanlega hans lögfræðinga, greinir á við það sem fram hefur komið, m.a. í áliti Sigurðar Líndal. Þarna er greinilega um ágreining að ræða. Hæstv. menntmrh. kom inn á það á hverju væri eðlilegt að byrja. Ég er honum algerlega ósammála. Ég tel að það hefði verið eðlilegast og réttast að byrja á því að breyta lögunum og ganga síðan frá málum í stað þess að fara hina leiðina sem óhjákvæmilega þýðir það, eins og ég hef margsinnis nefnt hér í dag, að Alþingi stendur frammi fyrir gerðum hlut. Ég tel hina leiðina miklu eðlilegri. Ef það hefði verið gert þá hefði eflaust

verið spöruð hér mikil umræða og menn hefðu þá reynt að móta einhverjar hugmyndir varðandi framtíð bókaútgáfu og hlutverk ríkisins í þeim efnum.
    Hæstv. menntmrn. kom hér inn á mínar söguskýringar varðandi gang þessa máls. Ég kemst ekki hjá því að fara aðeins í gegnum hluta af því aftur til að skýra hvað ég á við. Ég hef undir höndum mikið af gögnum sem varða þetta mál enda tel ég þetta að mörgu leyti vera mjög alvarlegt mál þegar horft er á stjórnsýsluhliðina. Og ég vil endurtaka það sem ég sagði hér áðan að hinn 19. sept. var haldinn fundur í menntamálaráði. Samkvæmt fundargerð, sem reyndar var ekki samþykkt vegna þess að formaðurinn var ekki sáttur við það eftir á hvað þar hafði verið skrifað, var skráð, með leyfi forseta, liður tvö:
    ,,Bessí Jóhannsdóttir lagði fram skýrslu Ríkisendurskoðunar um Menningarsjóð ásamt ítarlegum tillögum sínum um endurskipulagingu sjóðsins á þremur blöðum. Tillögurnar varða markmið og verkefni sjóðsins og fjalla einkum um það hvernig stefna megi að arðbærri bókaútgáfu, ná lágmarkskostnaði í rekstri, efla markaðssetningu, bæta starfsmannahald og auka tekjur. Urðu töluverðar umræður um tillögurnar og gerður að þeim góður rómur. Var síðan einróma samþykkt að vinna eftir þeim. Formaður skýrði frá því að ljóst væri að margboðaðar tillögur mundu ekki koma frá Einari Sigurjónssyni.``
    Einari hafði verið falið að endurskoða starfsemi sjóðsins. Sama dag skrifar Bessí Jóhannsdóttir, þáv. formaður menntamálaráðs, bréf á eigin bréfsefni og í eigin nafni til menntmrh. Þetta var ódagsett bréf en í því segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Á grundvelli athugana minna og endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir árið 1987--1989, dags. í sept. 1991, sjá fylgiskjal, eru eftirfarandi hugmyndir settar fram:
    1. Lögum breytt og hlutverk skilgreint að nýju.`` --- Lögum breytt og hlutverk skilgreint að nýju.
    ,,Þetta er auðvelt að rökstyðja með tilliti til breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu. Aðrar stofnanir hafa tekið við hlutverkum sem skilgreind eru í lögum nr. 50/1957, 7. gr. Vegur hér þyngst að losna við bókaútgáfuna í núverandi mynd``, segir formaðurinn.
    Þetta er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi en þannig að hún vilji láta breyta lögunum og skilgreina hlutverk menntamálaráðs upp á nýtt í ljósi þess að búið var að flytja ýmis verkefni frá því og losna við bókaútgáfuna í núverandi mynd. Þennan sama dag hafði hún lagt fram tillögur í mörgum liðum um endurskipulagningu bókaútgáfunnar, fyrst og fremst, þar sem m.a. eru sett upp markmið svo sem að stefna að arðbærri bókaútgáfu, gefa út auðseljanlegar bækur --- þ.e. bækur sem hafa nógu stóran markhóp til að geta staðið undir sér --- ná lágmarkskostnaði, efla markaðssetningu, bæta starfsmannahald, auka tekjur o.s.frv. o.s.frv.
    Af þessu er ekki hægt að ráða að formaður ráðsins hafi haft þær hugmyndir þegar hún skrifar þetta bréf og þegar fundur menntamálaráðs stóð yfir 19. sept. að leggja Bókaútgáfu Menningarsjóðs niður. Hins vegar virðist menntmrn. hafa skilið þetta eitthvað öðruvísi eða þeir ætla sér eitthvað annað því í bréfi menntmrn. frá 2. okt. 1991 segir, og þar kemur þessi margumtalaði misskilningur:
    ,,Menntmrn. hefur móttekið bréf yðar dagsett 19. september sl. þar sem gerð er grein fyrir samþykkt menntamálaráðs er varðar starfsemi ráðsins.`` --- Hér verð ég að stöðva því það kemur alls ekki fram í bréfinu að um neinar samþykktir sé að ræða af hálfu ráðsins. Þetta er bréf formannsins þar sem hún er að segja ,,á grundvelli athugana minna`` --- þetta eru hennar eigin tillögur. Það skiptir kannski ekki máli hvers vegna menntmrn. leit þannig á en síðar segir í bréfinu: ,,Ráðuneytið fellst á tillögur ráðsins um að lögum verði breytt og að hlutverk þess verði skilgreint að nýju. Jafnhliða því sem útgáfustarfsemi, a.m.k. í núverandi mynd, verði lögð niður.`` --- Hér er það ráðuneytið sem kveður upp úr að útgáfustarfsemi, a.m.k. í núverandi mynd, verði lögð niður. --- ,,Ráðuneytið hyggst skipa sérstakan starfshóp til að vinna að framgangi þessa máls og fer þess á leit við menntamálaráð að það tilnefni tvo fulltrúa í starfshópinn.`` --- Segir í bréfi menntmrn.
    Þannig að hér er það greinilega ráðuneytið sem kveður upp úr.
    Síðan fór þessi hópur af stað og hann skilaði niðurstöðu á hálfu blaði og þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Hópurinn hefur hist tvisvar og sameinast um eftirfarandi:
    Ljóst er að ekki er pólitískur stuðningur við þá hugmynd að blása lífi í starfsemi Menningarsjóðs með endurfjármögnun, sbr. lið 2 í þeim tillögum sem lagðar voru fram á fundi menntamálaráðs 19. sept. 1991.
    Menntmrh. leggur áherslu á að farin verði sú leið menntmrh.`` --- ég vek athygli á því --- ,,sem kemur fram í lið 1 í sömu tillögugerð sem miðar að því að lögum um Menningarsjóð verði breytt og bókaútgáfan lögð niður. Hópurinn hefur starfað samkvæmt þeirri ákvörðun og ályktaði að úr því sem komið er væri réttast að leggja starfsemi Menningarsjóðs niður og fella lögin úr gildi.
    Í framhaldi af ofangreindu var sett fram tímasett verkþáttagreining sem kynnt var á fundi með framkvæmdastjóra Menningarsjóðs og hefur framkvæmdum verið hagað í samræmi við þá tímaáætlun.``
    Sem sagt, það er byrjað að framkvæma áður en búið er svo mikið sem leggja þetta fyrir í ráðinu.
    Hér er verið að vísa í tillögur sem eru eingöngu tillögur formannsins og voru ekki samþykktar á þessum fundi, hvað sem síðar gerðist.
    Aðeins varðandi 6. gr., þ.e. heimildargreinina, 6.13 þar sem segir ,,að semja um ráðstöfun eigna

og skulda Menningarsjóðs`` og ráðherra túlkar sem eindreginn vilja Alþingis til þess að leggja bókaútgáfuna niður.
    Í skýringum með þessari grein segir varðandi Menningarsjóð í fjárlögum fyrir árið 1992 á bls. 301, með leyfi forseta:
    ,,Áætlaðar markaðar tekjur eru um 11,5 millj. kr. en þrátt fyrir ákvæði laga verða skil tekna til sjóðsins aðeins 6 millj. kr. Menntmrn. hefur í hyggju að endurskoða lög um sjóðinn og endurmeta starfsemi hans þar sem yrði m.a. stefnt að því að leggja útgáfufyrirtækið niður á árinu 1992.`` Þetta er sem sagt stefna menntmrn., að leggja útgáfufyrirtækið niður á árinu 1992.
    Við getum lengi deilt um það hvernig ber að skilja þessa setningu ,,að semja um ráðstöfun eigna og skulda Menningarsjóðs``. Ég hefði ekki skilið þetta þannig að um það væri að ræða að leggja niður bókaútgáfuna. Við hverja átti að semja? Átti að semja við skuldunauta? Átti að semja við ríkið? Við hverja átti að semja?
    Það er alveg ljóst hvað úr þessu varð og að okkur greinir á um túlkanir á því sem gerðist. Ég tel að Alþingi hafi með þessu, þ.e. meiri hlutinn, lýst yfir ákveðnum vilja til þess að endurskoða þetta fyrirtæki, þessa starfsemi, en að það feli í sér að leggja bókaútgáfuna alfarið niður er ég ekki tilbúin til að samþykkja enda hefði auðvitað þurft að fara fram umræða um það mál.
    Hæstv. menntmrh. beindi þeirri spurningu til mín hvort það væri mín skoðun að tveir fulltrúar í menntamálaráði ættu að hunsa vilja Alþingis. Að sjálfsögðu er það ekki mín skoðun. Meiri hlutinn á að sjálfsögðu að ráða för. En spurningin var, hvenær var hvaða meiri hluti og vilji hvaða meiri hluta var virtur? Ég varð ekki vör við það að vilji hins nýja meiri hluta sem myndaðist eftir að lýst var yfir vantrausti á Bessí Jóhannsdóttur væri virtur. Það var hins vegar gerð tilraun til þess að sundra honum þegar í stað.
    En hitt er svo annað mál, hvert er hlutverk kjörinna fulltrúa? Hvert er hlutverk þess fólks sem er kjörið af Alþingi til þess að framfylgja lögum? Ber þeim fulltrúum ekki að koma í veg fyrir lögleysu? Ég tel að þeir tveir fulltrúar sem eftir stóðu, eftir að Ragnheiði Davíðsdóttur hafði verið kippt út úr ráðinu gegn hennar vilja að sjálfsögðu, hafi verið að reyna að koma í veg fyrir lögleysu. En að sjálfsögðu stóð það aldrei til, það get ég fullyrt, það stóð aldrei til að draga það eitthvað óeðlilega á langinn að kalla saman fundi í menntamálaráði. Helga Kress var erlendis og það var boðaður fundur af þremur fulltrúum menntamálaráðs meðan hún var erlendis, hún vissi ekki einu sinni af þeim fundi og ég dreg það stórlega í efa að þar hafi verið löglega staðið að málum. Það er einmitt sú stóra spurning sem við stöndum frammi fyrir og mér finnst að okkur beri skylda til að kanna í menntmn. hvort þarna hafi verið löglega staðið að málum. Ef það reynist niðurstaðan þá sætti ég mig auðvitað við það en ég leyfi mér að hafa efasemdir meðan annað er ekki komið í ljós. Mér fannst ég greina ótta í rödd menntmrh. við að við færum að fara of djúpt í þessi mál, en mér finnst fyllilega vera ástæða til þess og ekki síst í ljósi þess að við munum væntanlega halda áfram að kjósa okkar fulltrúa í hinar ýmsu stjórnir og mér finnst í rauninni erfitt að standa að því að biðja konur á vegum Kvennalistans að taka að sér slík stjórnunarstörf ef þær mega eiga von á bolabrögðum af þessu tagi.
    Ég varpaði fram tveimur spurningum í fyrri ræðu minni varðandi hugmyndir um háskólaforlag og eins varðandi menningarstefnu ríkisstjórnarinnar og hvort ekki væri ástæða til þess að setjast niður við mótun slíkrar menningarstefnu. Ég spurði: Hver er menningarstefna ríkisstjórnarinnar? Mér sýnist hún heldur vera af niðurrifstaginu ef eitthvað er en ég vil gjarnan fá að heyra álit menntmrh. á því hvort ekki sé fyllilega þörf á forlagi vegna þess að ríkið kemur að ýmsum menningarstofnunum, m.a. háskólanum og skólabókaútgáfu, og að efla slíkt forlag vegna þess að þarna er oft um útgáfur að ræða eins og námsbækur sem ekki eru endilega spennandi fyrir aðrar bókaútgáfur á frjálsum markaði. Þetta eru oft bækur sem ganga á milli nemenda og vilja fara illa og er stundum ekki eins vandað til þeirrar útgáfu og annarra. Eins er með ritgerðir sem verið er að fjölrita eða gefa út með tiltölulega ódýrri tölvutækni en eru rit sem þarf að koma á framfæri. Mér finnst háskólinn, eftir því sem ég þekki til, að miklu leyti svífa í lausu lofti hvað þetta varðar og við séum einfaldlega að dreifa kröftunum um of. En þar fyrir þá vil ég nefna það að ég óska auðvitað íslenskri bókaútgáfu alls hins besta og vona að hún lifi af þá hrikalegu árás sem ríkisstjórnin, þar með talinn menntmrh., hefur gert á hana með nýrri skattheimtu.