Útvarpslög

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 18:02:36 (5830)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á útvarpslögum nr. 68/1985. Frv. þetta er samið af nefnd sem ég skipaði hinn 29. apríl 1992 til þess að endurskoða útvarpslög og er um fyrsta áfanga í nefndarstarfinu að ræða. Mun nefndin halda áfram störfum við endurskoðun annarra atriða í gildandi útvarpslöggjöf í samræmi við erindisbréf nefndarinnar. Í endurskoðunarnefnd útvarpslaga sitja Tómas Ingi Olrich alþingismaður, formaður, Baldvin Jónsson útvarpsstjóri, Guðni Guðmundsson rektor, Hjálmar Jónsson prófastur, Jóhann Óli Guðmundsson framkvæmdastjóri, Karl Steinar Guðnason alþingismaður og Sólveig Pétursdóttir alþingismaður.
    Í frv. þessu er einkum fjallað um þær skuldbindingar sem fylgja aðild Íslands að hinu sameiginlega Evrópska efnahagssvæði. En með vísan til 36. gr. EES-samningsins, sbr. viðauka X, fellst Ísland á að taka inn í sína löggjöf tilskipun ráðsins frá 3. okt. 1989 um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum um sjónvarpsrekstur. Auk skuldbindinga samkvæmt þessari tilskipun eru í frv. þessu settar reglur um endurvarp erlendra sjónvarpsstöðva hér á landi.
    Meginmarkmið fyrrgreindrar tilskipunar Evrópubandalagsins eru að afnema höft á dreifingu sjónvarpssendinga innan Evrópu.
    Í tilskipuninni er í fyrsta lagi fjallað um leiðir til að greiða fyrir og afnema höft á dreifingu sjónvarpssendinga innan Evrópu.
    Í öðru lagi eru settar lágmarksreglur á tilteknum sviðum til þess að tryggja samræmingu á reglum sem gilda um sjónvarpsrekstur og til að tryggja frelsi til sjónvarpssendinga.
    Í þriðja lagi er fjallað um leiðir til þess að örva framleiðslu á evrópsku efni, einkum hjá sjálfstæðum kvikmyndaframleiðendum og auka hlut evrópsks dagskrárefnis í sjónvarpi.
    Meginefni frv. þess sem hér er lagt fram er þetta:
    Í fyrsta lagi eru ýmis hugtök sem fjallað er um í útvarpslögum skilgreind á skýrari hátt en nú er.
    Í öðru lagi er gerð breyting á reglum um skyldu til að þýða erlent dagskrárefni í sjónvarpi og heimild til þess að endurvarpa dagskrám erlendra sjónvarpsstöðva hér á landi.
    Í þriðja lagi er gerð breyting á tilhögun auglýsinga.
    Í fjórða lagi er breyting á ákvæðum um kostun.
    Í fimmta lagi er breyting á reglum um andsvarsrétt einstaklinga.
    Verður nú vikið að einstökum ákvæðum frv.
    Til glöggvunar er lagt til í 1. gr. frv. að skilgreind séu helstu hugtök útvarpslöggjafarinnar. Styðjast skilgreiningar frv. við ákvæði tilskipunarinnar.
    Skilgreining á útvarpi er breytt frá ákvæði 1. gr. núgildandi laga. Hugtakið tekur enn sem fyrr bæði til hljóðvarps og sjónvarps og er átt við hvers konar útsendingu dagskrárefnis innan íslenskrar lögsögu sem ætluð er almenningi til beinnar móttöku og dreift er með rafsegulöldum, hvort heldur í tali, tónum eða myndum, um þráð eða þráðlaust. Gildir einu hvort útsendingar eru læstar eða ekki.
    Er með þessari breyttu skilgreiningu lögð áhersla á þann ásetning að útvarpssendingar séu ætlaðar almenningi en ekki eins og nú er að miða við það hvort almenningur hafi raunverulega tök á að hagnýta sér útvarpssendingar og er hér vísað til þess að í stað orðalagsins ,,handa almenningi`` komi orðalagið ,,ætlað almenningi``. Getur þetta m.a. haft þýðingu ef til þess kemur að íslenskar sjónvarpsstöðvar sendi dagskrárefni sitt um gervitungl til dreifingar hérlendis eða hér á landi sé upptenging í gervitungl án þess að móttaka þess efnis sé möguleg hér á landi. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til er ljóst að slíkar sendingar falla undir íslenska lögsögu og þeim aðilum sem stunda slíka starfsemi er gert skylt að hlíta íslenskum útvarpslögum.
    Orðalagi núgildandi 2. mgr. 1. gr. er einnig breytt til glöggvunar þannig að ljóst sé að ef útsending nær einungis til þröngs hóps og takmarkast við byggingar eða húsakynni á samfelldri lóð, þá falli slíkar útsendingar ekki undir ákvæði laganna. Núgildandi ákvæði 2. mgr. 1. gr. og 3. tölul. 5. gr. útvarpslaga stangast á að hluta til. Með breytingu á þessari málsgrein og breytingu á 5. gr. laganna er þetta misræmi lagfært. Þessi breyting er fyrst og fremst gerð af lagatæknilegum ástæðum og ekki með vísan til tilskipunar Evrópubandalagsins.
    Við skilgreiningu á auglýsingu, dulinni auglýsingu og kostun er stuðst við skilgreiningar tilskipunarinnar.
    Í 2. gr. frv. er kveðið á um það að útvarpsréttarnefnd fjalli auk annarra leyfisveitinga um veitingu leyfis til starfrækslu útvarps, svokallaðra endurvarpsstöðva, þar sem einvörðungu fer fram viðstöðulaust, óstytt og óbreytt endurvarp á heildardagskrám útvarpsstöðva en ekki skipulagning og mótun eigin dagskrárefnis leyfishafa.
    Ákvæði af þessu tagi um starfsemi endurvarpsstöðva er nýmæli í löggjöf hér á landi. En með þessu

ákvæði, auk þeirrar breytingar á 1. tölul. 3. gr. sem hér er gerð tillaga um, er leitast við að samræma þá aðstöðu til útvarps, sem hefur verið að mótast hér á landi á undanförnum árum, við þau ákvæði tilskipunar Evrópubandalagsins um að tryggja frelsi til viðtöku á sjónvarpssendingum frá öðrum ríkjum markaðssvæðisins og jafnframt að setja ekki hömlur á endurútsendingar þeirra innan lögsögunnar. Er hér miðað við að gangast undir þessar skuldbindingar án þess að raska óhóflega þeirri aðstöðu sem er á innlendum útvarpsmarkaði.
    Það að útvarpsréttarnefnd veitir rekstrarleyfi til slíkra endurvarpsstöðva byggist á þeirri niðurstöðu endurskoðunarnefndarinnar að það sé skynsamlegt að sami aðili, útvarpsréttarnefnd, fari með veitingu allra leyfa til útvarpsstarfsemi og hafi yfirsýn yfir útvarpsrekstrarmál hér á landi. Er til þess ætlast að umsóknir um veitingu leyfis til endurvarps fái sömu meðferð hjá útvarpsréttarnefnd og aðrar umsóknir þannig að þær verði sendar til Pósts og síma til umsagnar áður en frá leyfisveitingu er gengið.
    Í 3. gr. frv. er gerð tillaga að breytingu á 1. tölul. 3. gr. núgildandi útvarpslaga í þeim tilgangi að bregðast við afleiðingum tilskipunar Evrópubandalagsins og ná fram tilteknum menningarlegum markmiðum. Felld er niður takmörkun á því hvaða senditíðni Póst- og símamálastofnun sé heimilt að úthluta leyfishöfum. Tilgangur þessarar breytingar er að veita stofnuninni meira frjálsræði en nú er í þessum efnum og gera henni þannig kleift að nýta sem mest tíðnisviðið. Þær takmarkanir sem nú gilda samkvæmt útvarpslögum eru strangari en alþjóðasamþykktir miða við og hafa ákvæði útvarpslaga þannig t.d. girt fyrir að unnt sé að úthluta tíðni á stuttbylgjusviði. Það felst í þessu ákvæði frv. að sú senditíðni sem nú hefur verið nýtt til sjónvarps á metra- og desímetrasviðinu sé takmörkuð að gæðum og því sé rétt að þessi tíðnisvið verði eingöngu nýtt til útsendinga á dagskrár stöðva sem fengið hafa leyfi til útvarps hér á landi, en hér er átt við dagskrá útvarpsstöðva sem skipulögð er og mótuð af leyfishöfum sem fengið hafa leyfi til útvarps. Með þessu móti skapast leyfishöfum til útvarps innan íslenskrar lögsögu ákveðinn forgangur að tíðnisviðinu, en nefndin telur það réttmætt til þess að ná menningarlegum markmiðum.
    Jafnframt er lagt til að allt endurvarp, bæði innlendra og erlendra sjónvarpsstöðva, fari fram um þráð eða þráðlaust á örbylgjusviði. Með hliðsjón af því að örbylgjusviðið er ætlað fjarskiptum en ekki útvarpi samkvæmt alþjóðasamskiptum er lagt til að leyfi samgrn. eða Pósts og síma sé áskilið ef ætlunin er að nota örbylgjusviðið til útvarpsdreifingar.
    Í 4. gr. er fjallað um tvo þýðingarmikla þætti tilskipunar Evrópubandalagsins sem eiga efnislega samstöðu með ákvæði 3. tölul. 3. gr. núgildandi laga, það er ákvæði um menningarlegar skyldur útvarpsstöðva og rétt til andsvars. Þar sem um yfirgripsmikið efni er að ræða er hér lagt til að efni núgildandi tölul. 3. gr. verði skipt upp í tvo töluliði sem verði tölul. 3.a og 3.b.
    Í tölul. 3.a er kveðið á um menningarlegar skyldur útvarpsstöðva og er lögð ríkari áhersla á að útvarpsstöðvar sem leyfi fá til útvarps hér á landi efli íslenska menningu og útvarpi að meginstefnu til á íslensku eða með íslenskri þýðingu. Jafnframt er lögð áhersla á að innlendar útvarpsstöðvar sinni innlendri dagskrárgerð og dagskrá þeirra endurspegli evrópskan menningararf. Í reglugerðum útvarps samkvæmt tímabundnum leyfum er nú sú skylda lögð á sjónvarpsstöðvar að allt erlent efni sé að meginstefnu til þýtt yfir á íslensku. Þýðingarskyldu þessa er ekki að finna í útvarpslögunum sjálfum og er hér lagt til að ákvæði 6. gr. fyrrgreindrar reglugerðar um útvarp samkvæmt tímabundnum leyfum verði lögfest.
    Þýðingarskyldan nær einvörðungu til dagskrár innlendra sjónvarpsstöðva, þar með talið Ríkisútvarpsins, og er þessi tillaga gerð með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. tilskipunar Evrópubandalagsins þar sem heimilað er að setja strangari reglur varðandi sjónvarpsdagskrár þeirra útvarpsstöðva sem aðildarríkin hafa lögsögu yfir telji þau það nauðsynlegt vegna tungumálastefnu sinnar. Þetta ákvæði heimilar ekki að áskilja þýðingarskyldu á dreifingu erlendra sjónvarpssendinga frá aðildarríkjum EES í endurvarpi, sbr. 2. tölul. 2. gr. tilskipunarinnar, sbr. og 56. gr. Rómarsáttmálans. Þýðingarskyldan nær því ekki til viðstöðulauss, óstytts og óbreytts endurvarps á dagskrá erlendra sjónvarpsstöðva sem dreift er þráðlaust um örbylgju eða um þráð, en með þeirri tillögu sem hér hefur verið gerð grein fyrir, er lagagrundvöllur þýðingarskyldunnar gerður traustari.
    Í tölul. 3.b er fjallað um andsvarsrétt þeirra sem telja á sig hallað af útvarpsstöð. Grein um þetta efni er í núgildandi útvarpslögum, en með þeim breytingum sem hér er lagt til að gerðar verði, er réttur þessi gerður skýrari í samræmi við ákvæði 23. gr. tilskipunarinnar.
    5. gr. frv. vísar til 4. gr. gildandi útvarpslaga en lagt er til að fellt verði niður ákvæði um að gjaldskrár fyrir auglýsingar skuli háðar samþykki útvarpsréttarnefndar. Þessi tillaga byggist ekki á tilskipun Evrópubandalagsins en reynsla undanfarinna ára sýnir að ákvæði af þessu tagi er ekki raunhæft. Jafnframt er hér lagt til að settar verði nákvæmari reglur um efni og tilhögun auglýsinga og byggist þessi tillaga frv. á ákvæðum tilskipunarinnar. Hvað auglýsingar varðar er efni núgildandi lagaákvæða gert gleggra varðandi þá skyldu að auglýsingar séu afmarkaðar frá öðru dagskrárefni og sett er fortakslaust bann við duldum auglýsingum, enda verður að gera þá fortakslausu kröfu til útvarpsstöðva að dagskrárgerð sé hagað þannig að neytendum sé ljóst hvenær um auglýsingar sé að ræða og hvenær ekki.
    Í frv. eru sett skilyrði fyrir því hvenær heimilt sé að rjúfa dagskrárliði með auglýsingum. Auglýsingar eru að meginstefnu til einungis heimilaðar í auglýsingatímum á milli dagskrárliða, en þó er heimilt í vissum tilvikum að rjúfa dagskrárlið með auglýsingum.
    Útvarpsréttarnefnd hefur litið svo á að núverandi útvarpslög girði ekki fyrir að auglýsingum sé skotið inn í dagskrárliði, en ef það sé gert skuli haga þeim þannig að ekki leiði til afbökunar á dagskrárefni, sbr. ákvæði 3. gr. reglugerðar um auglýsingar í útvarpi. Líta má svo á að tillaga sú sem felst í 3. mgr. 5. gr. frv. feli í sér skýrari reglur en gilt hafa um innskot auglýsinga í dagskrárefni og er t.d. lagt til að innskot auglýsinga í útsendingu frétta, fréttatengds efnis, guðsþjónustu eða barnaefnis verði bannað.
    Í 5. mgr. 5. gr. eru sett takmörk á hlutfall auglýsingatíma af heildarútsendingartíma. Fortakslaust bann samkvæmt 6. og 7. mgr. þessarar greinar um bann við duldum auglýsingum og auglýsingum neðan marka meðvitaðrar skynjunar er nýmæli í íslenskri útvarpslöggjöf og eru þessi ákvæði í samræmi við ákvæði tilskipunar Evrópubandalagsins.
    Í 6. gr. frv. er lagt til að sett verði skýrari skilyrði um kostun í útvarpi og tilhögun hennar, en samkvæmt núgildandi útvarpslögum er heimilt að utanaðkomandi aðilar kosti gerð einstakra dagskrárliða, sbr. ákvæði 7. tölul. 1. mgr. 3. gr. gildandi útvarpslaga og 13. gr. reglugerðar um útvarp samkvæmt tímabundnum leyfum. Þetta ákvæði frv. er í samræmi við ákvæði 17. gr. tilskipunarinnar. Í niðurlagi 1. mgr. 6. gr. þessa frv. er lagt til að heimilað verði að setja sérstakar reglur um kostun dagskrárliða sem líknar- og góðgerðarfélög standi að. Félög af þessu tagi hafa í ríkari mæli sótt til ljósvakafjölmiðla um liðsstyrk til fjáröflunar og því óhjákvæmilegt að efnistök við dagskrárgerðina beri þess merki. Lagt er til að sett verði ákvæði um að kostun megi ekki hafa áhrif á sjálfstæði sjónvarpsstöðva þannig t.d. að efnistök beri merki áhrifa frá kostunaraðila. Samkvæmt þessum reglum er óheimilt að kosta fréttir eða fréttatengt efni.
    Með þeirri breytingu sem lagt er til að gerð verði með 7. gr. frv. á 2. mgr. 1. gr. núgildandi útvarpslaga, sbr. 2. mgr. 1. gr. frv. þessa, sem og þeirri rýmkun sem gerð er á heimild til viðstöðulauss endurvarps á óbreyttri og óstyttri heildardagskrá erlendra sjónvarpsstöðva með breytingum á gildissviði þýðingarskyldunnar er það mat endurskoðunarnefndarinnar að ákvæði 3. tölul. 5. gr. núgildandi útvarpslaga sé óþarft. Breytingin á 2. tölul. 5. gr. er gerð í samræmi við 3. mgr. 4. gr. frv. þessa sem verði 3. mgr. tölul. 3.a.
    8. gr. frv. er efnislega samhljóða ákvæðum 6. gr. núgildandi útvarpslaga, en með þeirri breytingu sem hér er gerð tillaga um er leitast við að greina betur á milli mismunandi sendinga um gervihnött. Um er að ræða þrenns konar tilfelli:
    1. Útvarpssendingar um gervitungl sem gagngert eru ætlaðar almenningi til einkanotkunar.
    2. Flutning um gervitungl á útvarpsefni milli útvarpsstöðva og ekki eru ætlaðar almenningi fyrr en eftir vinnslu í viðkomandi útvarpsstöð.
    3. Endurvarp í kapalkerfum eða í loftinu á fullunnum dagskrársendingum útvarpsstöðva um gervitungl.
    Með ákvæði 9. gr. frv. er tekið sérstaklega fram að ákvæði útvarpslaga um kostun eigi einnig við um starfsemi Ríkisútvarpsins og er miðað við það að slíkt sé ákveðið með reglugerð. Vísast í þessu sambandi til athugasemda við 5. gr. frv. Með 10. gr. frv. er tekinn af vafi um að þýðingarskyldan á jafnt við um Ríkisútvarpið og stofnanir þess eins og aðrar sjónvarpsstöðvar í landinu.
    Hæstv. forseti. Ég hef nú gert í stuttu máli grein fyrir efni frv. til laga um breytingu á útvarpslögum og þeim meginforsendum sem að baki þessu frv. liggja. Ég árétta að hér er einungis um fyrsta áfanga í endurskoðun útvarpslaganna að ræða, áfanga sem tekur nánast einvörðungu mið af tilskipun Evrópubandalagsins um sjónvarpsrekstur. Endurskoðun útvarpslaganna er orðin fyrir löngu tímabær, enda er gert ráð fyrir því í bráðabirgðaákvæði útvarpslaganna að þau skuli endurskoðuð innan þriggja ára frá gildistöku þeirra. Sá tími er löngu liðinn og enda þótt reynsla okkar af útvarpslögunum hafi í meginatriðum reynst góð er það vafalaust að taka þarf meginefni þeirra til endurskoðunar. Þó að þá endurskoðun sem þetta frv. felur í sér hafi borið að með öðrum hætti en menn hugðu við setningu útvarpslaganna er það mat mitt að efni frv. feli í sér skýrari reglur um einstaka þætti útvarpslöggjafarinnar án þess að kalla á of mikla röskun á fjölmiðlaumhverfi okkar. Þetta segi ég þrátt fyrir að þetta frv. gerir ráð fyrir rýmkun á endurvarpi erlendra stöðva hér á landi, enda er nú þegar umtalsverður fjöldi fólks sem á beinan og greiðan aðgang að erlendu sjónvarpsefni sem dreift er um gervihnetti. Þýðingarskyldan, svo víðtæk sem hún hefur verið, var vafalaust góð og gild á sínum tíma, en nú hefur tækninni fleygt svo fram að nær ógerningur er af tæknilegum ástæðum að girða fyrir með þessum hætti að einstaklingar geti náð erlendum sjónvarpsdagskrám sem dreift er um gervihnetti.
    Ég leyfi mér, hæstv. forseti, að leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn. að lokinni þessari umræðu.