Þvottahús Ríkisspítalanna

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 19:34:45 (5837)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er verið að leggja fram frv. til laga um stofnun hlutafélags um Þvottahús Ríkisspítala svo sem boðað hafði verið við fjárlagagerðina. Ég get tekið undir margt af því sem fyrri ræðumaður sagði um þá áætlun að spara stórkostlega í rekstri ríkisins með því að stofna hlutafélag um þvottahúsið. Ég get ekki séð að það muni leiða til neins sérstaks sparnaðar. Vel má vera að það takist að selja eitthvað af þessum hlutabréfum þegar þau yrðu orðin að veruleika, en þá má líka búast við að þeir aðilar, sem keyptu bréfin, væru að gera það til þess að geta rekið þvottahúsið og hagnast á því. Það hlýtur þá að leiða til þess að þjónustan yrði seld eitthvað dýrar en gerist í dag.
    Í 2. gr. er rætt um tilgang félagsins og að samþykktum félagsins megi breyta á hluthafafundi samkvæmt almennum reglum. Síðan segir í 3. gr. að heilbr.- og trmrh. fari með eignarhlut Ríkisspítala í félaginu, þ.e. á fyrstu hluthafafundum félagsins sem hljóta að verða því ekki er nú strax búið að selja félagið, þá verða haldnir hluthafafundir. Hæstv. heilbr.- og trmrh. er þá sá sem á að sitja þann hluthafafund fyrir hönd ríkisins og getur á þeim fundi breytt samþykktum félagsins. Ef þessar tvær greinar, 2. gr. og 3. gr., verða samþykktar óbreyttar þá hlýtur honum að vera heimilt að sitja þar og breyta samþykktum þar sem hann er eini aðilinn sem situr á hluthafafundinum.
    Einnig er nokkuð athyglisvert að í umsögn fjmrn. er ekki nefnt að það verði neinn sparnaður fyrir ríkissjóð. Það er svolítið undarlegt að ef þetta á að vera til sparnaðar skuli það ekki vera nefnt í umsögn fjmrn. Hins vegar er sagt að kostnaður ríkissjóðs verði einhver vegna framkvæmdar frv. og hann sé fólginn í breytingum á reikningshaldi o.s.frv. sem þurfi til þess að breyta þessu í þetta horf. Kostnaður muni verða á bilinu 0,5--1 millj. kr. og þætti mér ekki ótrúlegt að hann yrði meiri. Þar að auki vill fjmrn. fá eitthvað í sinn hlut og vill ekki undanþiggja þetta væntanlega félag stimpilgjöldum. Þeir ætla sér að ná inn stimpilgjöldum af hugsanlegri sölu hlutabréfa og einnig gera þeir ráð fyrir því að kostnaður verði einhver við þessa breytingu. Það er það eina sem fjmrn. lætur frá sér heyra um þetta.
    Í athugasemdum við 4. gr. segir að 55 manns vinni í þvottahúsinu í október 1992. Þar af er 41 einstaklingur í verkakvennafélaginu Sókn. Það er dálítið undarlegt að í 4. gr. skuli kveðið á um það að fastráðnir starfsmenn Þvottahúss Ríkisspítalanna skuli hafa rétt til að starfa hjá hinu nýja hlutafélagi. Náttúrlega væri mjög gott ef þessir starfsmenn gætu reiknað með því að þeir hefðu áfram og ótímabundið vinnu hjá hinu nýja fyrirtæki ef af verður, en mér finnst skjóta skökku við að á sama tíma og verið er að einkavæða fyrirtæki þá skuli ekki líka verið sett þau skilyrði að það geti ekki sjálft skipulagt rekstur sinn heldur verði samkvæmt ákvæðum í 4. gr. að ráða allt það fólk sem þar starfar núna. Ég held líka að óöryggi þessa fólks verði talsvert því það getur ekki reiknað með því að ákvæði 4. gr. standi. Það hlýtur að kalla á það að þetta fólk geti alveg eins reiknað með því að það hafi ekki þessa vinnu til frambúðar og bætist þá í hóp hinna atvinnulausu.
    Fjmrn. vekur athygli á þeim ákvæðum frv. að binda nafn félagsins við opinbera stofnun um ókomna tíð og að þvottahúsið skuli annast þvotta fyrir Ríkisspítalana. Margar mótsagnir eru í frv. Þarna á að einkavæða til að hæstv. ríkisstjórn sé trú stefnu sinni, en á sama tíma skal fyrirtækið kenna sig við opinbera stofnun. Það fyrirtæki, sem hér á að koma á fót, skal heita Þvottahús Ríkisspítalanna.
    Ég ætla ekki að hafa mjög langt mál um þetta frv., virðulegi forseti. Ég geri ráð fyrir að það þurfi allmikla umræðu og umfjöllun í heilbr.- og trn., en ég vil endurtaka að ekkert bendir til þess að þetta verði ódýrari kostur fyrir ríkið. Það hlýtur að skapa því fólki sem þar vinnur mjög mikið óöryggi því að það getur tæpast treyst því að nýir eigendur muni sætta sig við tilskipun í starfsmannahaldi.
    Þetta er dæmigert um átrúnað á frjálsa samkeppni sem ríkisstjórnin predikar. Það er verið að einkavæða, en jafnframt að skylda hugsanlega eigendur til þess að kenna sig við opinberan rekstur eða opinber fyrirtæki og skylda það til að sjá um þvott á öllu líni fyrir Ríkisspítalana. Mér finnst þetta frv. vera með þeim eindæmum að ég get varla ímyndað mér að það geti farið í gegnum Alþingi. Ég verð að lýsa því yfir að lokum.
    Virðulegi forseti. Ég held að ég taki þetta ekkert frekar fyrir, en ég sé ekki fram á það að þetta frv. sé Ríkisspítölunum til hagsbóta, spari neitt fyrir ríkið eða sé því starfsfólki til hagsbóta sem þarna vinnur.