Þvottahús Ríkisspítalanna

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 19:43:08 (5838)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það er nokkuð sérkennilegt hvernig fundahöldum er hagað hér. Talað er í málum fram í matartímann og ég hafði nú frétt af því að það stæði til að ljúka þessu um áttaleytið en ég verð að segja það að hér hafa verið löng og ströng fundahöld í dag. Fjöldamörg stjfrv. eða stjórnartillögur af ýmsu tagi hafa verið afgreidd í dag, rædd ítarlega. Það er eins og það liggi líf við, það er eins og það eigi að fara að ljúka þinginu alveg næstu daga, helst fyrir páska. Ég veit vel að ríkisstjórnin hefur fullan hug á því að klára þetta þing sem fyrst og leiðist röfl í stjórnarandstöðunni. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig þinghaldinu er háttað hér í seinni tíð og mætti setja á smáræður um það ef þörf krefur því að ég sé ekki

að það sé samkomulag um nokkurn hlut. Það er bara tilkynnt að það eigi að halda fundi og menn fá dagskrá, 10--20 mál og vita ekkert hvað kemur fyrir af þessu.
    Það frv., sem er á dagskrá, hefði líka þurft sérstaka umræðu vegna þess að þetta er mjög mikið mál sem hér er á dagskrá, frv. um Þvottahús Ríkisspítalanna. Það snertir náttúrlega margt. Það snertir heilbrigðismál, það snertir ríkisfjármál. Þetta einkavæðingarkast sem gengur núna yfir þjóðfélagið snertir að sumu leyti kjarnann í stjórnarstefnunni. Það á að markaðsvæða allt, það er alveg sama hvað það er og mönnum dettur í hug að selja Þvottahús Ríkisspítalanna og halda að það sé lausn á einhverjum vanda. Ég held reyndar að málið liggi ekki alveg þannig að því er varðar hæstv. heilbrrh. Ég held að málið sé þannig að hann hafi lofað að skera svo mikið niður að hann hafi ekki getað staðið við það og að lokum í kastþröng í ríkisstjórninni samþykkt að selja eins og eitt þvottahús upp í það sem á vantaði hjá honum og nota tekjurnar af því sem sértekjur Ríkisspítalanna. Ég held að þetta hafi verið svona einfalt. En þetta er náttúrlega ekki mjög góð latína að færa, eins og hv. þm. Guðmundur Bjarnason benti á, færa tekjurnar af Þvottahúsi Ríkisspítalanna, sem er ekki búið að selja, sem sértekjur Ríkisspítalanna sem eru þegar orðnir öfugir um 10 millj. kr. það sem af er þessu ári af því að það er ekki búið að selja Þvottahús Ríkisspítalanna.
    Samkvæmt yfirliti sem liggur fyrir um fyrstu tvo rekstrarmánuði Ríkisspítalanna er það þannig að sértekjur vantar upp á 10 millj. af því að ekki er búið að selja þvottahúsið og á meðan eru auðvitað Ríkisspítalarnir reknir með halla. Á meðan eru menn jafnvel að borga vexti. Á þessum tveimur mánuðum er t.d. búið að borga vexti upp á nokkrar millj. kr. hjá Ríkisspítölunum. Auðvitað er farið mjög illa með Ríkisspítalana, ekki síst vegna þess að þar var staðið sæmilega vel að hlutunum á sl. ári.
    Þannig var á Ríkisspítölunum árið 1992 að þeir skiluðu afgangi. Þegar upp er staðið, eru það kringum 100 millj. kr. sem Ríkisspítalarnir skila í afgang og þar er um að ræða raunverulegan sparnað upp á 300--400 millj. kr. frá því sem var. Því má segja að nær allur sparnaður spítalakerfisins í Reykjavík sé hjá Ríkisspítölunum. Ég hef reyndar ekki heyrt að stjórnvöld hafi talið ástæðu til þess að geta þess sérstaklega í lofræðum sínum um heilbrigðiskerfið að Ríkisspítalarnir hafi staðið sig rekstrarlega vel á síðasta ári sem hefði þó verið full ástæða til.
    En Ríkisspítalarnir geta ekki farið út í það eins og Borgarspítalinn að veita starfsfólki sínu verðlaun upp á nokkra tugi þúsunda kr. á mann, þeir hafa ekki fengið leyfi til þess. Staðan er því sú að í staðinn fyrir að verðlauna Ríkisspítalana og starfslið þeirra þá standa Ríkisspítalarnir núna frammi fyrir því að þeir verða að selja þvottahúsið. Annars verði þeir 60 millj. kr. undir þegar árinu öllu er lokið. Þetta er náttúrlega óeðlilegt og ég vil taka undir áskoranir hv. 1. þm. Norðurl. e. í þessum efnum og heita á hæstv. fjmrh. að endurskoða greiðsluáætlun fjmrn. til Ríkisspítalanna þannig að það verði þá a.m.k. ekki farið að gera ráð fyrir þessum peningum fyrr en þeir eru komnir. Það er auðvitað fyrst og fremst ósanngjarnt að setja hlutina svona upp gagnvart Ríkisspítölunum eins og þarna er gert.
    Auðvitað kann vel að vera að það sé vit í því að bjóða eitthvað út og einkavæða eitthvað af þessum rekstri. Það má alveg skoða það. Eitt af því sem Ríkisspítalarnir hafa gert á þessu ári er að efna til útboða á margvíslegum rekstrarvörum á síðasta ári eins og matvörum. Þar fengust inn ótrúleg tilboð miðað við það sem gert hafði verið ráð fyrir í áætlun. Nú er ég ekki að segja að það standist mjög lengi, vegna þess að mín trú er nú sú að þessi tilboð hafi mörg verið býsna óraunsæ og beri fyrst og fremst vitni um örvæntingarfulla samkeppni sem er í gangi í matvöruverslun í Reykjavík og þéttbýlissvæðinu um þessar mundir. En það er alveg ljóst að mjög myndarlegur sparnaður hefur náðst að frumkvæði tæknideildar Ríkisspítalanna þar sem starfsmenn eiga miklar þakkir skildar af hálfu ríkisvaldsins fyrir gríðarlegan árangur á þessu sviði án þess að það hafi bitnað á þjónustunni. En að mínu mati hafa ýmsir aðrir þættir sparnaðar hafi bitnað á þjónustunni eins og það að loka Fæðingarheimilinu í Reykjavík.
    Reyndar er býsna athyglisvert í þessu sambandi, virðulegi forseti, að þetta frv. er lagt fram fjótlega eftir að þingið kemur saman og reiknað er með því í fjárlagafrv. Núna er verið að skoða málið á vegum einhvers hagræðingarfyrirtækis eða ráðgjafarfyrirtækis og mér skilst að það sé á vegum þessarar einkavæðingarnefndar, en það er eitthvert skrímsli sem á heima uppi í forsrn. Einkavæðingarnefnd er undir forustu manns sem heitir því athyglisverða nafni Hreinn Loftsson. Þar situr nefnd sem hugsar sér að einkavæða helst alla skapaða hluti milli himins og jarðar og hún er núna að láta gera úttekt á því hvernig á að standa að því að einkavæða Þvottahús Ríkisspítalanna. Hefði nú verið skynsamlegra að byrja á því fyrst áður en frv. var lagt fram. En það er auðvitað eins og annað. Það er ,,borgarstjórastællinn`` á þessum frv. sem við ræðum hér í dag, bæði í heilbrigðismálum og menntamálum. Það er byrjað á því að leggja niður Menningarsjóð og menntamálaráð. Svo er flutt frv. Það er byrjað á því að leggja á skólagjöld í Tækniskólanum. Svo er flutt frv. Og það er byrjað á því að ákveða að selja og leggja niður Þvottahús Ríkisspítalanna. Svo er flutt frv. Þetta eru auðvitað óeðlileg vinnubrögð sem sýna mikið virðingarleysi við þessa stofnun.
    Auðvitað getur það komið til greina, eins og ég sagði, ef menn eru sannfærðir um að það skili t.d. betri heilbrigðisþjónustu eða ódýrari og jafngóðri að einkavæða eitthvað eða bjóða eitthvað út. En það er ekki því að heilsa í sambandi við Þvottahús Ríkisspítalanna. Hv. 1. þm. Norðurl. e., Guðmundur Bjarnason, flutti mjög skýr rök fyrir því að það er nokkurn veginn gefið að þvotturinn og línið verður dýrara fyrir Ríkisspítalana ef þessi leið verður farin og má færa fyrir því margvísleg rök en ég ætla ekki að endurtaka neitt af því sem hann sagði í þeim efnum hér áðan. Auðvitað geta menn svo verið þeirrar skoðunar að þeir ætli sér að láta slag standa og keyra málið í gegnum þingið hvað sem tautar og raular og mér heyrist að það sé viðhorf hæstv. ráðherra eða hæstv. ríkisstjórnar. Ég var hálft í hvoru farinn að gera mér vonir um að menn væru hættir við þetta frv. Það var búið að liggja svo lengi hérna dautt án þess að talað væri fyrir því að ég var farinn að gera mér vonir um að menn væru hættir við þetta frv. En það er ekki. Það er komið með þetta á síðkvöldi til þess að tala fyrir því í þessari virðulegu stofnun.
    Þá kemur að frv. sjálfu og það er satt að segja alveg dæmalaus smíð. Ég held að það verði að flokka þetta frv. undir afrek eða a.m.k. brautryðjendastarf í frumvarpsgerð. Má þar margt til taka. Hér fyrr í dag ræddum við um auglýsingar sem væru hugsanlega neðan marka mannlegrar meðvitundar, ( Heilbrrh.: Skynjunar.) nei, meðvitundar og væri rétt að banna þau þess vegna. Mér sýnist að þetta mál sé handan við öll mörk mannlegrar skynjunar, meðvitundar og vitundar því að það er svoleiðis fullkomlega ga-ga, með leyfi forseta, ef ég má nota það orð.
    Í 1. gr. frv. segir að það eigi að stofna hlutafélag og það eigi að heita Þvottahús Ríkisspítalanna hf. Þegar einkaaðilarnir eru búnir að kaupa þetta hús á það samt að heita Þvottahús Ríkisspítalanna. Ég er ansi hræddur um að það verði erfitt að fá menn til að kaupa húsið þó það væri ekki nema vegna þess, en líka af öðrum ástæðum sem ég mun hér rekja, þó að þetta gæti af öðrum ástæðum orðið allgott fyrirtæki.
    Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir því að setja lög um starfsemi þessa í smáatriðum. Þar segir að þetta félag eigi að reka þvottahús sem skiptist a.m.k., kemur fram, a.m.k. vel að merkja, virðulegi forseti, í þvottadeild og saumastofu. Það á að vera þarna bæði þvottadeild og saumastofa. Flestir hefðu talið að það væri nóg að eitt væri þvottadeild og annað væri saumastofa. Nei, það er sko ekki nóg heldur er þetta barnað með því í 2. gr. að segja: Hvað á þvottadeildin að gera? Það er alveg stafað ofan í þingheim nákvæmlega í textanum því þar segir: ,,Þvottadeildin skal sjá um þvott á öllu líni fyrir Ríkisspítala og aðra þá aðila sem um slíka þjónustu semja við félagið.`` Þvottadeild á að sjá um þvott. Mér finnst þetta skarplega skrifað. Það verð ég að segja, virðulegi forseti. En ekki nóg með það, heldur á saumadeildin líka að hafa alveg tiltekin lögbundin verkefni. Ég held að saumastofu hafi aldrei verið sýnd önnur eins virðing í samanlagðri sögu Alþingis, en við vorum að minnast þess í gær að það eru 150 ár liðin frá því að Kristján konungur VIII. tilkynnti okkur það að við mættum stofna hérna þing. En nú á 150 ára afmæli Alþingis, tilkynningarinnar, er brotið í blað. Það er flutt stjfrv. um það hver eigi að vera verkefni saumastofu. Og hvað ætli saumastofan eigi að gera? Hvað á saumastofan að gera? Hún á að sauma. Það er tilfellið. Hún á að sauma. Hún á að sjá um viðgerðir líka, ekki bara nýsköpun og sauma flíkur. Hún á að sjá um viðgerðir líka. Og það er ekki nóg með að það sé kveðið á um að saumastofan eigi að sauma og sjá um viðgerðir. Hún á að sjá um merkingar líka á tauinu.
    Það mætti auðvitað hugsa sér, virðulegi forseti, að þessi ríkisstjórn beitti sér fyrir því að það yrðu sett svona lög yfirleitt um landsmenn alla. Að þeir eigi að reka þvottadeild og saumastofu og heimilin í landinu eigi að skiptast í þvottadeild og saumastofu og tiltaka síðan hvað þau eiga að gera. Þessi lagasmíð er satt að segja með ólíkindum og mikil nákvæmni að ekki sé fastar að orði kveðið og verður sérkennilegt að reka þetta hlutafélag þegar þar að kemur, sérstaklega fyrir þá sem koma aðvífandi að þessu.
    Nú getur auðvitað hugsast að hæstv. heilbrrh. hafi flutt þetta frv. og 2. gr. þess aðallega til að vera fyndinn en ekki af neinni annarri ástæðu. Þá er það fyrirgefanlegt ef hann hugsar 2. gr. bara sem brandara sem verði svo hent í nefndinni. Þá er það allt í lagi. Þá finnst mér að hann ætti að gera meira af slíku. En þó er vandi að halda áfram á þessari braut vegna þess að þetta er svo fyndið að það er mjög erfitt að bæta þar miklu við. Þetta er svo gríðarlega snjallt að þvottadeildin eigi að sjá um þvotta og saumastofan um sauma. Alls ekki öfugt. Það kemur ekki til greina að þvottadeildin saumi og saumastofan þvoi. Nei, nei, það má ekki. Þá færi allt í steik og vitleysu í Þvottahúsi Ríkisspítalanna hf.
    Síðan segir hér í 3. gr.: ,,Heilbr.- og trmrh. fer með eignarhlut Ríkisspítala í félaginu.`` Það er mjög óvenjulegt. Yfirleitt er það fjmrh. sem fer með slíkan hlut ríkisins. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvernig hann hugsar sér að koma því fyrir og hvaða rök eru fyrir því.
    Þá kem ég að 4. gr. sem er gamalkunn hér. Það er búið að flytja svona frv. um að selja eða einkavæða svona fyrirtæki aftur og aftur af núv. ríkisstjórn. Það strönduðu fjögur eða fimm svona frv. í fyrra. Það var Sementsverksmiðjan, það voru Síldarverksmiðjur ríkisins, það var Staðlaráð Íslands og fleiri frv. Nú er hér flutt frv. með nákvæmlega sama texta og þessi frv. strönduðu á í fyrra. Þau strönduðu vegna þess að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja sömdu um það við ríkisstjórnina að réttarstöðu opinberra starfsmanna yrði ekki breytt á samningstímanum þannig að þessi mál voru í raun og veru öll stoppuð.
    Þá man ég eftir því að ég lagði það til úr þessum ræðustól að hæstv. fjmrh. færi í viðræður við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja um það hvernig á að einkavæða fyrirtæki vegna þess að auðvitað þarf að vera til leið til að einkavæða fyrirtæki. Það er engin spurning um það. En í staðinn er það mál látið dankast og ekkert í því gert og flutt hér frv. eftir frv. með nákvæmlega sama ákvæði sem stenst ekki. Það er ekki bara ég sem segi það. Þar eru ekki ómerkari aðilar á bak við en t.d. Hæstiréttur. Hæstiréttur hefur fellt dóma um að það sem segir í 2. línu þessarar greinar, ,,sambærileg staða hjá félaginu``, sé ekki til. Það sé ekki hægt að bjóða sambærilega stöðu. Í greininni segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Fastráðnir starfsmenn Þvottahúss Ríkisspítalanna skulu hafa rétt til að starfa hjá hinu nýja hlutafélagi og skal þeim boðin sambærileg staða hjá félaginu og þeir gegndu áður. Ákvæði 14. gr. laga nr.

38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, á því ekki við um þá starfsmenn.``
    Hvað er sambærileg staða? Það er staða sem er að öllu leyti eins. Hver er munurinn á stöðu opinberra starfsmanna annars vegar og þeirra sem eru á einkamarkaði hins vegar? Hann felst í tvennu. Í fyrsta lagi því að opinberir starfsmenn hafa lífeyrisréttindi sem eru verðtryggð með tilteknum hætti hjá ríkinu og það er ljóst að einkaaðilar geta ekki boðið upp á slíkt. Ef þeir reyndu það væri það svo dýrt að enginn slíkur aðili mundi við slíkar aðstæður kaupa hlut í þessu fyrirtæki á móti ríkinu. Það er algerlega óhugsandi.
    Í öðru lagi felst sérstaða opinberra starfsmanna í því að þeir hafa ákvæði um biðlaun í sínum samningum og samkvæmt hæstaréttardómi, sem kveðinn hefur verið upp, þá er það einnig svo að það er ekki um það að ræða að einkaaðilar geti boðið sambærileg kjör að því leytinu til. Um þetta eru til ekki bara einn dómur í Hæstarétti heldur fleiri.
    Í fyrravetur fengum við í viðtöl í iðnn. fulltrúa frá fjölmörgum lögfræðingum og öðrum aðilum og ræddum við lögfræðinga fjmrn. um málið. Þeirra niðurstaða varð sú að þetta stæðist ekki. Fjmrn. reyndi auðvitað að verja þetta en niðurstaða hinna lögfræðinganna var sú að þetta stæðist ekki fyrst og fremst eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Af því að þeir starfsmenn sem hér er um að ræða eiga þennan lífeyrisrétt. Þeir hafa greitt inn á hann með launum sínum og það er ekki hægt að svipta þá þessum rétti. Það jafngildir broti á eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar.
    Þess vegna gengur þetta ekki. Þess vegna er óþarfi og í raun og veru vitleysa að vera að flytja þetta frv. vegna þess að þetta ákvæði stenst ekki. Það getur vel verið að hæstv. ráðherra ætli að vitna í einhver lög sem hafa verið sett hér fyrr, t.d. lög um Jarðboranir ríkisins og ríkisprentsmiðjuna Gutenberg en það gengur ekki upp. Það dugir ekki í þessu sambandi vegna þess að þar var ekki um hliðstæða starfsmenn að ræða. Að því er varðar ákvæðið um sambærilega stöðu þá liggur fyrir mjög ítarlegur og vandaður hæstaréttardómur þar sem var felldur úrskurður um að ritara hjá tiltekinni opinberri stofnun var boðin staða ritara hjá annarri opinberri stofnun en það var samt ekki talið sambærilegt af því að stöðurnar voru ekki að fullu eins, hvað þá heldur ef það á að fara að flytja þessa starfsmenn eins og kvikfé, selja þá á fæti yfir til einkaaðila án þess að þeir fái neina rönd við reist.
    Með öðrum orðum er frv. lagafúsk. Frá sjónarmiði Ríkisspítalanna þýðir þetta að þvottur verður dýrari en hann er núna. Það verður dýrara fyrir ríkið og óheppilegra bæði frá fjárhagslegu sjónarmiði og heilbrigðislegu sjónarmiði. Þess vegna er auðvitað langsamlega skynsamlegast að gleyma þessu frv. og láta það sofna svefninum langa í heilbr.- og trn. þannig að í rauninni standi bara eitt eftir þegar upp er staðið: Að hér hafi verið flutt frv. með 2. gr. sem var brandari sem menn skemmtu sér við einu sinni í matartímanum, hinn 9. mars 1993. Að öðru leyti fari þetta á ruslahauga sögunnar með öðru drasli sem þar er.