Þvottahús Ríkisspítalanna

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 20:02:39 (5839)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í 4. gr. umrædds frv. segir orðrétt:
    ,,Fastráðnir starfsmenn Þvottahúss Ríkisspítalanna skulu hafa rétt til að starfa hjá hinu nýja hlutafélagi og skal þeim boðin sambærileg staða hjá félaginu og þeir gegndu áður.``
    Þann 23. maí árið 1989 voru samþykkt hér á Alþingi lög um stofnun hlutafélags um ríkisprentsmiðjuna Gutenberg. Í 3. gr. þeirra laga segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Fastráðnir starfsmenn ríkisprentsmiðjunnar Gutenberg skulu hafa rétt til að starfa hjá hinu nýja hlutafélagi og skal þeim boðin sambærileg staða hjá félaginu og þeir gegndu áður.``
    Þetta ákvæði var samþykkt með atkvæði hv. þm. Svavars Gestssonar.
    Í 3. gr. frv. til laga um stofnun hlutafélags um Þvottahús Ríkisspítalanna segir svo orðrétt, með leyfi forseta: ,,Heilbr.- og trmrh. fer með eignarhlut Ríkisspítala í félaginu.``
    Í 5. gr. laga um stofnun hlutafélags um Ríkisprentsmiðjuna Gutenberg nr. 45 23. maí 1989, segir svo orðrétt, með leyfi forseta: ,,Iðnrh. fer með eignarhluta ríkisins í félaginu.`` Þetta lagaákvæði var samþykkt með atkvæði hv. þm. Svavars Gestssonar.
    Það er háttur hv. þm. að gleyma sínum fyrri verkum. Mörg þeirra ásamt þeirri stefnu sem hann tilheyrði hafa þegar lent á ruslahaugi sögunnar.