Þvottahús Ríkisspítalanna

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 21:01:53 (5847)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvaðan hæstv. heilbrrh. telur sig hafa umboð fyrir svona afdráttarlausri túlkun á þessu máli. Það var ekki í sjálfu sér endilega það sem var í huga efh.- og viðskn. þegar þessi ákvæði voru útfærð í samkeppnislögunum heldur hitt að tryggja það að að svo miklu leyti sem verksvið og viðskipti fyrirtækja sköruðust og um væri að ræða starfsemi sem væri í skjóli af eða tengslum við stóran opinberan aðila eða stóran aðila sem nyti einhvers konar einkaleyfisbindingar á sinni starfsemi, þá yrði ósköp einfaldlega tryggt með tilteknum reglum að ekki væri um samkeppnisbjagandi aðstæður að ræða.
    Það er alveg rétt hjá hæstv. heilbrrh. að þetta gæti vel hafa kostað ákveðnar breytingar á tengslum þvottahússins við afganginn af Ríkisspítölunum og e.t.v. kröfur um að þau samskipti yrðu höfð með öðrum hætti. A.m.k. að um algerlega fjármálalegan aðskilnað væri að ræða og það væri tryggt að ekki væru færðar á milli tekjur til að hafa samkeppnistruflandi áhrif. En að þetta þýddi fortakslaust að slíkum aðilum yrði algerlega meinað að taka að sér verkefni stendur hvergi í þeim ákvæðum laganna. Ég a.m.k. treysti mér ekki til fyrr en á það hefur þá reynt og samkeppnisráð hefur mótað sér reglur um það, reglugerð hefur verið sett o.s.frv., að fullyrða fyrir fram að slík yrði afleiðingin.
    Að öðru leyti vil ég segja, hæstv. forseti, að hæstv. ráðherra tók hér út af fyrir sig undir það og ég vil þakka honum fyrir það að margt þyrfti að skoðast í þessu frv. og að heilbr.- og trn. ætti að gera það og taka sér til þess tíma. Ég fagna þeim ummælum og vona að það muni leiða menn að viturlegri niðurstöðu í þessu máli.