Þvottahús Ríkisspítalanna

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 21:10:08 (5850)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er álitamál og umhugsunarmál hvort það teljist ekki vera innherjaviðskipti af því tagi sem ætti að greiða virðisaukaskatt af þeim viðskiptum sem eiga sér stað milli sjúkrahúsa sem við Þvottahúss Ríkisspítala skipta. Mér er nær að halda að það gæti að því dregið að fjmrn. teldi eðlilegt að þau viðskipti væru innherjaviðskipti sem bæri að greiða virðisaukaskatt af.
    Hvað varðar hugsanlega endurskoðun á greiðsluáætlun Ríkisspítala þá vil ég sjá hver verður niðurstaða heilbr.- og trn. um það mál sem hér um ræðir áður en ég tjái mig um það.
    Hvort eðlilegt sé að Ríkisspítalar eigi hlutafé í þvottahúsi þá finnst mér vera talsverður munur á því hvort opinber stofnun stofnar fyrirtæki til nývinnslu með starfsmönnum sínum eða hvort um er að ræða að breyta deild í opinberum rekstri sem hefur verið hluti af rekstri opinberrar stofnunar eins og Ríkisspítala í hlutafélag og að hin opinbera stofnun eigi til að byrja með a.m.k. meiri hluta eða allt það hlutafé sem í félaginu er. Það er hin eðlilega leið sem valin hefur verið þegar opinberum stofnunum hefur verið breytt í hlutafélög. Þær eiga í byrjun allt hlutaféð en síðan er það selt, stundum að hluta og stundum allt. Aðrar leiðir eru nú vart til til að breyta opinberum rekstri í hlutafélagarekstur en að gera ráð fyrir því að í upphafi sé það hin opinbera stofnun sem eigi allt hlutaféð en síðan kynni það að vera selt að hluta eða öllu leyti.