Dýravernd

125. fundur
Miðvikudaginn 10. mars 1993, kl. 14:38:51 (5858)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um dýravernd. Frv. þetta var lagt fram á síðasta löggjafarþingi en varð þá ekki útrætt. Það er nú endurflutt með nokkrum breytingum sem fæstar eru þó efnislegar en ég geri nánari grein fyrir hér á eftir.
    Aðdragandi þessa máls er orðinn alllangur. Það var í febrúar 1974 eða fyrir 19 árum að menntmrh. fól þáv. dýraverndarnefnd að endurskoða lög um dýravernd frá 1957, með síðari breytingum. Sex og hálfu ári síðar skiluðu meiri hluti og minni hluti nefndarinnar hvor sínu frv. ásamt greinargerðum. Hvorugt þessara frv. var hins vegar lagt fram á Alþingi. Í mars 1983 fól menntmrh. þá nýskipaðri dýraverndarnefnd að fara yfir tvö fyrrgreind frv. og semja nýtt. Sú nefnd skilaði frv. til ráðherra þremur árum síðar í maí 1986. Menntmrn. sendi það frv. til umsagnar til ýmissa aðila og var því breytt nokkuð með tilliti til umsagnanna. Þetta frv. dýraverndarnefndanna var aldrei lagt fram hér á hinu háa Alþingi. En eftir að málefni er varða dýravernd voru lögð til umhvrn. fékk ráðuneytið þetta frv. til meðferðar. Þáv. umhvrh. fól þá dýraverndarnefnd að endurskoða frv., m.a. vegna þess að það þótti of viðamikið og ítarlegt að mati ráðuneytisins og mörg ákvæði í því þóttu raunar fremur eiga heima í reglugerð en lagatexta. Dýraverndarnefndin skilaði styttri útgáfu af frv. til ráðherra í janúar 1991. Í ráðuneytinu voru gerðar nokkrar breytingar á því áður en það var lagt fram á Alþingi til kynningar skömmu fyrir þinglok á 113. löggjafarþingi. Það var svo í ágúst árið 1991 að sá sem þetta mælir skipaði nefnd sem fékk það verkefni að fjalla um þessa síðustu útgáfu frv. og endurskoða lögin um dýravernd. Í nefndina voru skipuð þau Árni M.

Mathiesen alþingismaður, Margrét Haraldsdóttir menntaskólakennari, Páll Hersteinsson veiðistjóri, Sigurður Richter dýrafræðingur og Jón Gunnar Ottósson, skrifstofustjóri í umhvrn., sem var formaður nefndarinnar. Starfsmaður nefndarinnar var Þórir Ibsen í umhvrn.
    Nefndin skilaði fullbúnu frv. 27. nóv. 1991 sem lagt var fram á síðasta þingi en varð ekki útrætt. Það frv. tók í aðalatriðum mið af tillögum dýraverndarnefndar frá 6. jan. 1991, greinargerð sem fylgdi frv., sem skilað var til menntmrh. í maí 1986, svo og athugasemdum einstakra aðila sem fengið höfðu málið til meðferðar á undanförnum árum.
    Frv., eins og það nú liggur fyrir hér á hinu háa Alþingi, er að mestu óbreytt en í ljósi þeirra athugasemda sem fram komu þótti ástæða til að gera nokkrar lagfæringar og þær eru helstar sem nú skal greina:
    Í 5. gr. er gerð sú breyting að í stað síðasta orðs greinarinnar sem var orðið daglega kemur reglulega en daglega eða oftar ef nauðsyn krefur að mati forðagæslumanns, ráðunautar eða dýralæknis.
    Hér er sem sagt sú breyting gerð að ekki er lengur krafist daglegs eftirlits með búfé nema nauðsyn beri til.
    Þá er sú breyting gerð að síðari mgr. 6. gr. fellur alveg brott en í stað hennar er kveðið á um að það skuli fara að reglum settum samkvæmt lögum um búfjárhald, nr. 46/1991, þegar búfé á í hlut.
    Í 7. gr. hefur orðinu ,,deyfilyf`` verið bætt í 2. málslið vegna þess að ekki þótti nægilegt að tilgreina hormóna og hliðstæð efni þegar kveðið er á um efni sem bannað er að nota til að hafa áhrif á afkastagetu dýra í keppni.
    Í 8. gr. er fellt út almenna ákvæðið um að mörkun dýra skuli gera á þeim sem yngstum en í stað þess er kveðið á um að eyrnamarka skuli dýr sem yngst.
    Breyting þessi er gerð vegna þess að nú eru notaðar ýmsar aðferðir við mörkun stálpaðra dýra sem ekki valda sársauka.
    Þá er síðari liður málsgreinarinnar felldur brott en í hans stað er kveðið á um að óheimilt sé að eyrnamarka fullorðin dýr án deyfingar.
    Frá fyrra frv. er einnig sú breyting gerð að við 11. gr. bætist, og vil ég þá vitna til hér, með leyfi forseta, ,,og lögum um varnir gegn smitandi búfjársjúkdómum``. Kemur þessi viðbót í beinu framhaldi af síðasta orði greinarinnar.
    Í fyrra frv. var í 17. gr. lagt bann við tilraunum með dýr en umhvrh. var þó heimilt að veita undanþágu frá því ákvæði. Í ljósi þeirra athugasemda sem fram komu þótti rétt að breyta þessu þannig að sérstök tilraunadýranefnd geti veitt leyfi til slíkra tilrauna. Hér var bæði tekið tillit til þess að efnislega voru ákvæði greinarinnar ekki í samræmi við núverandi stöðu og framkvæmd mála, sem reynst hefur nokkuð vel, né heldur í fullu samræmi við alþjóðlegan samning sem Ísland er aðili að. Auk þeirra breytinga frá fyrra frv., sem ég hef hér nú gert grein fyrir, eru örfáar orðalagsbreytingar sem ekki hafa neitt með merkingu eða efni að gera sem ekki er ástæða til að rekja hér.
    Þessu frv. er ætlað að koma í stað gildandi laga um dýravernd, nr. 21/1957. Helstu breytingarnar sem gerðar eru varða stjórn og skipulag þessara mála og eftirlit með framkvæmd laganna. Lagt er til að í stað þeirrar dýraverndarnefndar sem starfar samkvæmt gildandi lögum komi dýraverndarráð sem taki til landsins alls. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að settar verði á stofn dýraverndarnefndir í héruðum landsins til að auka og tryggja eftirlit með framkvæmd laganna. Jafnframt er opinberum aðilum fengið aukið vald til að grípa til aðgerða vegna illrar meðferðar á dýrum.
    Auk þessara helstu breytinga eru ýmis ákvæði gildandi laga umorðuð og bætt til að gera þau markvissari. Einnig eru mörg ný ákvæði í frv. sem ekki eru í gildandi lögum. Í 1. gr. er gildissvið skilgreint og er það nýmæli. Samkvæmt greininni er lagt til að lög um dýravernd taki til allra hryggdýra. Eðlilegt þykir að leggja sérstaka áherslu á þau dýr sem eru í vörslu manna eða umsjá, einfaldlega vegna þess hversu erfitt er að láta sum ákvæði frv. ná til villtra hryggdýra eins og t.d. fugla og fiska. Nokkur ágreiningur hefur verið um þetta atriði og hafa ýmsir talsmenn dýraverndar viljað ganga enn lengra og láta lög um dýravernd ná til allra dýra. Að mati meiri hlutans í þeirri nefnd sem gekk frá frv. er slíkt hins vegar ekki framkvæmanlegt. Í athugasemd með greininni er áhersla lögð á að þrátt fyrri þessa takmörkun á gildissviðinu beri öllum augljóslega að fara vel með öll dýr.
    3. gr. frv., sem er sambærileg við 2. gr. gildandi laga, er hins vegar nokkuð ítarlegir en nú er. Áhersla er lögð á að aðbúnaður dýra og umhirða sé fullnægjandi með tilliti til tegundar dýrs og aldurs. Það er auðvitað álitamál hversu nákvæmur lagatextinn þarf að vera þannig að tryggt sé að hann gegni því hlutverki sem honum er ætlað. Í fyrri gerðum frv., sem dýraverndarnefnd samdi, hefur textinn verið mun ítarlegri en er nú í þessari gerð sem ég mæli fyrir. Það hefur verið reynt að hafa einstakar greinar frv. stuttar í stað þess að útskýra öll efni í smáatriðum og áhersla lögð á að setja almennar reglur í stað þess að tíunda öll hugsanleg dæmi sem fyrir kunna að koma.
    Í 4. gr. eru ný ákvæði sem eru mikilvæg. Svokallaður verksmiðjubúskapur þar sem störfin eru vélvædd hefur færst í vöxt hér á landi hin síðari ár. Þetta gildir kannski helst um búskap með hænsnfugla og svín, kálfa, loðdýr og fiska. Eftir því sem vélvæðingin er meiri því meiri er hættan á að virkt eftirlit með líðan einstakra dýra minnki. Þess vegna þótti nauðsynlegt að setja fyrirmæli í lög, bein fyrirmæli um eftirliti með dýrum á verksmiðjubúum. Í 2. mgr. er kveðið á um að héraðsdýralæknir eða fulltrúi yfirdýralæknis skoði og samþykki vistarverur sem ætlaðar eru dýrum á tæknivæddum stórbúum.
    Í 5. gr. er fjallað um þarfir og meðferð búfjár sem gengur úti, er haldið til beitar eða látið liggja við opið að vetrarlagi. Í þeim tilvikum er skylt að hafa á staðnum vistarverur við hæfi að teknu tilliti til ólíkra þarfa hinna ýmsu tegunda og er áhersla lögð á að dýrin hafi öruggt og hentugt skjól. Orðalag greinarinnar ber þess merki að þarfir hinna ýmsu dýrategunda eru auðvitað misjafnar. Hugtökin vistarverur og öruggt skjól fela í sér mjög ólíkar kröfur eftir því um hvaða tegund dýra er að ræða. Ekki er kveðið á um daglegt eftirlit með dýrum sem látin eru liggja við opið að vetrarlagi eins og var í fyrra frv. og var ekki síst til komið vegna þekktra einstakra dæma um slæma meðferð á hrossum. Þess í stað er nú kveðið á um reglubundið eftirlit.
    Í 6. gr. er kveðið á um að umhvrh. setji í reglugerð, í samráði við landbúnaðarráðherra, nánari fyrirmæli um vistarverur og aðbúnað dýra. Slíkar reglur yrðu settar í samráði við landbrn., samkvæmt lögum um búfjárhald.
    Í 7. gr., sem er samsvarandi 3. gr. gildandi laga og fjallar um umgengni við dýr þar segir að þeim skuli sýna vægð og nærgætni í brúkun og kveðið er á um að einungis sé heimilt að nota í keppni dýr sem eru heilbrigð og vel þjálfuð.
    8. gr. samsvarar 5. gr. gildandi laga. Þar hefur engin breyting verið gerð frá fyrra frv.
    9. gr. er nýmæli í lögum um dýravernd. Hún er tilkomin vegna þess hversu algengt það er að skepnur verði fyrir ökutækjum á vegum úti. Hliðstætt ákvæði er í 1. mgr. 10. gr. umferðarlaga frá 1987.
    10. gr. samsvarar 6. og 16. gr. gildandi laga og fjallar um skyldur gagnvart sjúkum, lemstruðum eða bjargarvana dýrum. Til álita kemur að fella 9. og 10. gr. saman í eina efnisins vegna. Og ég beini því til hv. umhvn. sem fær þetta mál til meðferðar að athuga það.
    Í 11. gr. eru nýmæli en þar þykir eðlilegt að leggja þá skyldu á herðar eigendum og umsjónarmönnum dýra að þeir geri ráðstafanir til að hafa upp á dýrum sem villast eða strjúka frá heimkynnum sínum. Löggæslumönnum er heimilt samkvæmt greininni að taka þessi dýr í sína vörslu. Jafnframt er áréttað að sérreglur um skil á sauðfé samkvæmt lögum um afréttarmál og fjallskil ganga framar þessu ákvæði. Einnig er minnt á lög um varnir gegn smitandi búfjársjúkdómum þegar búfé á í hlut.
    12. gr. samsvarar 7. gr. gildandi laga og kveður á um flutning dýra en ávallt skal þess gætt að útbúnaður farartækis sé góður og eftirlit sé með dýrum meðan á flutningi stendur. Gert er ráð fyrir að umhvrh. setji nánari reglur um flutning dýra.
    III. kafli frv. fjallar um sérstakt dýrahald í atvinnuskyni, annað en í landbúnaði.
    Í 13. gr. er kveðið á um að sérstakt leyfi þurfi til hvers konar ræktunar, verslunar, þjálfunar, tamningar, geymslu og leigu dýra í atvinnuskyni sem ekki fellur undir búfjárhald. Einnig þurfi sérstakt leyfi til að setja á stofn dýragarða, dýrasýningar eða dýrahappdrætti. Sérstakt leyfi þarf einnig til að veiða villt dýr fyrir dýragarða eða önnur söfn lifandi dýra.
    Þessi grein er nokkuð ítarlegri en 4. gr. gildandi laga en samsvarar henni annars að öðru leyti.
    Varðandi hugtakið dýrahald í atvinnuskyni hefur sú leið verið valin hér að miða við að tekjur af viðkomandi starfsemi nái lágmarki virðisaukaskattslaga en þessi mörk þurfa að vera skýr svo hægt sé að framfylgja lögunum. Hér er hugsað til ýmiss konar starfsemi og má m.a. nefna ræktun hunda til sölu og tamningu hrossa. Gert er ráð fyrir að umhvrh. setji nánari fyrirmæli um leyfisveitingar í reglugerð.
    IV. kafli er um aðgerðir á dýrum og aflífun. 14. gr. svarar til 10. gr. og 11. gr. gildandi laga. Þar er kveðið á um að dýralæknum einum sé heimilt að framkvæma læknisaðgerðir á dýrum en lyfjagjafir eru þó undanþegnar þessu ákvæði.
    Gert er ráð fyrir að umhvrh. setji nánari fyrirmæli í reglugerð varðandi aðgerðir á dýrum sem eru framkvæmdar án læknisfræðilegra ástæðna.
    15. gr. samsvarar að mestu 9. gr. gildandi laga. Umhvrh. getur samkvæmt frv. einnig sett nánari reglur um hvernig skuli staðið að aflífun dýra við slátrun.
    V. kafli fjallar um veiðar á dýrum. Í honum er aðeins ein grein, 16. gr. Hún er nýmæli og er til að árétta að ávallt skuli staðið þannig að veiðum að þær valdi dýrum sem minnstum sársauka.
    Þá er hér minnt á lög um vernd, friðun og veiðar dýra en þar á ég við frv. til laga sem lagt hefur verið fram á Alþingi og verður væntanlega mælt fyrir þar sem settar eru reglur um veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Orðalag þessarar greinar er þó með þeim hætti að það ætti ekki að vera ástæða til að breyta því þó umrætt frv. um veiðar, vernd og friðun dýra nái ekki fram að ganga á þessu þingi.
    Í VI. kafla 17. gr. er kveðið á um tilraunir á dýrum og eins og ég sagði áður hefur verið fallið frá banni á tilraunum með dýr sem kveðið var á um í fyrra frv. Þess í stað er gert ráð fyrir að sérstök nefnd geti veitt leyfi til slíkra tilrauna. Þar sem hér er um að ræða sérhæfð og viðkvæm mál sem valdið geta deilum eins og dæmin sanna, þá er eðlilegt að lögfesta ákvæði þess efnis að þessi nefnd skuli skipuð sérfróðum mönnum.
    Í VII. kafla er fjallað um skipan og stjórn dýraverndarmála. 18. gr. svarar til 17. gr. gildandi laga. Ráðherra til aðstoðar er dýraverndarráð sem skipað er til fjögurra ára í senn. Þar eiga sæti fimm menn. Einn tilnefndur af Búnaðarfélagi Íslands, einn af Hinu íslenska náttúrufræðifélagi, einn af Dýralæknafélagi Íslands og einn af Sambandi dýraverndunarfélaga Íslands. Umhvrh. skipar formann ráðsins. Dýraverndarráð kemur í stað dýraverndarnefndar sem starfar samkvæmt gildandi lögum og er hlutverk þeirra sambærilegt.

    Þessi nafnbreyting er gerð til að aðgreina dýrverndarráð frá dýraverndarnefndum sem ákveðið er að skipa samkvæmt 19. gr. Kveðið er á um að við setningu reglugerðar, við leyfisveitingar og önnur stjórnvaldsfyrirmæli er varða dýravernd skuli ætíð leita eftir tillögum eða umsögnum frá dýraverndarráði. Jafnframt skal dýraverndarráð láta dýraverndarnefndum, héraðsdýralæknum, löggæslumönnum, ákæruvaldi og dómstólum í té umsagnir um málefni er varða dýravernd. Kostnaður af starfsemi ráðsins greiðist úr ríkissjóði.
    Í 19. gr. er kveðið á um að í hverju umdæmi héraðsdómstóls skuli skipa sérstaka dýraverndarnefnd. Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um skipan þessara nefnda og hlutverk. Stofnun þessara nefnda er nýmæli og meginástæðan fyrir því að þær fylgja umdæmum héraðsdómstóla, sbr. lög nr. 92/1988, er að nauðsynlegt er talið að náið samstarf verði með dýraverndarnefndum og dómsvaldi.
    Nokkur misbrestur hefur áreiðanlega verið á því á undanförnum árum að lögum um dýravernd hafi verið framfylgt. VIII. kafli frv. fjallar um eftirlit með framkvæmd og viðurlög. 20. gr. svarar til 14. gr. gildandi laga. Þar er m.a. kveðið á um skyldur þeirra sem varir verða við illa meðferð á dýrum að tilkynna það til viðkomandi aðila.
    Í 3. og 4. mgr. eru heimildir til handa dýraverndarnefndum, héraðsdýralæknum og löggæslumönnum til að grípa til aðgerða vegna brota á lögum.
    Í 21. og 22. gr. eru ákvæði þess efnis að brot á lögunum varði sektum eða varðhaldi. Jafnframt mun, ef frv. hlýtur hér jákvæða afgreiðslu, verða heimilt að svipta mann með dómi leyfi til þess að hafa dýr í umsjá sinni hafi viðkomandi gerst sekur um stórfellt eða ítrekað brot á lögunum eða þeim reglum sem settar verða með stoð í þeim.
    Í 23. gr. eru ákvæði þess efnis að foreldrum eða forráðamönnum barna er skylt að sjá til þess að börn þeirra hlýðnist fyrirmælum laganna.
    Um rannsóknir og meðferð mála vegna brota á lögum þessum skal fara samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efnisatriðum frv. Ég tel að hér hafi raunar heldur vel til tekist með þessa endurskoðun og kann þeim sem að því verki unnu þakkir. Það var löngu tímabært og er löngu tímabært að endurskoða þessi lög og færa þau til nútímans. Gildandi lög eru að mörgu leyti úrelt og það er nauðsynlegt að breyta þeim í samræmi við breytt þjóðfélag og breytta tíma og ráðuneytinu hafa víða að borist tilmæli um að samþykkja ný lög um dýravernd.
    Það er eindregin von mín að þetta frv. fái jákvæðar undirtektir á hinu háa Alþingi og að það fái afgreiðslu á yfirstandandi þingi og geti öðlast gildi á þessu ári.
    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. umhvn.