Dýravernd

125. fundur
Miðvikudaginn 10. mars 1993, kl. 15:32:30 (5863)


     Árni M. Mathiesen :
    Frú forseti. Það er hárrétt sem fram kom hjá hæstv. umhvrh. að það er löngu tímabært að endurskoða löggjöf um dýravernd. En eins og dæmin sanna hefur það ekki reynst auðvelt verk og sennilega er það vegna þess að þegar við erum að fjalla um þessi mál þá byggjum við að mestu leyti annars vegar á tilfinningum hins vegar á siðferðisvitund. Það getur oft verið erfitt að fá þetta til þess að passa við raunveruleikann og vera raunhæft en ekki að hluta til ,,útópískt`` ef svo má að orði komast. Alla vega fannst mér sem nefndarmanni í þeirri nefnd sem þetta frv. samdi nokkuð erfitt að reyna að samræma þetta tvennt og þess vegna m.a. eru þær greinar sem í frv. eru margar hverjar þannig að það má hártoga þær á ýmsa vegu og um þær deila. En það hefur verið reynt af fremsta megni að uppfylla það skilyrði að siðferðisvitund manna fái að koma þar fram en samt sem áður í samræmi við þann raunveruleika sem við búum við.
    Ég geri mér hins vegar fullkomlega grein fyrir því að það þarf ekki nema í meðallagi góðan húmorista til þess að fara í gegnum þetta frv. og snúa út úr fjöldamörgum greinum sem þar eru og sá húmor væri að sjálfsögðu á kostnað þeirra dýra sem ætlunin er að vernda. Ég fagna því að hv. þm. hafa í þessari umræðu ekki fallið í þá gryfju.
    Frv. þetta er að mínu mati í tveimur meginhlutum. Það er annars vegar sá hluti sem fjallar um þá siðferðislegu staðla sem varða umgengni okkar við dýr, hvernig við viljum að hlutirnir gangi fram og það er okkur til leiðbeiningar um það hvernig við eigum að umgangast dýrin. Hinn hlutinn er það sem varðar eftirlit með framferði okkar og framkomu við dýrin og hvernig hægt er að koma í veg fyrir að dýrum sé misboðið og koma höndum yfir þá sem slíkan verknað fremja.
    Það er kannski þessi hluti sem hefur verið hvað erfiðastur að undanförnu og þar hefur skort á lagaheimildir til þess að hægt sé að grípa inn í í tíma og forða því að dýrum sé misboðið, jafnvel síendurtekið hjá einstökum aðilum sem oft og tíðum hafa ekki verið sjálfráðir gerða sinna.
    Ég er eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. alinn upp við ,,Dýraverndarann``. Jafnvel þó hann sé töluvert eldri en ég og ég hafi ekki lesið alla sömu árganga og hann hefur lesið þá er ég sannfærður um það að hann hefur ekki lesið það í ,,Dýraverndaranum`` að það væri í lagi að marka fullorðið sauðfé án deyfingar. Eða þá að tilfinninganæmi eyrna sauðfjár sé á einhvern hátt líffræðilega öðruvísi heldur en annars þess búfjár sem hann þekkir svo vel til. Sú skýring og skilgreining sem hann gerði áðan á því hver munurinn væri á því að marka hross án deyfingar og marka sauðfé án deyfingar helgast eingöngu af notagildi þessara búfjártegunda þar sem sauðfé er notað til þess að hafa af því afurðir, aðallega til matar, en við notum hrossin til þess að temja þau og hafa af þeim skemmtun. Það er augljóslega á þeim vettvangi að það hamlar því að við getum haft eðlilega umgengni og tamið hrossin á eðlilegan hátt ef við höfum hvekkt þau á þann hátt að eyrnamerkja þau án deyfingar. En þess konar umgengni höfum við ekki við sauðfé og nýtum sauðfé ekki í þeim sama tilgangi. Ég er honum algjörlega ósammála um það að forsvaranlegt sé að eyrnamerkja fullorðið sauðfé án deyfingar.
    Hv. 4. þm. Austurl. ræddi aðeins um ketti og kattahald og hvernig því væri öðruvísi farið heldur en með ýmsar aðrar skepnur sem við eigum og höfum á heimilum okkar og þá á hann væntanlega við hunda. Hundar og kettir eru hvorttveggja ákaflega skemmtilegar skepnur sem gaman er að fást við en þetta eru afskaplega ólíkar dýrategundir og af því væntanlega helgast það mismunandi viðhorf og sá mismunandi háttur sem við höfum á því að umgangast og halda þessar skepnur.
    Því var lýst fyrir mér að mér fannst á mjög skemmtilegan hátt að hundurinn þarfnaðist félagsskapar við húsbónda sinn og umgengni við hann en kötturinn léti sig hafa það að umgangast manninn. Ég held að þetta lýsi nokkuð vel þeim mun sem er á því að umgangast þessar skepnur.
    Ég get tekið undir að ýmislegt mætti betur fara í sambandi við kattahaldið og sérstaklega hvað varðar það hvað kettir eiga það til að týnast. Það hefur verið gerð gangskör að því alla vega á höfuðborgarsvæðinu að kettir væru eyrnamerktir þannig að það væri hægt að þekkja þá á númerum sem hægt er að lesa úr húðflúri í eyrunum á þeim og held ég að það sé til fyrirmyndar og eftirbreytni og ætti að hvetja til þess að það væri gert sem oftast og sem víðast. Vegna þess sem fram hefur komið á undan þá er rétt að taka fram að allar þessar eyrnamerkingar hafa farið fram undir deyfingu.
    Ég tel að það hvernig við förum með dýr sé merki um það á hvaða menningarstigi við erum sem þjóð og ég er sannfærður um það að þetta frv., ef það verður að lögum, mun gera okkur auðveldara að umgangast skepnurnar á réttan og viðeigandi hátt og koma í veg fyrir það að þeim sé á nokkurn hátt misboðið.