Dýravernd

125. fundur
Miðvikudaginn 10. mars 1993, kl. 15:56:59 (5866)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hlýt að vera knúinn til að mótmæla þessum furðulegu, röngu og órökstuddu ummælum hv. þm. sem hann viðhafði í ræðustóli áðan. Það er nú svo að það er embætti veiðistjóra sem fylgist með hreindýrastofninum hér á landi og gerir tillögur um það hvað skuli felld mörg dýr á ári hverju og hvað talið er að þau landsvæði, þar sem dýrin ganga, þoli. Það hefur verið farið eftir þeim tillögum og ég vísa algerlega á bug þeim ummælum sem hv. þm. lét sér sæma að viðhafa hér í þessum ræðustóli, að umhvrh. sem hann vildi útmála sem sérstakan fjandmann hreindýranna, væri eini aðilinn sem hefði leyfi til þess, eins og hann orðaði það svo smekklega, ,,að setja á guð og gaddinn``. Ég vísa þessum röngu, órökstuddu ummælum auðvitað algerlega á bug. Þau eru hv. þm. ekki til mikils sóma sem hér hefur nú um stundarsakir viðdvöl á hinu háa Alþingi.