Verndun keilustofnsins

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 10:39:42 (5872)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Það er rétt að árétta það að í áliti Hafrannsóknastofnunar segir að þrátt fyrir að afli á sóknareiningu hafi minnkað á afmörkuðu svæði, þá þurfi það ekki að benda til þess að stofninn sé í hættu. En stofnunin hefur vakið athygli á þessari þróun og talið nauðsynlegt að takmarka veiðarnar við ákveðið mark. Það hefur ekki enn komið til þess að ákveðið yrði að setja þennan stofn í aflamark. Ég tel að þó að það geti alveg komið til álita, þá hafi það ekki verið tímabært fram til þessa.