Dragnótaveiðar á Faxaflóa

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 10:43:34 (5874)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Dragnótaveiðar voru bannaðar í Faxaflóa árið 1971 og á árunum 1976, 1977 og 1978 gerði Hafrannsóknastofnun tilraunir til skarkolaveiða með dragnót í Faxaflóa. Þessar tilraunir gengu vel og þótti sýnt að hægt væri að veiða umtalsvert magn af skarkola án þess að tekinn væri bolfiskur sem einhverju næmi. Var tveimur bátum veitt leyfi til tilraunaveiða haustið 1979. Eftir að bann við dragnótaveiðum var fellt úr gildi með lögum 1985 og með auknum afla og reynslu af dragnótaveiðum á skarkola í Faxaflóa var bátum fjölgað nokkuð og árin 1985--1991 stunduðu tíu bátar þessar veiðar flest árin auk þess sem fjórir til fimm voru við veiðar á sandkola í utanverðum Faxaflóa hin seinni ár. Á síðustu vertíð var ekki greint milli þeirra báta sem stunduðu skarkolaveiðar og þeirra sem stunduðu sandkolaveiðar og voru 15 bátar við veiðar.
    Eins og áður segir voru forsendur fyrir þessum leyfum fyrst og fremst veiðar á skarkola en hin seinni ár hafa veiðar á sandkola farið vaxandi. Ákvarðanir um veiðisvæði, veiðitíma og veiðimagn hafa verið teknar á grundvelli tillagna frá Hafrannsóknastofnun. Hefur heildarkvótinn á skarkola verið á bilinu 1.300--1.500 lestir en ekki hefur verið ákveðinn heildarkvóti á veiðum á sandkola.
    Varðandi þessar veiðar er rétt að benda á að þær eru háðar mjög ströngum skilyrðum, einkum varðandi hlutfall bolfisks í afla og möskvastærð í dragnót. Hlutfall bolfisks af skarkola má ekki fara yfir 15% og fari bolfiskur yfir þau mörk er andvirði hans gert upptækt. Lágmarksstærð möskva er 155 mm en 135 mm við veiðar á öðrum svæðum utan Faxaflóa, enda eingöngu mjög stór bolfiskur sem í dragnótina veiðist. Eftirlit með þessum veiðum er mjög mikið og má fullyrða að engar veiðar séu undir eins ströngu eftirliti.
    Ráðuneytinu er ljóst að dragnótaveiðar sæta nokkurri gagnrýni frá smábátamönnum en hins vegar verður að hafa í huga að við þessar veiðar eru fyrst og fremst teknar fisktegundir sem ekki fást í önnur veiðarfæri sem leyfilegt er að nota í Faxaflóa. Það má að vísu segja að hægt væri að ná hluta skarkolans í botnvörpu á öðrum tíma árs, einkum eftir að kolinn gengur út úr flóanum en þá er hann horaðri og þar af leiðandi lélegra hráefni sem mun minna verð fæst fyrir. Enn fremur er dýrara að ná honum í vörpu en dragnót. Má og minna hér á að þeir bátar sem dragnótaveiðarnar hafa stundað eru með háan skarkolakvóta sem mundu vart gagnast þeim nytu þeir ekki heimildar til veiða í Faxaflóa. Jafnframt hafa þessir bátar í raun sætt skerðingu í öðrum veiðiheimildum vegna þessara veiða.
    Til þess að sýna þýðingu þessara veiða og jafnframt það hve lítið er tekið af bolfiski við þessar veiðar skal þess getið að á árinu 1991 voru 1.250 lestir af skarkola og 800 lestir af sandkola veiddar í Faxaflóa en aðeins rétt um 150 lestir af þorski og ýsu samtals. Á síðasta sumri voru veiddar um 1.060 lestir af skarkola og 1.020 lestir af sandkola en aðeins 160 lestir af þorski og ýsu.
    Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið verður ekki séð að neinar forsendur séu fyrir því að hætta þessum veiðum og tel ég því einsýnt að þeim verði haldið áfram með svipuðum hætti og undir ströngu eftirliti eins og gert hefur verið til þessa.