Dragnótaveiðar á Faxaflóa

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 10:50:21 (5877)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Það hefur verið deilumál lengi hvort leyfa ætti þessar dragnótaveiðar. Ég verð að segja eins og er að mér finnst að vísindamenn ættu að taka meira mark á sjómönnum sem þekkja miðin best af öllum. Þarna hefur það verið ítrekað reynt. Það er ekki eins og það sé í fyrsta skipti verið að reyna dragnót á Faxaflóa. Þetta er þriðja tilraun og það sækir alltaf í sama farið í hvert skipti sem menn reyna þetta. Menn telja að það dragi úr öðrum veiðum.
    Ég batt nokkrar vonir við það þegar hæstv. sjútvrh., sem reyndar hefur ekki sýnt það af sér að hann vilji breyta mikið út af stefnu framsóknarmanna sem áður stjórnuðu sjútvrn., tók upp á því að færa út landhelgina fyrir suðurströndinni einmitt af þeim ástæðum, sem við erum að tala hér um, að það þurfi að hætta dragnótaveiðum í Faxaflóanum, og hann mundi halda því áfram. Ég vil enda á því að spyrja, hæstv. forseti, hæstv. sjútvrh. hvort sú nefnd sem átti að skila tillögum um þessa útfærslu landhelginnar sé ekki að fara að skila af sér tillögum vegna þess svæðis.