Endurskoðun laga um mannanöfn

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 11:01:20 (5883)

     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Hér er hreyft mjög vandmeðförnu máli. Ég hygg að það sé almenn samstaða um það meðal íslensku þjóðarinnar að varðveita íslensk mannanöfn og þær hefðir við mannanöfn sem myndast hafa. Sú löggjöf sem síðast var sett um þetta efni miðaði að því að fylgja þessari stefnu fram. Hinu er ekki að leyna að talsverðrar óánægju hefur gætt varðandi framkvæmd laganna og til ráðuneytisins hafa borist mjög margar kvartanir af þessum sökum og mér er einnig kunnugt um það að málum hefur verið skotið til umboðsmanns Alþingis.
    Nýlega gerðist það að mannanafnanefnd sagði af sér og tekur sú afsögn gildi 15. mars nk. Ástæða afsagnarinnar, eins og fram kemur í bréfi nefndarinnar til ráðuneytisins, er fyrst og fremst óánægja með þá starfsaðstöðu sem nefndin telur að henni hafi verið búin. Nefndin fær á fjárlögum 400 þús. kr. á ári til þess að sinna sínum verkum auk þess sem ráðuneytið hefur boðið fram alla venjulega skrifstofu- og ritaraaðstöðu vegna starfa nefndarinnar. En af þessu tilefni og vegna þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið hefur ráðuneytið tekið þá ákvörðun að láta endurskoða lögin með tilliti til þeirrar reynslu sem fengin er. Í bréfum til tilnefningaraðila, heimspekideildar háskólans og lagadeildar háskólans þar sem óskað var eftir tilnefningu nýrra manna í mannanafnanefnd, var greint frá þessari ákvörðun en það bréf var sent viðkomandi háskóladeildum 5. mars sl.