Ár aldraðra

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 11:19:45 (5891)

     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegur forseti. Samstarfsnefnd um málefni aldraðra og Öldrunarráð Íslands eru nú að undirbúa ýmsa viðburði á ári aldraðra 1993. Það verður efnt til verulega myndarlegrar hátíðar hér í miðbæ Reykjavíkur í tilefni ársins, það verður efnt til menningarviðburða í tengslum við málefni aldraðra á árinu 1993 um allt land. Þannig að allir þeir sem sinna málefnum aldraðra frá degi til dags gera sér grein fyrir því að hér er Ísland aðili eins og ég sagði áðan að fjölþjóðasamstarfi, upphaflega Evrópuþjóðanna allra en síðan Norðurlanda um málefni aldraðra.
    Það er hins vegar svo dapurlegt, virðulegi forseti, og ég ætla ekki að orðlengja um það frekar, að það er einn aðili á Íslandi sem veit ekki að það er ár aldraðra 1993, en það er slæmt að það skuli vera hæstv. heilbrrh.