Námsstyrkir doktorsefna

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 11:28:27 (5902)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Það er eðlilegt að líta á styrki til námsmanna í langskólanámi í samhengi við vísindastefnu stjórnvalda og skipan vísindamála. Með bréfi dags. 24. apríl sl. var samstarfsnefnd Vísindaráðs og Rannsóknaráðs ríkisins falið að endurskoða lög nr. 48/1937, um Vísindaráð og Vísindasjóð, Rannsóknaráð ríkisins og Rannsóknasjóð. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í lögunum skal endurskoða þau innan 5 ára frá gildistöku. Í fyrrnefndu bréfi var þess sérstaklega óskað að við endurskoðun lagaákvæða um Vísindasjóð verði hugað sérstaklega að því hvernig gera megi sjóðnum kleift að veita í stærra mæli en nú styrki til þeirra sem leggja stund á vísindalegt framhaldsnám að loknu háskólaprófi. Samstarfsnefndin taldi rétt að vinna við endurskoðun laganna biði eftir niðurstöðu OECD-athugunar á stöðu vísinda, tækni og nýsköpunar hér á landi og stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki.
    Í framhaldi af birtingu OECD-skýrslu síðla árs 1992 um stöðu vísinda, tækni og nýsköpunar hér á landi þar sem m.a. var fjallað um eflingu rannsóknamenntunar fól ég Ólafi Davíðssyni, ráðuneytisstjóra í forsrn., og Þórólfi Þórlindssyni prófessor að gera tillögu til ríkisstjórnarinnar um mótun vísinda- og tæknistefnu. Í erindisbréfi þeirra er m.a. tekið fram að tillögurnar skuli fjalla um rannsóknamenntun og tengsl hennar við nýsköpun í atvinnulífi. Gera má ráð fyrir að þessir embættismenn skili tillögum á næstu vikum sem verða þá kynntar fyrir ríkisstjórn og Alþingi. Í kjölfar þessa starfs verður lokið við endurskoðun laga nr. 48/1987 og m.a. bætt við þau nauðsynlegum ákvæðum um styrki til nemenda í langskólanámi. Gert er ráð fyrir að þessari endurskoðun verði lokið í sumar og lagafrv. verði lagt fram á Alþingi næsta haust.
    Mér er kunnugt um hluta tillagna nefndarinnar þar sem gert er ráð fyrir þrenns konar styrkjum. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að veita nemum styrki við rannsóknatengt framhaldsnám sem nefndin leggur til að komið verði á fót við Háskóla Íslands á næstunni. Í öðru lagi er gert ráð fyrir styrkjum sem veittir yrðu til rannsóknarverkefna ungra vísindamanna sem eru að hasla sér völl hér á landi að loknu doktorsnámi erlendis. Samhliða þessu er svo í þriðja lagi verið að vinna að tillögum um styrki fyrir doktorsnema.
    Styrkveitingar til námsmanna í langskólanámi hafa einnig verið til umfjöllunar á öðrum vettvangi. Nefnd ríkisstjórnarinnar sem hefur fjallað um ráðstöfun hluta tekna af sölu ríkisfyrirtækja til rannsókna- og þróunarstarfs hefur lagt til að hluti þessara sölutekna gangi í sérstakan sjóð sem verði í vörslu Vísindaráðs. Hlutverk þess sjóðs sé tvíþætt: Sjóðurinn skal efla verkefnatengt framhaldsnám í samvinnu við Háskóla Íslands með því að koma á fót styrkþegastöðum þar sem námsmenn vinna undir leiðsögn fræðimanns að rannsóknarverkefnum í tengslum við atvinnulífið, t.d. í samvinnu við rannsóknastofnanir eða fyrirtæki. Og í öðru lagi: Sjóðurinn skal veita ungum vísindamönnum styrk sem eru að hasla sér völl hér á landi að loknu námi erlendis. Fjármunir sjóðsins verði aðgreindir frá fjárhag Vísindaráðs og Vísindasjóðs. Sérstakri matsnefnd skal falið að meta umsóknir og mikilvægi þeirra fyrir nýsköpun í vísindastarfsemi hér á landi. Leggja skal áherslu á að aðstaða og mótframlög stofnana háskólans, rannsóknasjóða rannsóknastofnana atvinnulífsins og/eða fyrirtækja nýtist sem best á móti styrkjum úr sjóðnum. Gert er ráð fyrir að á þessu ári verði 37,5 millj. kr. til ráðstöfunar í þessu skyni ef sala ríkisfyrirtækja gengur samkvæmt áætlun.
    Tekið skal fram að enn hafa ekki verið mótaðar tillögur um styrki til doktorsefna sem eru í námi erlendis, en ég legg áherslu á að um þær verði fjallað í fyrrgreindu lagafrv. um skipan vísindamála.