Námsstyrkir doktorsefna

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 11:32:23 (5903)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli því að þegar lög um Lánasjóð ísl. námsmanna voru til umræðu vorið 1992 var vísað á Vísindasjóð varðandi þá sem eru í doktorsnámi og ýmsu framhaldsnámi. Þaðan áttu að koma styrkir sem áttu að koma í veg fyrir það að fólk þyrfti að taka námslán mjög lengi og skapa sér þannig byrðar sem ekki yrði staðið undir. En það hefur ekkert bólað á þessum styrkjum og árin líða. Samkvæmt þeim upplýsingum sem hér komu fram hjá

hæstv. menntmrh. sýnist mér að ef við bregðumst nú skjótt við hér á þingi og afgreiðum þessar tillögur, sem vonandi verða nú góðar, sé það hugsanlegt að þessir styrkir komist í gagnið veturinn 1994--1995. Það þýðir að hér munu líða a.m.k. nokkur ár sem nemendum verður gert að leita til lánasjóðsins.
    En hér féll líka gullvæg setning í lok ræðu hæstv. menntmrh. þar sem hann sagði ,,ef sala ríkisfyrirtækja gengur samkvæmt áætlun``. Í gær var það upplýst í fréttum að menn eru að gefast upp við það að selja Búnaðarbankann sem átti að skila ríkissjóði 1 milljarði og við höfum reynslu af því . . .   ( Forseti: Ég verð að biðja hv. þm. að ljúka máli sínu.) Ég er að ljúka máli mínu, forseti. Ég ætla bara að segja það að einkavæðing . . .  ( Forseti: Hv. þm. er kominn hálfa mínútu fram yfir tíma sinn og það er meira en helmingurinn af ætluðum tíma til að ræða hér málin úr ræðustól.) Ég verð að hlýða hér úrskurði forseta, en mér þykir leitt að fá ekki að ljúka hér máli mínu. ( Forseti: Spurningin fjallar ekki um það að hlýða úrskurði forseta heldur að lúta þingsköpum.)