Námsstyrkir doktorsefna

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 11:38:57 (5907)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Við höfum ítrekað orðið vitni að því þegar hæstv. forseti sem nú situr í forsetastól vill fylgja reglum um þingsköp sem í sjálfu sér er mjög eðlilegt, ekkert nema gott um að segja, virðist ekki hafa alveg sömu reglu á því að fylgja því fram eins og aðrir forsetar. Hann hefur bent á það að við höfum hér ljós í borði og hann slær í bjöllu til þess að vekja athygli á því að menn séu búnir með tíma sinn, en hann gerir þá undantekningu sem yfirleitt ekki aðrir forsetar gera að grípa ítrekað fram í fyrir ræðumanni á meðan hann talar. Ég vil spyrja hvort hæstv. forseta finnist það eðlilegt þegar hann er að áminna þingmenn um kurteisi og að fylgja settum reglum að fara þannig að.