Námsstyrkir doktorsefna

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 11:41:32 (5909)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Mér fannst eins og hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur og Svavari Gestssyni þætti það eitthvað undarlegt að ég hefði fyrirvara um það að fjármunir skiluðu sér, það færi sem sagt eftir því hvernig sala ríkisfyrirtækja gengi. Mér finnst það eðlilegt að hafa þann fyrirvara. Við vitum ekki nákvæmlega enn þá hvað kemur inn fyrir sölu ríkisfyrirtækja á næstunni og þess vegna hlýt ég að hafa þann fyrirvara á í mínu máli.
    Hv. þm. Svavar Gestsson sagði að það væri nú svo að mönnum tækist ekki að ljúka námi vegna þess hvernig farið hefði verið með Lánasjóð ísl. námsmanna. Þarf ég að nefna það einu sinni enn að þær aðgerðir sem við gripum til í sambandi við Lánasjóð ísl. námsmanna voru einmitt gerðar til þess að tryggja það að námslán yrðu ekki lækkuð? Það hefur orðið nokkur tilfærsla eins og t.d. sú að það er minna fjölskyldutillit en áður þó að það sé það hæsta sem við þekkjum í nokkru landi hér í kringum okkur.
    Ég skil heldur ekki þann tón sem er í ræðum manna. Þetta er í fyrsta skipti sem talað er um að veita beina styrki til náms, það er í fyrsta skipti. Það hefur ekki verið gert áður. Það eru engir beinir styrkir vegna þessa. Að vísu úthluta bæði Rannsóknaráð og Vísindasjóður styrkjum, það er rétt. En hér er verið að brydda upp á alveg nýjum flokki til rannsóknatengds náms og til doktorsnáms. Það er það sem verið er að gera.
    Vísindasjóður þarf auðvitað að fá mjög aukin framlög og það er gert ráð fyrir að Vísindasjóður fái 150 millj. kr. í tillögum sem að vísu hafa ekki enn verið staðfestar í ríkisstjórninni og við vonum auðvitað að það gangi eftir. Það er rétt sem hv. fyrirspyrjandi Össur Skarphéðinsson hafði hér eftir mér að ég treysti því að á næsta þingi verði lagt fram frv. sem fjallar um þessi efni og ég legg áherslu á það eins og fyrirspyrjandi að það er mikil þörf á sérfræðingum á ýmsum sviðum og hafi orð mín verið misskilin, þá leiðrétti ég þau. Þetta má ekki eingöngu tengjast atvinnulífinu. Ég er alveg sammála því.