Endurskoðun laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 11:54:46 (5915)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Það hefur nokkrum sinnum í umræðunni um Lánasjóð ísl. námsmanna komið fram gagnrýni á það ákvæði laganna hversu mikið vald, eins og það er kallað, stjórn sjóðsins er falið. Það er rétt að hún hefur meira vald en var í fyrri lögum. Ég tek ekki undir þá gagnrýni sem hér hefur oft komið fram vegna þessa ákvæðis. Ég vil geta þess í þessu samhengi þó að ég hef ákveðið að setja reglugerð um lánasjóðinn. Það gerði ég ekki þegar lögin voru sett vegna þess að sú lagaskylda hvíldi ekki á mér. Það var líka breyting frá fyrri lögum. En heimild er til að setja reglugerð. Þá heimild ætla ég mér að nota og geri ráð fyrir að reglugerð verði sett nú á allra næstu vikum. Jafnframt mun ég þá staðfesta endurskoðaðar lánareglur og vinnureglur sjóðsins. Ég upplýsti það hér fyrir fáum dögum að þær reglur væru í endurskoðun. Nokkur reynsla er komin af fyrstu úthlutunum og sú reynsla verður nýtt til þess að yfirfara reglurnar og breyta þeim eftir því sem þörf gerist. Þetta vildi ég upplýsa vegna orða hv. þm.