Íslenskukennsla fyrir fullorðna nýbúa

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 12:04:51 (5919)

     Fyrirspyrjandi (Guðrún J. Halldórsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Það gleður mig að heyra að hæstv. menntmrh. er allur af vilja gerður að greiða sem best úr þessum vanda sem við stöndum frammi fyrir. Mér finnst ánægjulegt að vita að hann skuli ætla að beita sér fyrir auknum fjárframlögum til þessa verks því að það er fyrirsjáanlegt að það fé sem nú er fyrir hendi til þess að greiða bæði námsefnisgerðina, sem hæstv. ráðherra nefndi, og líka kennsluna er aðeins dropi í hafið.
    Eins og ég sagði áðan þegar ég var í ræðustól þá er því þannig varið að sumt það fólk sem kemur hingað til Íslands talar tungu sem enginn á Íslandi skilur og er afskaplega brýnt að geta komist í samband við það og veitt því þá mögulegu þjónustu að geta tjáð sig við þá sem það þarf. Ég nefni t.d. að hingað fluttu sex Albanir og þó að leitað væri með logandi ljósi um allt Ísland, þá fannst ekki nokkur maður sem gat talað við þá. Vandinn í þessum málum er því geysistór auk þess sem menntunarstaðall margra þeirra sem hingað flytja er mjög veikur eins og hæstv. menntmrh. nefndi og þarf að gera sérstakt átak vegna þess. Það eru mjög oft mæður barna sem eiga eftir að alast upp í þessu þjóðfélagi sem ekki eru vel skrifandi eða læsar jafnvel á móðurmálið. En betur má ef duga skal en það sem komið er. Þó er gott að reynt skuli að gera eitthvað og ég vonast til að því verði haldið áfram og aukið sem mest.