Námskeið og námsgögn fyrir nýbúabörn

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 12:12:16 (5922)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Það er spurt hvort ráðherra muni standa fyrir sumarnámskeiðum fyrir nýbúabörn í samvinnu við Reykjavíkurborg á sumri komanda. Hugmyndir í þessa veru hafa verið til umræðu og hafa m.a. verið kynntar borgarstjóranum í Reykjavík. Engar ákvarðanir hafa enn verið teknar. Hins vegar er ákveðið, sem ég vil upplýsa í sambandi við þessa fsp., að Kennaraháskóli Íslands standi fyrir námskeiði sumarið 1993 fyrir kennara sem kenna nýbúum íslensku.
    Í öðru lagi er spurt: ,,Hversu miklu fé mun ráðherra láta verja til námsgagnagerðar í íslensku fyrir nýbúabörn á árinu 1993?`` Því er til að svara að það er ekki ætlað fé sérstaklega til námsgagnagerðar vegna íslenskukennslu nýbúabarna. Hjá Námsgagnastofnun er hins vegar hægt að fá efni af ýmsu tagi sem nýtist vel í þessu skyni. Fé sem ríkið ætlar til að sjá nemendum grunnskóla fyrir námsgögnum rennur til Námsgagnastofnunar. Stofnunin hefur tekið vel í óskir um að útbúa sérstök námsgögn fyrir íslenskukennslu nýbúa á grunnskólaaldri. Samning slíks efnis tekur hins vegar tíma og er ýmsum vandkvæðum bundin vegna þess að notendahópurinn er afar sundurleitur.