Námskeið og námsgögn fyrir nýbúabörn

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 12:18:32 (5926)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson spurði hver mundi greiða námsgögn ef svo færi sem tillögur eru uppi um að flytja grunnskólann alfarið til sveitarfélaganna. Nú er það svo, eins og menn vita en þó sýnist mér eins og ekki viti það allir, að það er ekkert annað eftir af grunnskólanum hjá ríkinu en kennaralaunin og stjórnunarkostnaður. Allur annar rekstur er kominn til sveitarfélaganna fyrir nokkru.
    Um námsgögnin hefur ekki verið tekin nein sérstök eða endanleg ákvörðun. Það verður auðvitað rætt og koma vafalaust fram tillögur um það í lokaskýrslu nefndarinnar um mótun menntastefnu. Mér er alveg ljóst að það skiptir mjög miklu máli hvernig með þetta atriði er farið. Það eru engar hugmyndir uppi um að hið opinbera, skulum við orða það, hætti að greiða námsgögn í grunnskólum. Það er mín skoðun að það eigi að vera svo áfram en spurningin er hvort það viðfangsefni á að flytjast með til sveitarfélaganna. Því get ég ekki svarað ákveðið á þessari stundu en tel ekki að það atriði ætti að standa í vegi fyrir þessum flutningi sem ég veit þó að er umdeilt mál.
    Mér er ekki kunnugt um hvort úttekt hafi verið gerð á því hvernig nýbúum hefur vegnað eins og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir spurði, en það er sjálfsagt viðfangsefni sem væri vert að kanna.